11.04.1984
Efri deild: 79. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4619 í B-deild Alþingistíðinda. (3993)

251. mál, eiturefni og hættuleg efni

Frsm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. heilbr.- og trn. á þskj. 560, um frv. til l. um eiturefni og hættuleg efni, nr. 85/1968, með síðari breytingum. Frv. þetta lýtur að því að þrengja útgáfu eiturbeiðna tiltekinna eiturefna í flokkum I og II þannig að þau megi aðeins láta úti einu sinni á sama hátt og gildir um útgáfu lyfseðla. Einnig er gildistími þrengdur og verður hámark eitt ár frá útgáfudegi.

Þá er einnig gert ráð fyrir að heimila fyrirtækjum sem flytja inn eiturefni til eigin þarfa að selja öðrum af birgðum sínum. Nefndin fékk formann eiturefnanefndar, Þorkel Jóhannesson, á sinn fund. Svaraði hann fyrirspurnum nefndarmanna um starfshætti eiturefnanefndar. Það kom fram í þeim viðræðum að þessi breyting á útgáfu leyfisskírteina tekur ekki til þeirra manna sem starfa í landbúnaði og garðyrkju eða við meindýraeyðingu og þurfa stöðugt að hafa með höndum slík efni sem heyra undir X- og A-flokka. Þeirra leyfi eru útgefin til þriggja ára. En ætla má að þessir aðilar hafi þá þekkingu til að bera á notkun slíkra efna að óþarft sé að setja tímamörk á útgáfu slíkra leyfa því að þessir aðilar fá kennslu t. d. í Garðyrkjuskóla ríkisins í meðferð eiturefna.

Nefndin mælir með samþykkt þessa frv. með tveimur breytingum. Þær eru ekki efnislegar heldur er þar aðeins um orðalagsbreytingar að ræða. Undir nál. skrifa Davíð Aðalsteinsson, Helgi Seljan, Karl Steinar Guðnason, Kolbrún Jónsdóttir, Lárus Jónsson, Árni Johnsen og Salome Þorkelsdóttir.