11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4655 í B-deild Alþingistíðinda. (4050)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Virðulegi forseti. Þegar hæstv. fjmrh. lendir í rökþrotum að verja þær ógöngur sem stjórnarstefnan er nú komin í bregður hann ævinlega á eitt og sama ráðið. Það er að segja: Þau vandamál sem við er að fást eru forverum mínum að kenna. Því næst heldur hann ræðuna sína um Alþb. sem út af fyrir sig er nokkuð góð ræða en gleymir því um leið að sú ríkisstj. sem telst vera forveri hæstv. ráðh. hefði aldrei orðið til, aldrei náð völdum, aldrei verið kvödd til valda, aldrei valdið neinum óskunda í íslensku efnahagslífi ef ekki hefði verið fyrir sérstaka persónulega og afdráttarlausa milligöngu hæstv. núv. fjmrh. sem eins og kunnugt er gerðist hennar guðfaðir með sérstöku innsigluðu bréfi.

Því næst gleymir hæstv. fjmrh. því að aðilar að þessari ríkisstj. voru hvorki meira né minna en núv. samstarfsflokkur og forustuflokkur núv. ríkisstj. og reyndar vösk sveit úr þingflokki hans sjálfs ásamt með guðföðurnum sjálfum. M. ö. o. svar ráðh. þegar hann verður rökþrota er að segja: Þetta er allt — ég ætla ekki að nota blótsyrðið — kommunum að kenna. — En hann gleymir því um leið að aldrei hefðu kommarnir náð því að setjast í stjórnarstólana nema vegna þess að hæstv. ráðh. tryggði það sjálfur og flokksmenn hans.

Mér kom á óvart að heyra að hv. 1. þm. Suðurl. ætlaði nú að fara að þreyta þessar kúnstir líka. Hann byrjaði ræðu sína á því að brigsla okkur Alþfl.-mönnum um mikinn hringlandahátt og mikla málefnalega ósamstöðu. Um hvað snýst þessi umr.? Hún snýst um það að spurt er: Ætlar núv. ríkisstj. að leysa þann vanda, sem hún hefur hingað til ekki ráðið við vikum saman og stafar af hallarekstri í ríkisfjármálum, með nýjum sköttum og nýjum auknum erlendum lántökum? Um það er spurt. Umr. hafa þó þrátt fyrir allt leitt í ljós að svarið er jákvætt, já, ríkisstj. ætlar að auka skatta, já, ríkisstj. ætlar að auka erlendar lántökur.

Nú bið ég menn bara að rifja upp hvern fyrir sig: Hvað var það sem Sjálfstfl. setti á oddinn í síðustu kosningum? Það var númer eitt að hverfa af þeirri braut að leysa vanda ríkisfjármálanna með sífelldum erlendum lántökum og fresta þannig í það óendanlega að snúa sér að vandamálunum og númer tvö að gera ráðstafanir til þess í ríkisfjármálum að forsendur væru fyrir því að draga úr skattheimtu ríkisins. M. ö. o. þetta voru hornsteinar stefnunnar og þetta var það sem innsiglað var í málefnasamningi núv. ríkisstj. að ætti að vera stefnan. Nú er komið fram á annað ár þeirrar stefnu. Það átti m. ö. o. að draga úr erlendum lántökum og það átti að lækka skatta. Síðan kemur hv. 1. þm. Suðurl., formaður Sjálfstfl., og gerir þá játningu að núv. ríkisstj. muni að vísu ætla að gera hvort tveggja, að bregðast grundvallaratriðum nr. 1 og 2. Hún ætlar að hækka skatta, hún ætlar að auka erlendar lántökur. Síðan lýkur hann ræðu sinni með snoturri ræðu um hringlandahátt og mótsagnir andstæðinga sinna og styður það svo með eftirfarandi rökum: Ríkisstj. hefur tekist ætlunarverk sitt. Okkur hefur tekist að lækka hlut ríkisfjármálanna skv. niðurstöðum fjárlaga sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og nefnir í því skyni ákveðnar tölur.

