02.11.1983
Neðri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

13. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til umr., leiðir hugann að því kerfi sem við höfum búið við í launaákvarðanatöku. Það má segja sem svo að það hefur nánast verið bannað að ræða þau mál án þess að eiga á hættu að fá það yfir sig að hver og einn sem vildi deila á það kerfi ætti ekki á öðru von en að hann fengi yfir sig gusu — nánast af fúkyrðum — frá þeim aðilum sem hafa litið svo á að umr. um vinnumálalöggjöfina í landinu tilheyrðu þeim einum.

Það hafa komið fram hugmyndir hér í þinginu um að það þurfi að auka lýðræði í verkalýðsfélögunum með hlutfallskosningum. Við erum búnir að horfa á það alllengi að það hefur verið talið sjálfsagt í þessu landi að hafa hlutfallskosningar í sveitarstjórnunum og til Alþingis en þegar kemur að verkalýðsfélögunum þá skal 51% blífa og hinir settir út í kuldann algerlega. Hvað með kjörskrár áður en kosningar eiga sér stað? Er þá nóg að segja á elleftu stundu þegar búið er að stilla upp: Þessi maður er ekki búinn að borga sitt félagsgjald og hann er ekki hafður með? Hvar er lýðræðið í verkalýðsfélögunum? Það hlýtur að vera fyrsta spurningin sem vaknar. (GJG: Þeir gera það hjá samvinnufélögum líka.) Hv. 7. þm. Reykv. var að tala þegar fundi var slitið seinast og hóf umr. á þessum fundi en fyrir einhver mistök þá hefur hann ekki verið búinn að biðja um orðið nægilega tímanlega til að vera enn í pontunni þegar þetta mál er rætt og það eru að sjálfsögðu hans mistök. En ég vænti þess að þó hann vilji gjarnan komast að strax með fúkyrði þá bíði hann.

Það er nefnilega staðreynd að verkalýðshreyfingin hefur ekki tryggt þann launajöfnuð sem þarf að vera í þessu landi. Aðalárangrinum í raunverulegum launajöfnuði, þ.e. lífskjarajöfnuði, í landinu höfum við komið fram í gegnum Alþingi Íslendinga og tvímælalaust hefur húsnæðismálakerfið verið stærsti liðurinn í að koma á jöfnun lífskjara í landinu. Ýmsir liðir aðrir, eins og t.d. dagheimili, hljóta að vera grundvallaratriði ef einstæðir foreldrar eiga að hafa möguleika á að taka þátt í atvinnustarfsemi í landinu; þetta sér hver heilvita maður. Ég verð að segja eins og er að ég er hlynntur þessu frv. sem hér liggur fyrir. Ég fagna því að það hefur verið borið fram og ég vona að það fái samþykki þannig að á grundvelli þess verði hægt að opna hér í þinginu umr. um skynsamlegri skipan þeirra mála sem hefur verið talað um fyrst og fremst undir slagorðunum frjálsir samningar.

Ég minnist þess að við lásum í gamla daga í enskubókinni hans Boga frásögnina af frelsinu. Það var maður sem labbaði eftir götunni og sveiflaði staf í kringum sig og með þessu tiltæki þá lamdi hann annan mann í höfuðið. Sá, sem varð fyrir högginu, gerði athugasemdir og ætlaðist til breyttra vinnubragða af þessum sem sveiflaði stafnum en sá, sem var með stafinn, svaraði:

Ég er frjáls maður og má gera það sem ég vil. Hinn kvað upp úr með það: Þar sem nefið á mér byrjar endar þitt frelsi.

