11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4640 í B-deild Alþingistíðinda. (4042)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vísa því á bug að málflutningur minn hafi verið á nokkurn hátt ódrengilegur hér áðan. Það sem ég var að gera var að ég vitnaði í stjórnarblöðin og í hæstv. ráðh. (Gripið fram í.) En það kann að vera ódrengilegt að lesa upp úr Tímanum þannig að líklega er vafasamt að gera það framar og er þetta líklega til marks um ástandið í kringum Tímann og Framsfl. um þessar mundir.

En hæstv. forsrh. tók þannig til orða að ríkisstj. mundi stefna að því að draga úr hallanum á ríkissjóði, ríkisstj. mundi stefna að því að draga úr peningamálaþenslunni. En hann sagði: Ef þetta ekki tekst er auðvitað hætta á því að það verði að grípa til gengislækkunar. Þetta voru þau orð sem hann hafði hér uppi og vitnaði m. a. til viðtalsins í Tímanum í þeim efnum. Hann taldi sem sagt að ef hlutirnir færu úr böndunum efnahagslega áfram í ríkisfjármálum og í peningamálum — eins og þeir eru þar sem allt er í rusli hjá ríkisstj. eins og sakir standa — gæti það orðið ávísun á gengislækkun. Það er í raun og veru það sem ég var að spyrja um þannig að útilokað var fyrir mig að skilja hæstv: forsrh. öðru vísi en sem svo að gengisfelling væri á dagskrá hjá hæstv. ríkisstj. Hann hafði í raun og veru engin þau orð uppi sem gefa tilefni til þess að hann hafi tekið aftur þá fyrirsögn sem er í Tímanum í dag, að vísu með spurningarmerki.

Ég var fyrst og fremst með það í huga þegar ég kvaddi mér hljóðs utan dagskrár að hæstv. forsrh. gæti gert þingi og þjóð grein fyrir því að aukagengislækkun væri ekki á dagskrá. Hæstv. forsrh. gerði það ekki í ræðu sinni áðan.

Bæði hv. þm. Þorsteinn Pálsson og hæstv. forsrh. vísuðu á bug ágreiningnum í ríkisstj. og töluðu um að þar væri um að ræða órjúfanlega samstöðu með svipuðum orðum og hæstv. fjmrh. gerði á dögunum þó að ekki væri vitnað til nautpenings sérstaklega eins og hæstv. fjmrh. hafði gert í þeim efnum. En ég held að ekki fari á milli mála að yfirlýsingar ráðh. eru þannig í blöðunum að undanförnu að þar rekur sig hvað á annars horn. Hæstv. forsrh. segir einn daginn: Það er ekkert að gera nema skera niður með flatri 5–6 prósentu yfir alla línuna. Annan daginn kemur hæstv. heilbr.- og trmrh. og samgrh. sem er með hálfan ríkisbúskapinn undir sér og segir: Svona tillögur eru fáránlegar. Þannig rekur sig eitt á annars horn og greinilega er um bullandi ágreining að ræða milli flokkanna og einnig innan flokkanna, ekki síst innan Sjálfstfl.

Hins vegar var óskynsamlegt af hv. þm. Þorsteini Pálssyni að fara að vísa til kjaramála sérstaklega vegna þess að einnig er á dagskrá hjá ríkisstj. að lækka þetta lága kaup í landinu, þetta Ítalíukaup sem nú er verið að borga hér og færa menn enn þá nær Singapore. Í uppslætti í dagblaðinu Tíminn, sem birtist fyrir fáeinum dögum, er greint frá því að áform ríkisstj. í ríkisfjármálum þýði 4–6% kaupmáttarskerðingu. Og hvernig ætlar hv. þm. Þorsteinn Pálsson að hækka skatta í fyrsta lagi, í öðru lagi opinber þjónustugjöld upp á mörg hundruð millj. kr. án þess að það þýði kaupmáttarskerðingu?

Bæði hv. þm. Þorsteinn Pálsson og form. Framsfl., hæstv. forsrh., eru að ganga á bak orða sinna sem þeir gáfu verkalýðshreyfingunni þegar þeir gengu frá kjarasamningunum. Þá gerðu menn ráð fyrir því að kaup og kjör í landinu á árinu 1984 byggðust á tilteknum forsendum. Þegar nokkrar vikur eru liðnar keyrðu þeir hér í gegnum skattahækkun upp á 70 millj. kr. og núna eru þeir að koma með viðbótarskattahækkun upp á mörg hundruð milljónir króna.

