11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4664 í B-deild Alþingistíðinda. (4057)

258. mál, sala eyðijarðarinnar Írafells í Lýtingsstaðahreppi

Flm. (Stefán Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir frv. til l. um heimild fyrir ríkissjóð til þess að selja eyðijörðina Írafell í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Ásamt mér eru flm. þeir Páll Pétursson og Pálmi Jónsson, þm. Norðurl. v. sem sæti eiga í þessari ágætu deild.

Frv. hljóðar svo:

„1. gr. Ríkisstj. er heimilt að selja Lýtingsstaðahreppi, Skagafirði, eyðijörðina Írafell fyrir það verð sem um semst. Náist ekki samkomulag um söluverð jarðarinnar skal hún metin af dómkvöddum mönnum.“

2. gr. Lög þessi öðlist þegar gildi.“

Í grg. með frv. segir m. a.:

„Frv. þetta er flutt að beiðni hreppsnefndar Lýtingsstaðahrepps í Skagafirði. Landnám ríkisins keypti jörðina Írafell 21. febr. árið 1956 og var kaupsamningi þinglýst 28. nóv. 1957.

Seljendur jarðarinnar voru synir Kristbjargar Jónsdóttur sem var síðasti ábúandi jarðarinnar. Jörðin var í ábúð hennar til ársins 1955, en fór þá í eyði. Árið 1957 fékk Pétur Bjarnason, Ánastöðum í sömu sveit, jörðina til leigu og nytjaði hana til ársins 1982, en hafði þar aldrei búsetu. Árið 1983 keypti Lýtingsstaðahreppur þau hús er á jörðinni voru, það er skemma, sem notuð var sem fjárhús, og hlaða.

Í Jarða- og búendatali Skagafjarðarsýslu 1781–1952, útgefnu 1952, segir m. a.:

Írafell (Ýrarfell) í Svartárdal var landnámsjörð Hrosskels þess er Landnáma segir að hafi numið Svartárdal allan og Írafellslönd. Írafell var talið 20 hundr. að dýrleika að fornu mati. Árið 1861 var Írafell metið eitt sér 19,9 hundr. að dýrleika, árið 1922 á 45 hundruð kr. og 1942 á 39 hundr. kr. Írafell var bændaeign og sjálfseignarbændur bjuggu þar öðru hvoru.

Frá því um 1780 til ársins 1955 hefur 21 ábúandi verið á Írafelli og búið þar mjög mislengi. Lýtingsstaðahreppur er víðlendasti hreppur Skagafjarðarsýslu og hefur að líkindum verið það frá öndverðu. Þegar frá eru talin Mikleyjar-, Stokkhólma- og Skatastaðalönd tekur hreppurinn yfir allt land frá Héraðsvötnum og Jökulsá eystri til austurmarka Húnavatnssýslu að vestan og frá suðurmörkum Seyluhrepps skammt innan við Stóra-Vatnsskarð og fram að Hofsjökli. Þarna eru víðáttumestu afréttarlönd sýslunnar og víðlend heimalönd frá einstökum jörðum.

Á fyrri öldum var Lýtingsstaðahreppur frábrugðinn öðrum hreppum sýslunnar að því að fjórar af hverjum fimm jörðum í hreppnum töldust bændaeign á sama tíma og meiri hluti jarða eða jafnvel allar jarðir í öðrum hreppum sýslunnar voru eign biskupsstólsins á Hólum, Reynistaðaklausturs og kirkna í héraðinu.

Grg. fylgir til fróðleiks tala byggðra jarða og ábúenda í hreppnum. Ég sé ekki ástæðu til að lesa það upp. Það geta menn skoðað ef þeir vilja og áttað sig á þessu. Einnig er ég hér með prentað kort af þeim hluta Skagafjarðar sem hér er m. a. um fjallað.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég legg til að málinu verði vísað til landbn. og vænti þess að það njóti hér góðs skilnings þm.