13.10.1983
Sameinað þing: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal gjarnan gera aðra tilraun til að svara spurningum hv. þm. Ég hélt satt að segja að það hefði komið skýrt fram hjá mér áðan að ég er fylgjandi tillögum meiri hluta stjórnarskrárnefndar. Ég sagði það. Ég er fylgjandi þeirri tillögu stjskrn. að þing verði kvatt saman 10. okt. eins og þar er gert ráð fyrir. Ég er ekki fylgjandi tillögu Alþfl. um að þing sitji allt árið.

Ég er einnig fylgjandi 26. gr. hjá stjskrn. um brbl. Og af því að sérstaklega var komið inn á það og fullyrt af hv. þm. Svavari Gestssyni að þær tillögur sem þar eru lagðar fram væru freklega brotnar, þá vil ég taka fram nokkur atriði um það. Reyndar get ég vísað að nokkru til þess sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði hér áðan. Í þeirri nýskipan sem er gert ráð fyrir og er vissulega eingöngu í tillöguformi segir um 26. gr. með leyfi forseta:

„Þegar brýna nauðsyn ber til getur forseti að tillögu ráðh. gefið út brbl. milli þinga, en efni þeirra skal áður kynnt fyrir viðkomandi þingnefnd. Ekki mega þau þó brjóta í bága við stjskr. Ætíð skulu þau lögð fyrir næsta Alþingi í upphafi þings. Nú hefur Alþingi ekki samþykkt brbl. þremur mánuðum eftir að þing er sett og falla þau þá úr gildi.“

Ég tel að við höfum framfylgt þessu eins og við frekast gátum, því eins og greinilega kom fram hjá hv. þm. Jóni Baldvin, þá verður að spyrja: Hvaða þingnefndir átti að kveðja saman til að líta á brbl. eftir kosningar? Þess hefur verið gætt að leggja þessi brbl. fram í upphafi þings. Kannske mætti einnig fara í gegnum söguna, t.d. í stjórnartíð hv. þm. Svavars Gestssonar, og athuga hvort það hafi í öllum tilfellum verið gert. Það er gert nú. Brbl. eru öll lögð fram í upphafi þings. Og hér er ekki um það að ræða að þau falli úr gildi þremur mánuðum eftir að þau eru sett, eins og skilja mátti á ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar, heldur: Hafi þau ekki verið samþykkt þremur mánuðum eftir að þing kemur saman. Ég vænti þess sannarlega að þau verði afgreidd fyrir þann tíma. Að því er einnig stefnt.

Mig skal ekki undra þó að norskir þm. hafi orðið orðlausir ef þeir hafa orðið að hlusta á ræðu eins og hv. þm. Svavar Gestsson flutti hér áðan. Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um það, þó að það mætti vel gera og kannske rifja upp ýmislegt úr okkar samstarfi í ríkisstj. sem væri líklega fróðlegt fyrir alþjóð að heyra. (Gripið fram í.) Mér þykir satt að segja svolítið furðulegt þegar menn skipta svo skjótt um lit eins og hv. þm. Svavar Gestsson gerir. Við fáum eflaust tækifæri til að rekja það nánar síðar.

Hv. þm. telur að nú hafi þverlega verið brotið gegn lýðræðinu. Ég held að við höfum komist einna næst því þegar við létum kyrrt liggja að það voru gefin út brbl. 21. ágúst í fyrra og það lá fyrir að ekki var fyrir því meiri hluti á Alþingi. Ég verð að viðurkenna að maður veltir dálítið vöngum yfir því, en ekki þegar gefin eru út brbl. í fullu samræmi við stjskr. og fyrir liggur að 37 þm. fylgja þeim.

Hv. þm. spurði um nokkur atriði sem ég skal svara. Ég mun gera ráðstafanir til þess að tilnefndur verði maður í stað dr. Gunnars heitins Thoroddsens, sem var form. stjskrn. og verður þar farið eftir þeirri þáltill. sem samþykkt var á Alþingi. Störfum stjskrn. er að verulegu leyti lokið, en þó mun hún eiga eftir að fjalla um starfshætti Alþingis og persónukjör. Ég geri ráð fyrir því að það þurfi ekki að taka langan tíma.

Hæstv. fjmrh. hefur rætt nokkuð um rit og fundi sem hv. þm. spurði um. Þessi ríkisstj. hefur litið á það sem skyldu sína að upplýsa almenning um það sem hún er að gera og mun gera það áfram. Ég get upplýst það að útgáfukostnaður þessa rits er áætlaður 95 þús. kr. Dreifingarkostnaður liggur ekki endanlega fyrir, en þar mun að sjálfsögðu verða farið eftir þeim taxta sem póstur hefur.

Ég vil leggja áherslu á það að hvorki í þessu riti né á fundum hefur í nokkru orði verið hallað á hv. stjórnarandstöðu. Meira að segja hef ég gætt þess að minnast ekki á hv. þm. Svavar Gestsson einu orði. Mér skilst að öðru máli gegni um hv. þm. á hans fundum, að hann minnist ekki á mig. Sem betur fer, það er gott að manns er minnst. En ég hef ekki séð ástæðu til að minnast á hv. þm. né aðra stjórnarandstæðinga.

Ég sé ekki ástæðu til að fara orðum um ýmislegt fróðlegt sem hér hefur komið fram og ég tek undir að þarf að ræða. Væntanlega gefst tækifæri til þess þegar stjórnarskrárbreytingar verða ræddar. Stjórnarskránni þarf að breyta og ég vona að tillögur um það liggi fljótlega fyrir á hinu háa Alþingi.