11.04.1984
Efri deild: 79. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4621 í B-deild Alþingistíðinda. (3998)

182. mál, umferðarlög

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Ég vil minna á það að við búum í landi sem er þeim kostum búið að hér er bjart svo til allan sólarhringinn ákveðinn hluta ársins. Og ég vil minna á það að fara ætti varlega í að flytja inn ýmsar erlendar hugmyndir þótt þær kunni að henta í ákveðnum löndum. Ég tel einmitt þennan þátt þessa frv., ljósaskylduþáttinn, vera þess eðlis að hann eigi ekki við í okkar landi. Ég vil taka undir orð hv. 3. þm. Vesturl. Ég er sammála þessu frv. í meginmáli en þykir ekki ástæða til að styðja slíka ljósaskyldu og vil enn benda á það, að það er reynsla af því hér á landi að almennt er hægt að treysta ökumönnum til þess að aka með ljósum þegar þörf krefur við erfið skilyrði, hvort sem það er á skyldum ljósatíma eða ekki. Þess vegna tel ég þetta atriði í frv. óþarft.