11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4653 í B-deild Alþingistíðinda. (4049)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Mér skilst að hv. 4. landsk. þm. hafi farið fram á það áðan í einni af sínum fyrri ræðum að stjórnarandstaðan, og þá líklega hann sjálfur, fengi áheyrnarfulltrúa á ríkisstjórnarfundum. Nú finnst mér hann hafa verið að gefa í skyn að hann vildi líka fá að vera áheyrnarfulltrúi hjá ríkisstjórnarflokkunum til þess að fylgjast með hverra ráða þeir væru að leita í sambandi við þann vanda sem ég kynnti hér og kallaður hefur verið „hið fræga gat“ — vanda sem við kynningu var fagnað að skyldi koma fram í dagsljósið í staðinn fyrir að hingað til hefur hann verið falinn og þm. fengu ekki að vita um hann fyrr en kannske löngu eftir að uppgjör hafði átt sér stað. Þá kom nýr og allt annar fjmrh. til að gera grein fyrir liðinni tíð. Þm. almennt fögnuðu því að nú skyldi vandinn kynntur þegar hann blasti við. Þetta fræga gat var fyllt á síðasta ári með 25% aukafjárveitingu af fjmrh. Vandinn sem við erum nú að tala um er 10% af gjaldahlið fjári. Þetta gat hefur þó minnkað á milli ára úr 25% í 10%. Það er bara þetta eitt, sem allir fögnuðu nú, sem virðist hafa orðið áróðurs- og árásarefni á ríkisstj. Það á nú að nota í neikvæðum tilgangi að hafa kynnt vandann, að hafa ekki þagað yfir honum, sem árás á ríkisstj. Í upphafi umræðna um þennan vanda var það talin hreinskilni og virðingarvert. Svo gjörsamlega málefnasnauð er stjórnarandstaðan að nú er þessu snúið við.

Ég sé ekki að nokkur vandi verði leystur með nokkru af því sem komið hefur fram hjá stjórnarandstöðunni í dag. Það vantar ekki viljann til að leggja stein í götu ríkisstj. Það tekst ekki. Ég er margbúinn að segja það hérna. Ykkur tekst ekki með þessum látum að hylja málefnafátækt ykkar né heldur að koma fleyg á milli manna í ríkisstj. eða einstakra stuðningsmanna hennar.

Það eru ýmsar leiðir sem hafa komið fram og verið ræddar. Hér kom fram sú fullyrðing frá stjórnarandstæðingi að það væri í tugum prósenta sem vantaði upp á innheimtu á söluskatti. Mér fannst ég ekki geta legið undir slíkum fullyrðingum sem fjmrh., farandi með innheimtu á söluskatti. Þar af leiðandi bað ég skattrannsóknastjóra að senda mér tillögur til úrlausnar. Þær óskir lét ég í ljós eftir umr. um fsp. sem kom frá hv. 2. landsk. þm., núverandi forseta hv. Nd. Ein af leiðunum sem skattrannsóknastjóri talar um er að leggja söluskatt á fleiri vörutegundir en nú er gert til að auðvelda innheimtuna, þ. e. fækka undanþágum. Þar var m. a. talað um matvörur. Það er engin ákvörðun tekin um það. Ég hef ekki orðið var við að málið sé komið á það stig að búið sé að taka ákvörðun um að leggja söluskatt á matvöru og kannske fella þá niður niðurgreiðslur líka, þannig að í útsölu hækki landbúnaðarafurðir um fleiri tugi prósenta. En þessar hugmyndir til lausnar á vandanum sem stjórnarandstæðingur hefur dregið athygli að, eru nú notaðar í áróðursskyni eins og ríkisstj. væri þegar byrjuð að starfa eftir þeim. Þetta er furðulegur málflutningur.

Má sama segja um skattlagningu á mjólkurdrykki. Getur einhver bent mér á lögbrot í sambandi við það sem ég hef gert þar? (GJG: Landbrh. er nú ekki hress með það.) Landbrh. er ekkert hress með það. Ég veit það. Sumir menn eru ekkert hressir yfir því að lög skuli ná yfir þá yfirleitt. (Gripið fram í.) Þú getur bara giskað á, vinur minn, við hverja ég á.

Ég ætla að lesa upp greinargerð sem ég hef fengið frá embættismönnum fjmrn. varðandi það sem snertir drykkjarvörur. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Með lögum nr. 77 frá 1980, um vörugjald, var hér á Alþingi lagt fyrir að innheimta 17% gjald af öllum drykkjarvörum sem flokkast undir vörulið 22 02 í tollskrá. Undir þennan lið tollskrárinnar flokkast límonaði með eða án bragðefna og ýmsar aðrar óáfengar drykkjarvörur að undanskildum hreinum ávaxtasafa.“

Því hefur verið haldið fram að lög þessi næðu ekki til ýmissa drykkjarvara sem framleiddar eru af mjólkurbúunum og úr landbúnaðarafurðum, þ. e. m. a. Sopi, Jógi og kakómjólk sem framleidd eru úr kakói, ávaxtasafa og mjólk. Þetta er á misskilningi byggt. Vörur þær sem ég hef hér tilgreint verða ekki taldar til mjólkurafurða í skilningi tollskrárlaga, en á þeim er vörugjaldstakan byggð, heldur teljast þær til drykkjarvara í XXII. kafla tollskrárinnar, m. a. eins og hliðstæð vara sem framleidd er hér innanlands og nefnd hefur verið Svali. Ég vil í þessu sambandi leggja áherslu á að mér er ekki einungis heimilt að leggja vörugjald á þær vörutegundir sem hér hafa verið gerðar að umræðuefni, heldur er mér skylt að fara að lögum og láta innheimta af þeim vörugjald.

Ef Alþingi vill ekki að ég fari að lögum verður Alþingi að segja mér það eða breyta lögunum. En þetta eru lög sem ég fer eftir og það veit dómsmrh. vel. Það þarf ekkert að blanda honum inn í þessa óvæntu fsp. til mín. En hitt er annað mál, að þó að ég hafi heimild til þess að undanþiggja mjólkurafurðir þessari skattlagningu hef ég ekki hugsað mér að gera það. Ég hafði hugsað mér að láta reyna á hvort lög ná yfir alla landsmenn og alla hliðstæða starfsemi í landinu eða ekki.