Og við höfum horft á það að fámennir þrýstihópar þessa lands, mjög fámennir, hafa undir kjörorðinu frjálsir samningar haft aðstöðu til þess að hrifsa miklu meira til sín af gæðum þjóðfélagsins en verjandi er. Forusta Alþýðusambands Íslands hefur aldrei haft kjark til að raða niður gæðunum eftir eðlilegu hlutfalli á milli atvinnustétta í þjóðfélaginu; hún hefur aldrei haft kjark til þess. Hún hefur ekki talið að það væri í sínum verkahring. Hún hefur nánast haldið því fram að það gæti ekki átt sér stað að kauphækkun hjá einum væri kauplækkun hjá öðrum; samt er það svo í reynd. Og ef við höldum áfram að taka fyrir vald þrýstihópanna þá hefur það nýjasta sem við munum eftir, t.d. úr tíð seinustu ríkisstjórnar verið það þegar ungir læknar tóku sig til og skipulögðu fjöldauppsagnir og höfðu í hótunum við ráðherra ef hann auglýsti þessar stöður sem þeir vildu nú ekki gegna. (Gripið fram í: Hver lét þá undan?) Sá, sem átti að stjórna hernaðinum fyrir þáv. heilbrrh., er nú orðinn starfsmaður hjá 7. þm. Reykv. þannig að ég veit ekki hvort hann hefur litið svo á að hann hafi látið undan, öllu heldur að hann hafi stýrt málunum til þess sem hann vildi að niðurstaðan yrði. (Gripið fram í: Var það þá ekki ríkisstjórnin?) Ég hygg að þegar menn ræða hér um láglaunahópa þá blasi það við að við höfum ekki náð þeim jöfnuði í tekjuskiptingu á milli manna sem eðlilegt er og hver sanngjarn maður mundi skrifa undir; við höfum ekki náð þessu markmiði. Og það hlýtur að vera eðlilegt að samfélagið reyni með einhverju móti að koma í veg fyrir það að frelsið verði misnotað til þess að troða á þeim sem minnst mega sín.

Ég vil vekja athygli á því að þegar Alþýðusamband Íslands réð til sín starfsmann og það komu fregnir um það að hann hefði fimmföld verkamannalaun þá var sagt að þetta væri bara vitleysa en því var haldið sem algeru hernaðarleyndarmáli hvaða kaup væri greitt. (KP: Hver var sá?) Það er undarlegt hvað hv. 3. þm. Vestf. hefur gert lítið að því að lesa blöðin á þessu tímabili. (KP: Hver var maðurinn?) Ég tel að hann gæti gjarnan notað helgina til að kynna sér þetta ef það er ekki eins og mig grunar að hann viti hlutina þó hann spyrji. (Gripið fram í: Veit þm. það ekki?) Það er einnig undarlegt í þessu sambandi ... (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) .. að menn skuli láta sér detta það í hug að halda slíkum hlutum leyndum fyrir meðlimum félaganna. Það finnst mér alveg furðulegt. Þessi maður getur kannað launakjör allra félaganna í gegnum gögn sem hann hefur undir höndum en hinn almenni félagsmaður er ekki metinn þess að fá að vita um hvað var samið. Er þetta rétt? Er þetta hinn nýi tími eða er þetta dæmið um félaga Napóleon sem við sáum í snilldarlegri sjónvarpskvikmynd núna ekki alls fyrir löngu?

Mér er það ljóst að sumir menn telja að það sé allt í lagi á þessum vígstöðvum, þar verði engu breytt til betri vegar, þar sé fullkomleikinn uppmálaður. Og mér er það ljóst líka að þeir telja að það sé ákaflega þægilegt að viðhalda því kerfi, sem verið hefur, til að halda þar völdum. Ég hygg að það sé rétt metið að núverandi kerfi henti þeim ágætlega til að halda þar völdum. En það er staðreynd að það hefur leitt til þess að stórir hópar þjóðfélagsins hafa orðið undir og þeirra störf eru gersamlega vanmetin.

Ég hygg að það sé einnig rétt sem kom fram í ræðu framsögumanns að vissar starfsstéttir hafa fengið þann stimpil að þær séu kvennastéttir og þess vegna hafi laun þar orðið lægri en þau hefðu orðið ef um blandaðar stéttir hefði verið að ræða. Ég hygg að þetta sé rétt og í ljósi þess er það vafalaust eitt af því sem þarf að skoða mjög rækilega hvernig er hægt að opna lokuðustu stéttarfélögin — hvernig er hægt að opna þau. Og ég átta mig á því að þar hafa verið byggðir ansi myndarlegir múrar. Sumir eru menntamúrar, aðrir múrar hafa byggst á öðrum hlutum, aðstöðu til að ná fram lögum sem tryggja takmörkun í stéttunum.

En ég ætla ekki að halda hér uppi svo löngum málflutningi að það verði til að tefja það að þetta mál komist til n. Það eina, sem ég hefði talið að þyrfti að meta mjög ákveðið, er hvort ekki væri rétt að breyta því sem hér er lagt til, varðandi 6. gr. Ég hygg að það sé ekki óeðlilegt undir þessum kringumstæðum að þessi kostnaður greiðist úr ríkissjóði því mér sýnist að starfið allt sé jákvætt í þeim tilgangi að taka ákvörðun um nýja vinnumálalöggjöf sem tryggi meira réttlæti en er í dag í launakjörum í þessu landi.