11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4667 í B-deild Alþingistíðinda. (4064)

258. mál, sala eyðijarðarinnar Írafells í Lýtingsstaðahreppi

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég hlýt að bera blak af meðnefndarmönnum mínum í fjh.- og viðskn. þessarar deildar. Því fer víðs fjarri að hún hafi mikinn áhuga á því að seilast inn á verksvið annarra nefnda, hún hefur ærið að starfa, sumir segja meira en nóg af verkefnum. En svo vill til að þannig er róið í þeirri n., a. m. k. hér í hv. Nd., að þm. úr stjórnarandstöðunni hv. þm. Guðmundur Einarsson tók að sér að stýra fundi n. í morgun, og verkefnalisti n. var svo að segja tæmdur að svo miklu leyti sem nokkur kostur var á. Þannig er engin ástæða til þess að hlífa n. við verkum út af fyrir sig. Þegar þar er vel róið í fyrirrúmi ganga hlutirnir með mjög eðlilegum hætti.

Varðandi hins vegar þessar ríkisjarðir almennt ætla ég ekki að ræða það mál ítarlega hér en vil aðeins minna á að jarðir í sveitum eru ekki eingöngu bújarðir í seinni tíð. Við verðum að athuga það að af jörðum eru margvísleg önnur not, m. a. fyrir þéttbýlisbúa. Það er þjóðin öll sem á þessar jarðir þar sem þetta er ríkiseign. Það er ekkert sem segir að slíka jörð eigi skilyrðislaust að taka til búnytja. Þess vegna finnst mér í rauninni alveg fráleitt að flytja hérna röksemdir af því tagi sem heyrðust hér áðan um að á þessum jörðum sé jafnan um að ræða landbúnað. Margs konar önnur not geta þar iðulega komið til greina.

Vikið var að því í máli hv. þm. Pálma Jónssonar áðan að einhvern tíma hefði það heyrst hér í þinginu að menn vildu láta allar jarðir vera í ríkiseign. Ég vil taka það fram af minni hálfu að þetta var alla vega ekki mín rödd. Ég hef engan áhuga á því að allar jarðir séu í ríkiseign og ég tel að við séum heldur ekki að tala um það heldur hitt, með hvaða hætti eigi að selja þær jarðir sem þjóðin nú á og hvernig eigi að standa að því. Okkur þykir eðlilegt sumum að þau mál fari til fjh.- og viðskn.

Inn í þessa umr. hefur svo borist annað mál sem var á dagskrá þingsins núna á dögunum, þ. e. sala kristfjárjarða. Það er mál sem er alveg sérstaks eðlis og verður að reyna að mínu mati að glöggva þau mál mjög verulega frá því sem nú er. Um ríkisjarðir gilda ákveðnar hefðir í þessu efni og venjur og hið sama er að segja um jarðir sem þjóðkirkjan á. Um kristfjárjarðir gegnir allt öðru máli. Þær eru gefnar með öðrum hætti þær eru gefnar Kristi skv. gjafabréfum á 12. og 13. öld iðulega og um meðferð þessara mála er allt á reiki í okkar stjórnkerfi. Ég held að þau rn. sem með þessi mál fara, bæði dóms- og kirkjumrn. og landbrn., ættu að reyna að koma þessum hlutum betur fyrir þannig að það verði skýrt með hvaða hætti verður farið með þessar jarðir framvegis. Ég held að það hafi skapað mjög veruleg óþægindi fyrir þá sem hafa búið á kristfjárjörðum að þær hafa svo að segja svifið í lausu lofti í stjórnkerfinu.

Það er m. a. af þeirri ástæðu sem ég, virðulegi forseti, lagði hér fram í dag fsp. til dóms- og kirkjumrh. um kristfjárjarðir þar sem spurt er um það í fyrsta lagi hve margar kristfjárjarðir séu í landinu, í öðru lagi hverjar þær séu. Skriflegt svar óskast. Ég held að það verði ákaflega fróðlegt að fá það fram hversu margar þessar jarðir eru og í framhaldi af því komi menn sér saman um hvernig eigi að stjórna þeim málum í framtíðinni.

Þegar þetta mál kom hér inn til forseta Sþ. og hann sá þessa fsp. þá velti hann því óðara fyrir sér hvaða ráðh. ætti að spyrja. Það lá nefnilega ekki fyrir í stjórnkerfinu að mati hæstv. forseta sþ. hver það væri sem ætti að fara með þessar jarðir og yfirstjórn þeirra. Ég er alveg sannfærður um að hv. þm. og samstarfsmaður minn um árabil, Pálmi Jónsson, er þeirrar skoðunar að þessar kristfjárjarðir eigi að vistast í landbrn. Ég lagði fram spurninguna til dóms- og kirkjumrh. m. a. vegna orðalags sem var í till. hv. þm. Pálma Jónssonar um að andvirði ákveðinnar kristfjárjarðar rynni til Biskupsstofu.

Enn fremur hafa þær raddir heyrst að þessar kristfjárjarðir eigi að vera undir yfirstjórn félmrh. vegna þess að skv. gjafabréfum fyrir þessum jörðum á andvirði þeirra að renna til félagslegra verkefna. Þegar seld var ákveðin kristfjárjörð í Reyðarfirði fyrir 2–3 árum eða svo var tekin um það ákvörðun að andvirði þeirrar jarðar rynni til málefna aldraðra á Reyðarfirði og á Eskifirði. En þar var um að ræða sérstaka ákvörðun sem tekin var út af þeirri sérstöku jörð en ekki að menn væru að móta almenna reglu.

Á þetta vil ég leggja áherslu, virðulegi forseti, vegna þess að mér finnst að þessar athugasemdir eigi heima í þessari umr. Mér finnst sem sé að eðlilegt sé að skýra stöðu þessara þjóðareigna í stjórnkerfinu frá því sem verið hefur.

Ég veit að í tíð Pálma Jónssonar sem landbrh. var mjög verulega mikið unnið að þeim málum og ég vona að svo sé enn því það er óþolandi bæði fyrir ríkið, stjórnkerfið og fyrir ábúendur þessara jarða að þessi mál séu í lausu lofti svo sem verið hefur um langt árabil.