11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4665 í B-deild Alþingistíðinda. (4060)

258. mál, sala eyðijarðarinnar Írafells í Lýtingsstaðahreppi

Guðmundur J. Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þessa umr., áskil mér hins vegar rétt til að ræða frv. frá hv. þm. Pálma Jónssyni. Reyndar er frv. þetta líka frá honum því að hann er einn flm.

Hér er, held ég, mál sem þarf að íhuga öllu betur. Ræða Pálma Jónssonar er reyndar ekki á dagskrá hér, en hann rökstuddi mál sitt vel og fór langt í sögu aftur. Ég heyrði ekki betur en þar væri endanlega verið að breyta gjöf til Krists og það hefði meðmæli einhverrar hreppsnefndar í Skagafirði. Hann er ekki hátt skrifaður, Kristur, þarna fyrir norðan.

Þetta er kallað eyðijörð. Ekki vefengi ég það. En ég er ekkert sannfærður um að Alþingi eigi að vera að hlaupa eftir því þegar mætir þm. eru í atkvæðaharki í sínum kjördæmum, seljandi kristfjárjarðir, brjótandi erfðaskrár eða þá að hygla einhverjum kjósanda og selja honum jörð. Ég er ekkert sannfærður um það. Ég ætlaði nú að flytja gagnmerka ræðu um þetta við 2. umr., og skal ekki rekja hana fyrir fram.

Ég er ákaflega tortrygginn á að vísa frv. til landbn. og tek undir með þm. Guðmundi Einarssyni og Svavari Gestssyni. Neytendur mega yfirleitt ekki eiga fulltrúa í landbn.

Ég held að burtséð frá þessum tveimur jörðum hafi verið allt of mikið um það að selja ríkisjarðir eftir hendinni, eftir þörfum hverju sinni, eftir því hvernig hreppsnefndarmeirihluti verður þar nyrðra og ég tala nú ekki um þingsæti. Það má vel vera að eitthvað göfugra og dýpra vaki í sambandi við sölu þessara tveggja jarða í Skagafirði, en ég fullyrði að um nokkurra ára skeið hefur það verið „praktíserað“ í allt of ríkum mæli og allt of tækifærissinnað og óyfirvegað að láfa kostajarðir úr eign ríkisins, selja þær einstaklingum.

Ég styð mjög eindregið að frv. færi til fjh.- og viðskn. Við getum svo rætt það þegar það kemur þaðan.