Um hvað erum við að tala? Við erum að tala um það að fljótlega eftir að fjárlög voru samþykkt kom hæstv. fjmrh. fyrir þing og sagði: Því miður voru þessi fjárlög ómark, það vantar tvo milljarða tekjumegin til þess að eiga fyrir þeim útgjöldum sem nú liggja fyrirsjáanlega fyrir. M. ö. o. hv. form. Sjálfstfl. vitnar í fjárlög sem verið er að slá föstu að eru marklaus. Þegar það vantar tvo milljarða upp í þetta dæmi þýðir það auðvitað að útgjaldahlutinn er miklu meiri en nemur þeim prósentutölum sem hv. þm. nefndi. Hann nefndi að ef hlutfallið væri hið sama og úr væri að spila sömu þjóðartekjum munaði það hvorki meira né minna en rúmum 1500 millj. kr. Hér er verið að tala um tvo milljarða, 2000 milljónir kr. M. ö. o., verið er að tala um að þessi fjármálastefna hefur mistekist, það er sjálf forsendan fyrir allri umræðunni.

Hv. 1. þm. Suðurl. segir: Það er nú sitthvað að heyra í 5. þm. Reykv. sem mótmælir nýjum sköttum og mótmælir auknum erlendum lántökum eða formanni Alþfl. Hvar eru mótsagnirnar í því? Jú, formaður Alþfl. lýsti því yfir að það væri úr því sem komið væri ráðlegt að skipta þessum vanda í þrennt. Spurning væri um tekjuöflun að 1/3, um niðurskurð að 1/3 og um frestun á þessum fjárlagahalla kannske að þriðja hluta.

Meiri tekjuöflun — þá er það spurningin um skattheimtuna. Hverjir eiga að bera aukna skatta? Formaður Alþfl. nefndi ákveðna hluti í því efni. Hann nefndi skatta á Seðlabanka, hann nefndi skatta á bankakerfið, hann nefndi það að láta vera að fella niður tekjustofna sem núv. ríkisstj. hefur fellt niður, svo sem eins og álag á ferðamannagjaldeyri o. s. frv. Hann nefndi að fresta um eitt ár fyrirhuguðum skattaívilnunum fyrirtækja. Nú vill svo til að það liggur fyrir að þessi stjórnarmeirihluti hefur hafnað þessari leið alveg gjörsamlega. Það liggur alveg ljóst fyrir, þessari leið hefur verið hafnað.

Að því er varðar þriðjung nr. 2, þ. e. niðurskurðarleiðina, þá liggur það fyrir að þrátt fyrir það að hæstv. ráðh. hafi engst yfir þessu dæmi vikum saman liggja hér engar tillögur fyrir og ekkert samkomulag í ríkisstj. um það.

Að því er hitt varðar að afgangsstærðinni verði einfaldlega frestað, þá er það ósköp einfaldlega afgangsstærð sem menn taka ekki afstöðu til fyrr en að svör liggja fyrir um hvort ríkisstj. ætli að beita sér fyrir niðurskurði og þá hverjum og í hve miklum mæli.

Hvað er það sem réttlætir meiri tekjuöflun á þessum tíma, meiri skattlagningu? Það er alveg ljóst að stjórnarmeirihlutinn er búinn að hafna þeim tillögum sem Alþfl. gerði í þessum umr. um tekjuöflun. Þá er verið að tala um skattaukningu á almenning í landinu, annaðhvort í formi hækkaðra neysluskatta eða í formi hækkaðra beinna skatta. Í umr. um skattundandrátt og skattsvik, sem farið hafa fram á þingi og reyndar í framhaldi af því í fjölmiðlum, hafa menn nefnt ýmsar tölur. Þær lægstu byggðar á mestri varfærni voru tölur sem forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, Jón Sigurðsson, nefndi í viðræðuþætti í sjónvarpi og taldi að undandráttur frá beinum sköttum, tekju- og eignarsköttum, væri mjög varlega áætlaður um 3 milljarðar kr. en tekjutap ríkissjóðs af þeim sökum mætti þar af leiðandi áætla um 1500 millj. kr. Þetta eru lægstu tölurnar sem nefndar hafa verið um þennan skattundandrátt og skattsvik, 1500 millj. kr.

