11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4667 í B-deild Alþingistíðinda. (4063)

258. mál, sala eyðijarðarinnar Írafells í Lýtingsstaðahreppi

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Þessi umr. hefur bæði farið út í efnislega umræðu um sölu ríkisjarða og hvaða form eigi að vera á meðferð þeirra mála á hv. Alþingi.

Varðandi fyrri þáttinn vil ég lýsa þeirri skoðun minni að ég er mjög ánægður yfir því að sjá slík frv. á borðum þm. Ég tel að ríkið eigi alls ekki að stunda það, nema í neyðartilvikum, að safna að sér jörðum út um allt land og ríkið eigi, þegar það kemst yfir slíkar jarðir, að reyna að losa sig við þær sem fyrst til dugandi bænda eða sveitarfélaga. Því tel ég að sú stefna sé rétt sem fram kemur í þessu frv. og reyndar kemur fram í tveimur frv. sem fram hafa komið um lík efni áður.

Varðandi meðferð málsins í hv. deild skil ég út af fyrir sig að menn hafi nokkrar áhyggjur af því hver eigi að fara með umboð og gæta hagsmuna Krists þegar um er að ræða sölu kristfjárjarða, en ég er þeirrar skoðunar að þessi mál eigi að vera í landbn. Ég rökstyð það m. a. með því sem fram kom hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. Ég tel að það sé ekki síður landbúnaðarmál en fjárhagsmál fyrir ríkið hvernig háttað er búsetu og ábúð á slíkum jörðum og þess vegna séu þau mál vel komin í landbn.

Reyndar skil ég ekki að hv. þm. sem sitja í fjh.- og viðskn. skuli ekki aðeins í þessu máli heldur í ýmsum öðrum málum sem upp koma hér í hv. Nd. sellast æ lengra til fanga. Það koma oft upp mál hér svipað efnis þar sem því er haldið fram að vegna þess að um fjárhagsmál sé að ræða, peningar skipti þar einhverju máli, þá eigi öll slík mál að fara til fjh.- og viðskn. Ég tel það ekki rétt. Ég tel að þessi n. hafi meira en nóg að starfa. Reyndar hefur mér oft dottið í hug hér á hv. Alþingi að það ætti að brjóta upp störf fjh.- og viðskn. Því að mér sýnist að hún komist á engan hátt yfir þá miklu málahrúgu sem yfir hana er dembt og hv. meðlimir í þeirri n. eigi síst að vera að draga til sín fleiri mál en þeir þegar hafa og brjóta upp á nýjum venjum hér á hv. Alþingi að því er það snertir.