02.11.1983
Neðri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

11. mál, launamál

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það vekur enga undrun að það frv. til l. um launamál sem hér er á dagskrá hleypi miklu fjöri í umr. Hér er vissulega verið að setja lög sem skerða frelsi í landinu. Þau voru sett á þeim tíma þegar meiri verðbólga var orðin á Íslandi en við höfum áður lifað. Og þau voru sett m.a. með það að markmiði að hægt væri að skapa þann grundvöll að gjaldmiðill þjóðarinnar næði þeirri stöðu að hægt væri að semja um kaup og kjör og miða við gjaldmiðilinn en ekki við ákveðið vísitölukerfi.

Ég tel að til þess að hægt sé að semja um kaup og kjör, þar sem miðað er við gjaldmiðil en ekki vísitölukerfi, verði verðlag að vera orðið nokkuð kyrrstætt og verðbólga fremur lítil. Því hefur verið haldið fram að sú undirskriftasöfnun sem átt hefur sér stað í landinu sanni það að svo stórir hópar þessa þjóðfélags séu andvígir þessum lögum að það sé nánast brot á öllum leikreglum lýðræðisins að fella þau ekki úr gildi nú þegar. Í þessu sambandi langar mig til með leyfi forseta, að vitna hér í rit eftir Símon Jóh. Ágústsson sem heitir Sálarfræði. Og því vitna ég í þetta rit að þeir menn sem harðast hafa áróðurinn rekið og telja að hér sé verið að vega að lýðræðinu hafa að mínu viti velflestir lesið það sem hér stendur og einnig gert sér grein fyrir sannleiksgildi þess. Þá hef ég lesturinn:

„Því miður gefa ýmsir skoðanakönnuðir þessum atriðum ekki nægilegan gaum. Og þau heimta aukið undirbúningsstarf, en vanræksla þessara atriða gerir niðurstöðu könnunarinnar óvissari en vera þætti.“ Þarna er verið að fjalla um frávik frá eðlilegum niðurstöðum. „Ef lítt hæfir menn framkvæma skoðanakönnunina gefur hún ranga hugmynd um almenningsálitið. Hliðstætt dæmi að nokkru eru hinir frægu undirskriftalistar sem áhugamenn um eitthvert málefni ganga með manna á milli. Fá þeir sakir áhrifa sinna á menn, oftast miklu fleiri til að skrifa undir slík skjöl en þá sem nokkra skoðun eða sannfæringu hafa um málið. Stjórnmálamenn eru því með réttu tortryggnir á slíkar undirskriftasafnanir, því að víst er, að þær veita meira eða minna ranga hugmynd um almenningsálitið eins og það er í raun.“

Þetta eru þær félagsfræðilegu staðreyndir sem liggja fyrir varðandi undirskriftasöfnun eins og þá sem framkvæmd var. Og þeir sem fylgdust með undirskriftasöfnunum á fjölda vísu, eins og t.d. þegar herstöðvaandstæðingar efndu til hennar eða stuðningsmenn Varins lands, hljóta að gera sér grein fyrir því hvílíkur skrípaleikur er á ferðinni.

Ég vænti þess að Íslendingar reyni að vera vandaðri að meðölum en þeir hafa verið þegar þeir takast á í áróðri um jafnalvarlega hluti eins og þá sem hér eru til umr. Og ég hygg að stjórnarandstaðan verði að gefa á því einhverjar skýringar hvað það var sem hún raunverulega vildi fyrst hún telur að brjóta þurfi niður það sem gert hefur verið.

Ég vil vekja á því athygli að fyrir þessu þingi liggur frv. til laga um endurmat á störfum láglaunahópa. Ég hyggst að sjálfsögðu ekki ræða það mál efnislega undir þessum lið. En því eins er það flutt og því eins er það á dagskrá að það kerfi sem við höfum búið við hefur ekki tryggt það réttlæti í launamálum sem við vildum að væri í þessu landi.