Hvað eru menn hins vegar að tala um hér að vanti í ríkissjóð? Menn eru að tala um 2 milljarða um leið og helsti ráðgjafi ríkisstj. segir að skv. varlegustu, íhaldssömustu spám megi slá því föstu að skattundandráttur og skattsvik í þessum hluta skattgeirans nemi a. m. k. 1500 millj. kr. Nú eru flestir aðrir þeirrar skoðunar að þessi áætlun sé mjög varfærin og aðrar áætlanir sem til eru benda til þess að hér sé um mun hærri upphæðir að ræða og hafa þá verið nefndar tölur eins og t. d. um 10–11% af þjóðarframleiðslu eða yfir 5 milljarðar.

Ég spyr: Hvað er það sem réttlætir það að leysa þann ríkisfjármálavanda sem núv. ráðh. og ríkisstj. stendur frammi fyrir með aukinni skattlagningu á almenning í landinu, væntanlega í formi aukinna tekjuskatta eða eignarskatta á sama tíma og því er yfir lýst af ábyrgum aðilum og ráðgjöfum þessarar sömu ríkisstj. að a. m. k. 1500 millj. kr. skili sér ekki skv. þeim lögum sem í gildi eru í landinu?

Mættum við því halda áfram að spyrja: Þegar hér er komið sögu um stjórnarsamstarfið er þá ekki orðið tímabært að bera saman hlut þeirra aðila í björgunarleiðangrinum sem gerður var út í vor til þess að bjarga íslensku efnahagslífi? Hver er hlutur launþega í málinu? Það er vitað mál að þeirra hlutur er stærstur. Þeirra hlutur er stærstur í því að hafa tekið á sig þær fórnir sem dugðu til þess að keyra niður stjórnlausa óðaverðbólgu á Íslandi. Sá árangur sem náðst hefur í þeim efnum má fyrst og fremst rekja til þess að launþegar á Íslandi sættu sig við að afnema sjálfvirkt vísitölukerfi, væntanlega í trausti þess að á eftir fylgdi að ríkisvaldið stæði við og fylgdi þessum aðgerðum eftir fyrir sitt leyti.

Hlutur launþega er sá að þeir hafa sætt sig við lægri laun. Þeir sætta sig við að vinna mun lengri vinnudag en tíðkast í nágrannalöndum fyrir mun lægri laun. Þeir sætta sig við að hlutur ríkissjóðs eða sá hluti ríkisútgjalda sem fer til almennra velferðarmála — þá erum við fyrst og fremst að tala um heilbrigðis- og tryggingamál — er lægri en víðast hvar í nágrannalöndum. Þeir hafa sætt sig við það fram á þennan dag að sérstaklega hlutur yngri kynslóðanna í landinu í aðstoð í húsnæðismálum er að verða lítill sem enginn og eiga eftir að komast að því fullkeyptu þegar umr. hefur lokið í þinginu um það gagnslausa, hripleka og götótta húsnæðismálafrv. sem væntanlega sér hér dagsins ljós innan fárra vikna.

Hver er svo hlutur ríkisins? Hver er hlutur þeirra ráðh. sjálfra? Hver er hlutur Sjálfstfl. sem boðaði kjósendum sínum að ef þeir væru reiðubúnir til þess að færa þessar fórnir mundu þeir fyrir sitt leyti beita áhrifum sínum til þess að draga úr skattheimtu á almenning í landinu og stöðva erlendar lántökur, sem er auðvitað fyrst og fremst frestun á nýrri skattheimtu?

Hlutur ráðh., hlutur þeirra handhafa ríkisvaldsins, hann er sá sem eftir liggur. Launþegar hafa vissulega fært sínar fórnir en það sem á vantar er að ráðh., forustumenn Sjálfstfl., forustumenn Framsfl., ábyrgðarmenn þessarar ríkisstj. standi við sinn hlut. Eftir sem áður hafa þeir ekki hróflað við því sem við getum kallað velferðarríki atvinnurekstrarins á Íslandi sem sér vissulega víða stað, bæði í fjárlögum ríkisins og í ríkisbúskapnum í heild.