En það er athyglisvert að sömu dagana og þeir eru að tala um skattahækkanir á almenningi og skera niður þetta smánarkaup sem greitt er í landinu er verið að dreifa hér á borðin hjá þm. frv. um að lækka skatta. Hjá hverjum? Hverjir ætti það séu sem þurfi helst á fjárhagsaðstoð frá ríkinu að halda um þessar mundir? Akkúrat þegar verið er að öngla saman upp í gatið fræga eru hérna frv. um skattalækkanir á borðunum handa ákveðnum aðilum í þjóðfélaginu. Hverjir eru þeir bónbjargaraðilar sem ríkisstj. ætlar að fara að aðstoða sérstaklega núna? Hver er hinn litli maður sem á sinn vin í hinni miklu ríkisstj.? Viðskiptabankarnir. Bankar og sparisjóðir. Frv. til l. um að lækka skattana á bönkunum er flutt hér af hæstv. fjmrh. sömu dagana og menn eru að velta því fyrir sé hvernig eigi að ná saman peningum í ríkissjóðinn upp í gatið stóra. Fyrr skal taka erlend lán en að fyrirtækin fái að búa við sama skattastig og þau gerðu í fyrra og hitteðfyrra.

Af hverju er hv. þm. Þorsteinn Pálsson að tala um að taka erlend lán? Það er af því að hann er búinn að lækka skatta á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Hann er búinn að lækka tekjuskatt á fyrirtækjum. Hann er búinn að lækka skatta á hlutafélögum og hann ætlar að fara að lækka skatta á bönkum. Til þess að borga styrkinn til bankanna, styrkinn til hlutafélaganna, styrkinn til verslananna og skrifstofuhúsnæðisins á að taka erlend lán. Ég fullyrði að aldrei hefur önnur eins hringavitleysa sést í skattlagningarstefnu og ríkisfjármálum og birtist hjá ríkisstj. þessa síðustu daga.

Hv. þm. Þorsteinn Pálsson viðurkenndi það áðan að á dagskrá ríkisstj. væri þrennt. Í fyrsta lagi að afla nýrra tekna. Hvað þýðir að afla nýrra tekna? Það þýðir að hækka skatta. Í öðru lagi að neytendur opinberrar þjónustu greiði hærri hlut hennar en áður hefur verið. Hvað þýðir það? Það þýðir að viðskiptamenn heilbrigðiskerfisins og tryggingakerfisins verði látnir taka á sig auknar greiðslur frá því sem verið hefur. Það munu vera uppi hugmyndir um að gjörbreyta sérfræðingatilvísunum í heilbrigðisþjónustunni og að þeir sem skipta við sérfræðinga, lækna og slíka þurfi að greiða miklu hærri hluta af kostnaðinum en áður hefur verið.

Það eru þessar lausnir sem þeir eru með. Hvað er þetta? Þetta er líka skattlagning vegna þess að þarna er hv. þm. Þorsteinn Pálsson búinn að finna nýjan skattstofn. Að þessu sinni eru það ekki þeir sem eru inniliggjandi á spítölunum. Nú er ekki meiningin að leggja á þannig sjúklingaskatt að menn verði rukkaðir um leið og þeir eru skornir á staðnum eins og stóð til af ríkisstj. í haust. Nú á að rukka þá sem njóta þjónustu göngudeilda og sérfræðinga úti um bæinn. Það er sjúklingaskatturinn sem hér er aftur kominn á blað. Hann heitir því fína nafni hjá hv. formanni Sjálfstfl. að neytendur opinberrar þjónustu greiði meira. Þar var eitt bjargráðið.

Þriðja bjargráðið er auknar erlendar lántökur hjá ríkisstj. sem er búin að lýsa því yfir að það sé allt að keyra um koll, fráfarandi ríkisstj. hafi skilið allt eftir í kalda koli í sambandi við erlendar lántökur. Nú er verið að tala um að borga framfærslustyrkina til bankanna og hlutafélaganna með erlendum lánum.

Svo átta menn sig ekki á því hvað hér er í rauninni mikill skrípaleikur á ferðinni í aðra röndina, hvað það er fáránlegt sem ríkisstj. er hér að knýja fram. Ég er sannfærður um að í þingliði beggja stjórnarflokkanna eru menn rasandi yfir þessum vinnubrögðum. Og hvernig er nú með þessa mætu menn sem aldrei máttu heyra nefndan skatt í fyrri ríkisstj., eins og þann mann sem þarna situr, hv. þm. Eggert Haukdal? Aldrei mátti hækka nokkurn skatt af neinu tagi, þá ætlaði allt vitlaust að verða og það átti að fella heila ríkisstj. ef mönnum datt í hug að rétta af fjárhag ríkissjóðs. Nú er hann uppi eins og ádóma þegar kröfurnar koma frá hv. þm. Þorsteini pálssyni um að hækka skatta í landinu. Nú er öldin önnur.

