11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4651 í B-deild Alþingistíðinda. (4047)

Umræður utan dagskrár

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að hafa hér langt mál, en ég hafði hugsað mér að bera eina spurningu fram við annan hvorn ráðh., fjmrh. eða forsrh., ef annar hvor þeirra gæti látið svo lítið að vera hér. Ég sá fjmrh. hér nýlega í hliðarsal, svo ég vænti að hann sé í húsinu. (Forseti: Hæstv. forsrh. hefur fjarvistarleyfi nú, en ég skal athuga hvort hægt sé að ná í hæstv. fjmrh.)

Nú, ekki kom mér á óvart að ráðh. og starfsfólk þeirra þyrfti drjúglangan tíma til þess að fylla þetta óttalega gat, sem svo lengi hefur verið helsta umræðuefni manna, en löng er nú biðin orðin eftir úrræðunum. Það vantaði ekki að stjórnarandstaðan væri spurð í þaula um hennar ráð um leið og gatið var gert opinbert og margir urðu til þess að benda á leiðir, en stjórnarliðar hafa vikið sér fimlega undan öllum kröfum um lausnir. Á mörgu hefur þó verið tæpt og það er ískyggilegt hve mikið er nú talað um háar upphæðir í heilbrigðis- og tryggingamálum og menntamálum þjóðarinnar og veit það varla á gott. Minna heyrist talað um þau miklu útgjöld sem ætluð eru t. d. til vegamála og orkumála og enginn minnist nokkru sinni á ferða- og risnukostnaðinn, sem skiptir hundruðum milljóna hjá hinu opinbera, að ekki sé nú minnst á flugstöðina á Keflavíkurflugvelli.

En það sem hefur valdið mér mestum áhyggjum og rekur mig að þessu sinni hingað upp snertir söluskattinn sem ég er sannarlega sammála um að þarfnast endurskoðunar. Það hefur m. a. verið talað um að grisja þyrfti undanþágufrumskóginn, auk þess sem stefna beri að aðhaldssamari innheimtu. Er þetta vafalaust hvort tveggja rétt. En þar sem heyrst hefur að komið hafi til umræðu að afnema undanþágu frá söluskatti á matvælum vil ég nota þetta tækifæri til að láta koma fram hér eindregna andstöðu Kvennalistans gegn slíkri ráðstöfun og þarf varla að eyða dýrmætum tíma þingheims í útskýringar á þeirri afstöðu. Það verður að segjast eins og er að undanfarnar vikur hefur minnkað traust mitt á vini litla mannsins. Úr því hann finnur þau ráð helst að hækka skatta á heilsudrykkjum, hreinum ávaxtasafa, Jóga og Mangósopa, um leið og verð á sykurvatni er lækkað, þá finnst mér honum því miður trúandi til að róa enn frekar á þessi mið og reyna að hafa einhvern pening í tóma kassann með því að skattleggja enn frekar það sem fólk má síst vera án, þ. e. matinn. Um leið og ég tek ákveðið undir tilmæli Guðmundar Einarssonar og fleiri þm. hér um hreinskilnislegar yfirlýsingar ríkisstj. um það hvaða ráðum hún hyggst beita til að rétta af hallann á ríkisbúskapnum vil ég beina þeirri spurningu til ráðh. hvort það eigi að verða eitt af ráðum ríkisstj. í glímunni við gatið að afnema undanþágur frá söluskatti á matvælum. Ég var að vona að hæstv. ráðh. hefði tíma til að hlusta á þetta, sem ekki var nú lengra, og að hann afgreiddi ekki spurningu mína sem ómálefnalegan málflutning eins og hæstv. forsrh. gerði við eðlileg og sjálfsögð tilmæli hv. 4. landsk. þm. hér fyrr í dag.

Má ég kannske endurtaka spurningu mína úr því að ráðh. er nú mættur? (Fjmrh: Endilega.) Ég var að spyrja að því hvort það ætti að verða eitt af ráðum ríkisstj. í glímunni við gatið að afnema undanþágur frá söluskatti á mat.