11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4643 í B-deild Alþingistíðinda. (4043)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Virðulegi forseti. Nú berast okkur enn einu sinni fregnir af samhentu ríkisstj. Það hefur verið verulega skemmtilegt í vetur að fylgjast með samhentu ríkisstj. Þessi uppákoma er nú ekki sú fyrsta. Á sama tíma og aðstandendur hennar keppast við hver í kapp við annan að lýsa staðfestu hennar og tryggri stjórn, þá fellur gríman alltaf öðru hvoru og nautahjörðin á bak við kemur í ljós. Þessi gríma hefur oft fallið í vetur og þá kemur í ljós þessi óttalegi boli, sem var til umr. hérna um daginn, þessi óttalegi boli í öllu sínu veldi, sem hringsnýst og bölvar í allar áttir, en bolarnir bölva bara sinn til hverrar áttarinnar.

Það er kannske ágætt að gera á þessu svolitla upprifjun. Fyrst komu bolarnir í ljós í rammaslagnum góða í vetur. Þá rákust þeir fram og til baka hver með sinn ramma og hver með sinn skilning á honum. Þeir lýstu því ýmist yfir að þeir segðu af sér, að þing yrði rofið, það yrði boðað til nýrra kosninga. Og hver var ástæðan? Ástæðan var sú að talin var hætta á því þá að aðilar vinnumarkaðarins færu eftir þeirri höfuðreglu sem ríkisstj. sagðist fylgja, að samningar væru frjálsir og á ábyrgð samningsaðila. Þá varð allt vitlaust og ráðh. rákust hver á annan. Þá var fjmrh. með 4% ramma, iðnrh. smíðaði nýjan, sem var 6% rammi, og forsrh. tók undir 6% rammann og taldi auk þess að hann þyrfti að vera sveigjanlegur og teygjanlegur. Þá móðgaðist fjmrh. og taldi að verið væri að bola sér í burtu, þá væru bolarnir að bola hinum í burtu. Þá er mér minnisstætt að Morgunblaðinu ofbauð og fór fram á það í leiðara að sjálfstæðismenn í ríkisstj. töluðu hver við annan áður en þeir töluðu við fólk, til þess að það væri svona sæmileg lína í því sem ríkisstj. væri að segja. Þannig var þessi rammagerðarþáttur hinnar svokölluðu samhentu ríkisstj.

Næst gerðist ríkisstj. eftirminnilega samhent í umræðum um lánsfjárlagafrv. Þegar húsnæðismálapartur þess bálks var til umræðu komu ágætar yfirlýsingar. Þrír ráðh. svöruðu spurningunni: Telur þú að ríkisstj. beri skylda til að tryggja húsnæðislánakerfinu þær 1050 millj. sem rætt er um á lánsfjárlögum? Þá komu þessi svör: Félmrh. sagði já, fjmrh. sagði nei og forsrh. sagði: ég tek undir með báðum. Það var sá kafli í sögu samhentrar ríkisstj.

Nú er kominn þriðji kaflinn. Nú höfum við horft að undanförnu á þriðja þáttinn í sögu þessarar samhentu ríkisstj. Nú er það vegna þess að þeir eru að leita að stoppuefni í götin.

Fyrir nokkrum vikum var mjög á lofti vöndurinn um erlenda lánsfjársöfnun. Þá var þessi vöndur um erlendu lánin notaður til þess að flengja landslýðinn til hlýðni. Allt var á leið til vítis, bæði í blöðum, sjónvarpi og útvarpi; vegna þess að menn töldu að lánsfjársöfnunin stefndi upp fyrir 60% af þjóðarframleiðslu. Ég man ekki betur en að einhver ætlaði að segja af sér ef lánin færu upp fyrir ramma sem þar var smíðaður, við 60%.

Í dagblöðunum í dag talar fjmrh. sjálfur hins vegar um að það verði að taka erlend lán til þess að stoppa upp í gatið en formaður Sjálfstfl. dregur úr. Formaðurinn vill hins vegar hækka skatta en fjmrh. dregur úr. Svo kemur forsrh. og bætir um betur og borar á allt saman gat. Hann ætlar að opna fyrir gengisfellingu. Á tímum ríkisstj., sem talar mest um þörfina á festu, að ekki megi skapa spennu og ekki megi auka þenslu, geta menn spurt sig: Hvaða áhrif halda menn að þetta tal um gengisfellingu muni hafa? Ætli komi ekki aftur auglýsingarnar, sem við þekkjum frá fyrri árum frá bílasölum eða raftækjasölum, þar sem er skorað á fólk að vera nú á undan gengisfellingunni, passa sig nú? Gaman verður að sjá hvaða áhrif þessi umr. hefur, þessi yfirlýsing um að gengisfelling gæti farið fram úr því sem ríkisstj. telur viðráðanlegt.

Það var ekki gert mikið úr þessari þolanlegu gengisfellingu þegar fólkið í landinu var að samþykkja yfir sig kjarasamninga um daginn. Ég man ekki eftir að mikið væri talað þá um 5% gengisfellingu sem væri samþykkjanleg allt að því æskileg að því er manni skilst nú.