Eins er það með hæstv. fjmrh., skattalækkunarleiðtogann mikla sem ásamt Davíð Oddssyni ber nú ábyrgð á því að skattbyrði Reykvíkinga er þyngri en hún hefur verið um langt árabil enda ætlar hæstv. fjmrh. nú að fara að setjast inn í borgarstjórnina til þess að það sé á hreinu að hann hafi þar líka tögl og hagldir ekki síður en Davíð Oddsson. (Gripið fram í: En er hv. ræðumaður sammála Haukdal að auka nýja skatta?) Hv. þm. Eggert Haukdal hefur ekki gert grein fyrir því hér að hann sé á móti því að leggja á einhverja nýja skatta. Ég hef ekki heyrt það en hins vegar hef ég með orðum mínum viljað gefa honum kost á því að gera grein fyrir máli sínu og svara því hverju sæti þau sinnaskipti sem hann hefur sýnt núna á milli tveggja ríkisstj.

Í ummælum hæstv. forsrh. áðan lýsti hann því ekki yfir að ríkisstj. gæti tekið af skarið um að gengislækkun færi alls ekki fram úr þessum 5% sem um hafði verið rætt. Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að í yfirliti Seðlabankans um þróun gengis íslensku krónunnar hefur orðið gífurleg breyting á raungengi krónunnar frá því að ríkisstj. tók við. Ef notaður er verðlagskvarði á raungengi og við miðum við að gengið hafi verið 100 árið 1978 þá var það 79 1. júní í fyrra. Það var kjörgengið, það gengi sem eðlilegast var að miða við að mati ríkisstj. Nú er þetta gengi 1. apríl 1984 komið upp í 90.7%. Munurinn á genginu á þessum tíma er 14–15% ef notaður er verðlagsmælikvarði.

Ef hins vegar er notaður launamælikvarði var gengið miðað við launakostnað í landinu 1. júní í fyrra 82 samanborið við 100 1978, en var 1. apríl í ár 85.9. Ef notaður er verðlagskvarðinn er gengishreyfingin á þessum tíma 14–15%, en ef notaður er launakvarðinn er gengishreyfingin á þessum tíma 4.5–5% . Ég tel að rétt sé að rifja þessar tölur upp því hæstv. ríkisstj. hlýtur að hafa þær fyrir framan sig þegar hún er að velta fyrir sér stöðu gengismála sem sjálfsagt er og eðlilegt, að ríkisstj. geri.

Eins og ég gat um áðan var tilgangur minn með þessari umr. utan dagskrár fyrst og fremst sá að gefa hæstv. forsrh. og hv. formanni Sjálfstfl. kost á því að gera hreint fyrir sínum dyrum í sambandi við þessi gengisfellingarmál. Það hefur þeim mistekist.

Að lokum þetta: Hv. þm. Þorsteinn Pálsson var að gagnrýna mig nokkuð fyrir það að ég hefði verið að rifja það upp hvernig Framsfl. hagaði sér í síðustu ríkisstj. og taldi að það ætti ekki mikið erindi í þessa umr. Það er mikill misskilningur hv. þm., að það eigi ekki erindi í þessa umr. Ég hef langa reynslu af samstarfi við Framsfl., lengri en þú, hv. þm. Þorsteinn Pálsson. Ég tel það ekki eftir mér að miðla nýjum þm. og flokksformönnum af þeirri reynslu því að ég tel að mjög nauðsynlegt sé fyrir forustumenn stjórnmálaflokkanna í landinu að þekkja vinnubrögð Framsfl. sem hafa komið ákaflega vel fram einmitt í þessari umr. í dag og í blöðum að undanförnu þar sem gerð er til þess tilraun að klína ríkisfjármálavandanum á hæstv. fjmrh. einan. Því er bætt við að ef hann ekki leysir vandann verði gengisfelling og þá verður hæstv. fjmrh. kennt um þá gengislækkun. Þetta er aðferðin sem Framsfl. notar í samstarfi við aðra flokka, það þekki ég af reynslu. Því á hv. þm. Þorsteinn Pálsson bersýnilega enn þá eftir að kynnast.