11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4660 í B-deild Alþingistíðinda. (4052)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað vita fyrirfram að þessi fsp. væri væntanleg. Ég hefði kannske búist við henni hér á dagskrá fyrr og þá eftir venjulegum leiðum þannig að ég hefði getað notað þau gögn sem ég hef undirbúið í rn. til þess að svara henni. En ég ætla samt að reyna að svara henni. (Gripið fram í.) Nú, ef svo er þá er eðlilegt að fá skriflegar spurningar eftir eðlilegum þinglegum leiðum þannig að þeim verði svarað á hefðbundinn hátt. En ég tel nauðsynlegt úr því að þessi áróðursræða er fram komin líklega til þess að fá samstöðu með þeim sem fjmrh. er að ráðast á, blessuðum börnunum sem þurfa aukið næringargildi og reyna að forða þeim frá gosdrykkjum og sælgætisáti.

Af hverju er þetta ekki bannað ef þetta er svona slæmt fyrir þjóðina almennt? Af hverju þá ekki bara beina sölu mjólkurafurða inn í barnahópinn og láta þá banna hitt ef þetta er að skemma þjóðina, búa til verri menn en þeir annars gætu verið ?

En nú er það bara svo að ég vil uppástanda það að ef við viljum stuðla að mjólkurdrykkju, drykkju á vörum sem koma frá Mjólkursamsölunni með alls konar bragðefnum þá getum við gert það á margan annan hátt en að gefa þeim skattfrelsi, undanþágu undan skattheimtu. Ef verðið liggur að verulegu leyti, eins og fram hefur komið, í umbúðunum, hvað er þá því til fyrirstöðu að flytja þetta í stórum pakkningum í skólana svo að hægt sé að selja það í stærri umbúðum sem eru ódýrari og með miklu meira magni? Verðmunurinn ætti þá að koma fram ef fólk losnar við þessar dýru umbúðir sem hafa mikið geymsluþol og seldar eru á 12.35 kr. pelinn sem þýðir yfir 50 kr. mjólkurlítrinn í þessum umbúðum.

Ég gekk svo langt þegar þetta var til umr. í ríkisstj. að ég bauðst til þess að fara út í mjólkurbúð og kaupa lítra af mjólk á 18 kr. eða svo og kakódós og gefa þeim mjólkurkakó. (Gripið fram í: Hvað sögðu þeir?) Það var nú ekki þegið þá. En þetta var bara til þess að fá fram hið eiginlega verð, útsöluverð á vörunni.

Ég hef beðið um að fá upplýsingar um verðmyndunina. Ég hef ekki fengið þær. Ég hef fengið lista sem byrjar á heildsöluverði og síðan koma kostnaðarliðir þar undir sem felast í vöruverði upp að heildsöluverði. Ef þetta er heildsöluverð þá er enginn framleiðslukostnaður, þá er bara dreifingarkostnaður og opinber gjöld. Ég fæ með engu móti skilið hvernig mjólkursamsölur reikna út sitt verð, þetta háa verð þegar mjólkurlítrinn er kominn upp í 50 kr. í útsölu á niðurgreiddri mjólk sem er afgangsmjólk þar að auki.

En þó ég kalli þetta okur er þó mysan enn þá dýrari. Hún er allt að fjórum sinnum dýrari í þeim svaladrykkjum sem hún er notuð í. Það væri verðugt verkefni fyrir þá sem bera svona mikla umhyggju fyrir börnunum að þeir beini skeytum sínum til þeirra sem framleiða vöruna og verðleggja hana, ekki fer þetta til bændanna. Það skyldi þó aldrei vera til skýring á því hvers vegna mjólkurbú og atts konar hallir rísa bæði í Reykjavík og um land allt án þess að mikil lán þurfi að taka? Beinið þið skeytum ykkar að þeim sem gera hollustuvörur dýrar en ekki að þeim sem fara að lögum.

Ég mun óska eftir opinberri rannsókn ef þessir aðilar borga ekki sína skatta. Ef þessir aðilar hækka sínar vörur vegna þess að þeir þurfa að borga skatta mun ég biðja um opinbera rannsókn og vita hvort ég fæ þá ekki hina eiginlegu uppbyggingu á vöruverði mjólkurafurða. Þá skulum við sjá í hverju það liggur að börnin þurfa að borga meira en efni og ástæður standa til.

En nú hefur það komið fram að mikið af þessu dýra verði liggur í hinum dýru umbúðum. Hver segir að það þurfi að afgreiða í þessum dýru umbúðum, í pelaumbúðum, til skólanna? Af hverju má þetta ekki vera í miklu stærri umbúðum sem eru framleiddar af innlendum aðilum, ekki undir erlendum „license“ eins og í Samsölunni, heldur af innlendum aðilum, t. d. Kassagerðinni þar sem hægt er að fá 5, 10 eða 20 lítra pakkningar og selja börnunum um leið og selt er til þeirra þetta hollustufæði sem nestið er og þá miklu ódýrara en nú er? Þetta er svona rétt til umhugsunar. — [Fundarhlé.]