Eftir sem áður er hægt að telja upp ótal atriði þar sem þessi ríkisstj. að óbreyttum lögum stendur dyggan vörð um sérréttindi atvinnurekenda og heilla atvinnugreina. Enn sem fyrr er t. d. tryggð algjör innflutningsvernd fyrir þá atvinnugrein sem heitir íslenskur landbúnaður. Enn sem fyrr er tryggð fullkomin markaðstrygging og verðstýring að því er varðar reyndar fyrst og fremst landbúnaðinn og reyndar að nokkru leyti sjávarútveginn líka. Enn sem fyrr eiga launþegar að horfa upp á það, á sama tíma og verið er að boða að leggja eigi á okkur meiri skatta, að tekið er af þeim í sköttum til þess að verja til niðurgreiðslna sem eru að mjög takmörkuðu leyti tekjujafnandi og í útflutningsbætur handa erlendum neytendum hvorki meira né minna en hálfur annar milljarður kr. Enn sem fyrr er horft upp á það að einstakir atvinnurekendur í landinu njóta niðurgreiðslna bæði á fjárfestingarlánum og afurðalánum. Enn sem fyrr er boðið upp á það að ríkisvaldið telur það sjálfsagðan hlut að taka á sig hluta af því sem kallast verður launagreiðslur atvinnurekstrarins í landinu. Enn sem fyrr er tabú og totem að ræða þann þátt svokallaðrar byggðastefnu sem felst raunverulega í tekjutilfærslum frá öllum þorra þjóðfélagsþegna og skattgreiðenda til tiltölulega fárra hagsmunaaðila í atvinnulífi.

Enn sem fyrr er ekkert gert, ekki nokkur skapaður hrærandi hlutur að því er varðar þau útbreiddu skattsvik sem um er að ræða hér á þingi, bara boðið upp á það í óbreyttu hripleku skattakerfi að leggja beri á meiri skatta.

Enn sem fyrr horfum við upp á það um leið og talað er um það blákalt að auka eigi erlendar lántökur að hér eru lögð fram frv. um skuldaskil fyrir heilu atvinnugreinarnar, reyndar bæði í landbúnaði og væntanlega líka í sjávarútvegi, þar sem á að taka erlend lán til þess að bjarga atvinnurekendum með pennastriksaðgerðum. Þannig má lengi telja.

Ég endurtek, herra forseti, umr. hefur snúist um eitt. Ætla ráðh. að staðfesta það að það sé þeirra áform að leggja á nýja skatta á almenning í landinu? Ætta þeir að staðfesta það að þeir ætli að leita eftir nýjum, auknum erlendum lántökum til þess að leysa þann ríkisfjármálavanda sem þeir nú viðurkenna að þeim hefur mistekist að leysa eftir öðrum leiðum? Þeir boðuðu að þeir mundu draga úr ríkisútgjöldum, það hefur mistekist. Þeir boðuðu að þeir mundu skera niður ríkisútgjöld, það hefur mistekist. M. ö. o. það liggur alveg ljóst fyrir, launþegar hafa staðið við sinn hluta af þessu, þeir hafa sýnt þessari ríkisstj. mikið umburðarlyndi. Sá takmarkaði og tímabundni árangur sem náðst hefur má rekja til þess sem launþegar hafa á sig lagt en eftir liggur í heild sinni allur hlutur ríkisvaldsins. Það er þar sem hnífurinn stendur í kúnni, það er þar sem málið hefur brugðist og það er ósvífni í hæsta máta að á sama tíma og almenningur hefur verið krafinn um slíkar fórnir komi forsvarsmenn flokka sem gengu til kosninga seinast með tvö loforð númer eitt, minnkun erlendra skulda, lækkun skatta, og segi: Vegna þess að engin eining er í okkar röðum, vegna þess að okkur hefur gersamlega mistekist að fylgja þessu eftir eigum við ekki önnur ráð en þau gömlu, góðu að hækka skatta og auka erlendar lántökur.

