02.11.1983
Neðri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

13. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður. Það vill svo til að ég á að heita einn af þeim sem taldir eru í forustu fyrir verkalýðshreyfingunni, en líklega er ég ekki eins hörundssár fyrir því sem menn kalla gagnrýni á verkalýðshreyfinguna eða forustu hennar og sumir aðrir hér inni virðast vera.

A.m.k. tveir hv. þm., sem hér hafa talað, hafa sagt að þetta frv. væri þungur áfellisdómur yfir verkalýðshreyfingunni. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að þetta sé þungur áfellisdómur yfir verkalýðshreyfingunni. Ég held að það sé nokkuð ljóst að verkalýðshreyfingin hefur í mörg ár í mörgum samþykktum lýst yfir að það sé númer eitt við samningsgerðina, eins og mál hafa staðið nú nokkuð lengi, að rétta hlut þeirra lægst launuðu. Hitt er svo rétt, að henni hefur tekist það misvel. Og ég skal segja það hér og dreg enga dul á það, að oft hef ég orðið fyrir sárum vonbrigðum með útkomu úr samningum þar sem lagt hefur verið upp með það sem kjörorð að ná fram sem mestu fyrir þá verst settu, en síðan staðið upp með tiltölulega lítið betri — í sumum tilfellum skarðari — hlut þeirra sem fyrst og fremst átti að vinna fyrir.

Ég vil ekki kenna verkalýðshreyfingunni einvörðungu um þetta, þó að ég viðurkenni vissulega að hún á nokkra sök þarna á, að hafa ekki verið nógu hörð. En menn skulu ekki gleyma því að það eru tveir aðilar a.m.k. og raunar þrír, a.m.k. núna seinni árin, sem þarna standa að málum. Það eru hins vegar Vinnuveitendasambandið og ríkisvaldið, sem hefur í auknum mæli komið inn í samningsgerðina á undanförnum árum.

Ég get líka sagt það hér, því að ég er þeirrar skoðunar, að ef verkalýðshreyfingunni ekki tekst á tiltölulega skömmum tíma hér í frá að rétta verulega hlut þeirra innan hreyfingarinnar sem eru verst settir, þá fer a.m.k. að verða spurning um hvort það er vilji fyrir því á löggjafarsamkomunni að grípa þar inn í og rétta hlut þessa fólks, ef það ekki tekst með hinni leiðinni, sem er þó æskilegast að gera. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta frv. gæti orðið til hjálpar þeim aðilum a.m.k. innan verkalýðshreyfingarinnar sem vilja rétta hlut láglaunahópanna innan ASÍ og víðar. Þetta gæti verið stuðningur við þann málstað, fengju menn það á borðið hvernig sú staða væri, hverjir það væru sem verst eru settir og hversu stóran hópa þar væri um að ræða. Ég lít því ekki á þetta frv. sem þungan áfellisdóm yfir verkalýðshreyfingunni.

Ég fagna því sérstaklega að hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir vitnaði hér í einn skeleggasta baráttu- og forustumann verkalýðshreyfingarinnar á liðnum áratugum. Það fer ekki alveg saman við það sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði hér um að forustumenn verkalýðshreyfingarinnar kærðu sig ekki um að breyta þarna til. Hannibal Valdimarsson, fyrrv. forseti ASÍ, ASV og forustumaður í verkalýðsfélögum um langt árabil, áratugaskeið, var einn skeleggasti málsvari þess að menn tækju upp baráttu fyrir launajafnrétti. Ég man ekki árið sem var samþykkt hér á Alþingi að greiða sömu laun fyrir sömu vinnu. En það var miklu fyrr en 1973. Og það var einmitt Hannibal sem var skeleggasti baráttumaðurinn fyrir því að þau lög næðu fram að ganga. Ég held því að a.m.k. ekki Hannibal Valdimarsson, sem áratugaforustumaður í verkalýðshreyfingunni, verði sakaður um að hann hafi ekki viljað breyta um, rétta hlut þeirra sem verst voru settir. Hv. þm. Ólafur Þórðarson á þá við einhverja aðra.