Reyndar segir hæstv. forsrh. í sama viðtali og hann boðaði gengisfellinguna að hin mikla þensla í ríkisfjármálum sé langalvarlegasta málið í sambandi við peningapólitíkina. Þá er yfirlýsinga- og umræðugleði hæstv. ráðh. orðin dálítið ruglingsleg. Ég held nefnilega að yfirlýsingar um gengisfellingar séu einu yfirlýsingarnar sem stjórnmálamenn eigi aldrei að gefa, a. m. k. þeir stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig alvarlega. Ég held að yfirlýsingar um gengisfellingar eigi ekki að vera til í orðaforða þeirra vegna þess að þær leiða akkúrat til þeirra skaðlegu aukaverkana sem menn vilja komast hjá.

Fjmrh. lýsti því yfir þegar hann fletti frá gatinu að hann vildi koma út og segja fólki fyrir opnum tjöldum hvernig ástandið væri. Hann sagði: Við verðum öll að standa saman. Þetta er okkar mál. Þetta verða þing og þjóð að leysa, sagði hann. Þess vegna langar mig að biðja nú hæstv. ríkisstj. formlega um að tilkynna Alþingi og þjóðinni undanbragðalaust hvað hún ætlar að gera í þessum fjármálum. Ég held að það sé algjörlega óumflýjanlegt að við fáum að heyra hvernig þeir ætli að taka á þessum málum til þess að við getum nú tekið á með fjmrh. og reynt að hjálpa til við að leysa þetta vandamál. Ég held að þetta verði að gerast núna fyrir páskaleyfi. Ég held að við ættum ekki að fara í páskaleyfi fyrr en kominn er botn í þetta, ekki síst vegna þess að við berum þann ugg í brjósti að þetta sé ekki eina gatið sem er á ferðinni.

Við munum eftir umr. um lánsfjárlögin. Þar voru svona göt að opnast út við sjóndeildarhringinn. Það voru t. d. göt í húsnæðiskerfinu. Ég hef grun um að þau göt séu nú að stækka og gliðna. Hvað með t. d. Atvinnuleysistryggingasjóðinn? Ætlar hann að borga eins og honum var skipað? Er það rétt að komið sé bréf frá Atvinnuleysistryggingasjóði þar sem hann kveðst ekki geta innt af hendi það sem hann ætlaði að gera á þessu ári? (Gripið fram í: Það er rétt.) Það skyldi þó ekki vera komið eitt gatið enn þar. Ég held nefnilega að menn verði að reyna að komast yfir þetta fjárlagagat sem þeir eru búnir að standa frammi fyrir núna í margar vikur og reyna að taka til við lánsfjárlagagatið vegna þess að ég er ekki viss um að okkur endist tíminn við það ef við förum ekki að taka á því almennilega.

Ég skora aftur á ríkisstj. að skýra frá því hvað hún hyggst gera í þessum málum áður en hún fer í frí vegna þess að ríkisstj. sem hefur það efst á sínum lista að stuðla að stöðugleika, að stuðla að vissu og stuðla að öryggi getur ekki vikum saman skilið fólk eftir í óvissu um skattamál, um gengisfellingar, um niðurskurð, um stórkostlegar breytingar á félagslegri þjónustu í landinu. Það er algjörlega óviðunandi að við frestum þinghaldi fyrir páskana fyrr en við fáum einhverjar hreinar línur í þetta. Þetta stuðlar að óvissu. Ef við fáum ekki eitthvað að vita um þetta áður en við förum í frí mæli ég með að þjóðin fái áheyrnarfulltrúa í ríkisstj., einhvern annan en forsrh., til þess að reyna að fá að fylgjast með því sem gerist þarna yfir páskaleyfið. fá að fylgjast með því sem kemur úr tölvum fjmrn. næstu nætur og daga vegna þess að þessi óvissa er óviðunandi og ekki í anda þeirrar styrku stefnu sem menn telja sig í ríkisstj. vera að fylgja.

En það er annað sem mikilvægt er að gera sér grein fyrir. Í skjóli þessa neyðarástands, sem búið er að skapa og óspart er blásið upp á hverjum einasta degi, á að fara að gera ýmsar viðamiklar breytingar á íslenskri félagsþjónustu. Gerðar verða breytingar í heilbrigðiskerfinu og í menntakerfinu. Eftir fregnum að dæma gæti þarna verið um að ræða eðlisbreytingar á íslensku velferðarkerfi sem verið hefur samkomulag milli allra flokka um að byggja á á undanförnum áratugum. Það er algjörlega óviðunandi að gerðar séu breytingar á þessu kerfi í reykfylltum bakherbergjum þingflokkanna og þessar breytingar séu síðan keyrðar í gegn í hasti með þingslitasvipuna yfir höfðum þm. eftir páska.

Velferðarkerfi eins og önnur kerfi eiga auðvitað að vera til endurskoðunar á hverjum tíma. Þau eru aldrei svo fullkomin að þau þoli ekki að farið sé ofan í saumana á þeim. En sú endurskoðun á að fara fram með opinni umr. fyrir opnum tjöldum inni á þingi og úti í þjóðfétaginu og síðan eiga kjósendur að kjósa um slíkar breytingar í almennum kosningum, en þær eiga ekki að smokrast inn um bakdyrnar í svona flautaþyrilsnautahjarðarsprelli eins og virðist eiga að fara að gerast núna.