Það er engin ósamkvæmni í því þegar við segjum: Það er engin önnur leið til þess, miðað við ríkjandi aðstæður í íslenskum þjóðarbúskap ef menn ætla að standa við þau orð sín að stöðva erlendar lántökur og minnka skatta, en að skera mjög verulega niður í fjármálum ríkisins. Tillögur ætlaðar úr Sjálfstfl. hafa verið lagðar fram um það. Ég vitna t. d. til einnar greinar eftir einn yfirlýstan sjálfstæðismann sem heitir „Við veljum sparnaðarleiðina“ og birtist í Morgunblaðinu 14. mars. Þar birtist mjög rækileg úttekt og ráðgjöf til forsvarsmanna Sjálfstfl. um að skera mjög rækilega niður. Reyndar eru hér lagðar fram sparnaðartillögur upp á rúma 3 milljarða kr. Þær eru flokkaðir þannig:

Í fyrsta lagi er lagt til að styrkir til einstaklinga og félagasamtaka verði lagðir niður á þeirri forsendu að þessir aðilar geti sjálfir staðið undir sínum útgjöldum. Í öðru lagi er talað um að afnema styrki til hinna og þessara stofnana. Í þriðja lagi styrkir til atvinnuvega. Í fjórða lagi framlög til fyrirtækja. Langsamlega stærsti hluturinn af framlögum til fyrirtækja er fólginn í þessum eina og hálfa milljarði kr. sem áfram á að verja af skattpeningum almennings í millifærslur til landbúnaðarkerfisins. Hér er talið upp forfalla- og afleysingaþjónusta í sveitum tæpar 10 millj. kr., framlög til Stofnlánadeildar landbúnaðarins 12 millj. kr., framlög til framleiðsluhvetjandi jarðræktar 126 millj. kr., útflutningsbætur 280 millj. kr. með fyrirvara um það að þessi upphæð er í reynd um helmingi hærri. Búfjárræktarframlög 16 millj. kr., Bjargráðasjóður 30 millj. kr., jöfnunargjald 77 millj. kr., framlög til iðju og iðnaðar 11 millj. kr., niðurgreiðslur á vöruverði 945 millj. kr.

Þetta er bara dæmi. Þeir sem segja að ekki megi hrófla við liðum af þessu tagi hljóta að enda að lokum í þeim vanda að þeir geta ekki staðið við fyrirheit sitt um að draga úr ríkisútgjöldum til þess síðan að geta efnt loforðin um lækkun skatta.

Ræðan sem hv. 1. þm. Suðurl., Þorsteinn Pálsson, flytur um nauðsyn þess að efla atvinnulíf í landinu, að auka hagvöxt og framleiðni og bæta þannig til langs tíma aðstöðu fyrirtækja til þess að greiða hærri laun er út af fyrir sig ósköp snotur og margt gott um þennan ræðustúf að segja. En staðreyndin er bara sú að reynslan hefur sýnt í þessu ríkisstjórnarsamstarfi að hv. þm. kemst aldrei til þessara góðu verka. Hann er kominn í nákvæmlega sömu spor og fyrri ríkisstj., misheppnaðar ríkisstj. liðins áratugar, að hafa ekki pólitíska samstöðu innan ríkisstj. fyrir þeirri uppstokkun sem þarf að gera.

Nú vil ég taka það fram að þó að ég hafi nefnt sérstaklega landbúnáðargeirann mega menn ekki misskilja mig á þann veg að ég einblíni á hann einan. Hægt er að nefna í lengra máli fjölmörg önnur dæmi.

Niðurstaðan er einfaldlega þessi: Það er engin samstaða innan núv. ríkisstj. um niðurskurð af neinu tagi. Þeir hafa gefist upp á þeim verkefnum, þeir hafa raunverulega sætt sig við það, á sama tíma og fórnirnar eru lagðar á launþega, að viðhalda velferðarkerfi fyrirtækjanna, að halda áfram stórfelldum meðlagsgreiðslum, tekjutilfærslum frá almenningi og skattgreiðendum til fyrirtækja, atvinnugreina og atvinnuvega. Meðan sú stefna er við lýði ná þeir engum árangri í niðurskurði ríkisútgjalda. Meðan þeir ekki gera það geta þeir ekki staðið við fyrirheit sín um lækkun skatta. Meðan þeir halda áfram á þessari braut er eina þrautalendingin að lokum hin sama og fyrri ríkisstjórna að velta vandanum á undan sér, að fresta honum í formi skattlagningar á yngri kynslóð og óborna í formi sívaxandi erlendra skulda og að lokum stofna þar með efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í háska.