Hv. þm. Ólafur Þórðarson sagði hér áðan að ASÍ hefði ráðið nýlega starfsmann á fimmföldum launum, sem ekki mætti vitnast um. Ég á nú að heita miðstjórnarmaður í ASÍ og mér er ekki kunnugt um þetta. Þess vegna margspurði ég: Hver var maðurinn? Og ekkert svar fékkst. Hins vegar verður oft að geta í eyðurnar hjá sumum hv. þm. sem ræða hér um mál. Ég get mér þess til að hér hafi hv. þm. átt við starfsmann Dagsbrúnar. Ég veit það ekki, en ég get mér þess til. Engin skýring hefur fengist á þessu. En ég fullyrði hér með, að það er rangt að ASÍ hafi nýlega ráðið starfsmann á fimmföldum launum, sem ekki hafi mátt vitnast um.

Því næst kom hv. þm. að læknasamningunum. Þar hjó hann nærri sjálfum sér, því að það var einmitt sú ríkisstjórn sem hann studdi hvað dyggilegast sem ruddi brautina fyrir þá þrýstihópa sem hann var sjálfur að gagnrýna hvað mest áðan. Hann studdi við bakið á þeirri aðgerð sem stuðningsmaður þeirrar ríkisstj. Og það eru einmitt slíkir þrýstihópar sem hafa nánast sagt kverkatök á þjóðfélaginu undir vissum kringumstæðum, sem líðst að fara fram með slíku offorsi og kröfugerð, vitandi vits að það er óeðlilega stór hópur í þessu þjóðfélagi sem býr við sult og seyru miðað við þá. En þarna hefði hv. þm. átt að taka til hendinni sem stuðningsmaður ríkisstj. og stoppa slíkt. (ÓÞÞ: Ég var andvígur því allan tímann.) Hvergi kom það fram. Það þýðir ekki að segja seinna í umr. á Alþingi að menn hafi verið andvígir þessu eða hinu sem aldrei hefur komið fram meðan á málinu stóð og meðan það var í umfjöllun og til ákvörðunar.

Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. Ólafi Þórðarsyni að fámennum þrýstihópum hefur allt of oft tekist að ná óeðlilega miklu á kostnað hinna, sem miklu ver eru settir.

Um kjörskrár verkalýðsfélaganna ætla ég ekki að fara að tala. Því sýndist mér hann vera að beina til hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, a.m.k. horfði hann alltaf á hann meðan hann sagði þau orð. Ég veit ekki um neitt verkalýðsfélag í landinu sem ekki fer að lögum að því er þetta varðar. Og gott væri að fá það fram hjá hv. þm. Ólafi Þórðarsyni, geti hann lýst því hér yfir í ræðustól á Alþingi, hvaða verkalýðsfélag í landinu fer ekki að lögum í sambandi við kosningar á sínum vegum. Ég vil þá gjarnan fá að vita það, ef hann hefur það á reiðum höndum, hvar slíkt félag er að finna, ef það er einhvers staðar að finna.

Ég skal ekki, herra forseti, fara öllu fleiri orðum um þetta. Ég segi enn og aftur: Ég tel að þetta frv., nái það samþykki hér í þinginu, geti orðið stuðningur við þau sjónarmið innan verkalýðshreyfingarinnar sem hafa viljað og vilja veg þeirra sem verst eru settir meiri en tekist hefur að ná fram, þó að fullur vilji hafi a.m.k. verið hjá æðimörgum forustumönnum og almenningi innan hreyfingarinnar, þó að það hafi ekki tekist að ná þeim vilja fram. Ég segi því: Þetta er gott mál. En ég biðst á engan hátt undan því að ræða hér um verkalýðshreyfinguna, starfsháttu hennar og störf. Ég er þeirrar skoðunar, að þar megi ýmsu breyta til hins betra, eins og auðvitað víðar í þjóðfélaginu. Það er af hinu góða ef menn ræða slík mál af þekkingu, vita hvað þeir eru um að tala — fyrst og fremst ætti það að vera af eigin reynslu, ekki af afspurn eða getgátum, — og gagnrýna með því hugarfari að ná betri árangri og bæta starfsemi og númer eitt að rétta verulega hlut þeirra sem borið hafa skarðan hlut frá borði allt of lengi, og þá á ég við láglaunahópana innan ASÍ og raunar er þá að finna víðar. Það er ekki spurning um hvort slíkur er kona eða kari. Það á rétta hlut allra þeirra sem þarna er um að ræða, hvoru kyninu sem þeir tilheyra.