11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4645 í B-deild Alþingistíðinda. (4044)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt. Ég sé mig neyddan til að ítreka það, sem ég lagði áherslu á áðan. Engin gengisfelling er fram undan umfram það sem ríkisstj. hefur lýst yfir að verður hámark á þessu ári. Hv. þm. Svavar Gestsson kom hér upp og fór rangt með mín orð enn einu sinni. Vil ég ráðleggja honum að fá afrit af minni ræðu, sem hann getur fengið mjög fljótlega, og þá mun hann geta sannfærst um það að á þetta lagði ég áherslu. Ég sagði: ríkisstj. mun standa við sitt markmið um verðbólgu um það bil 10% í lok ársins. Því verður gengi ekki breytt umfram það sem ráðgert er og því verður komið í veg fyrir þá þenslu sem of mikil aukning á fjármagni veldur.

Ég sé ekki ástæðu til að svara því sem kom fram í ræðu hv. þm. Guðmundar Einarssonar. Ég er dálítið undrandi á því að hann skuli láta hafa sig í það að elta hv. 3. þm. Reykv. hingað upp í ræðustólinn. En þar sannaðist enn einu sinni: Eftir höfðinu dansa limirnir.