11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4669 í B-deild Alþingistíðinda. (4065)

258. mál, sala eyðijarðarinnar Írafells í Lýtingsstaðahreppi

Böðvar Bragason:

Virðulegi forseti. Mig langar til að bæta nokkrum orðum við þessa umr. Það er af því tilefni að mér er ekki um annað kunnugt en það hafi verið í tíð hv. 1. þm. Norðurl. v., þáv. landbrh., að eignarhald ríkisins á jörðum fékk einhverja verulega umfjöllun og uppstokkun. Fyrir það vildi ég færa honum þakkir vegna þess að það ástand sem áður ríkti í þeim málum olli í það minnsta innheimtumönnum ríkissjóðs á árgjaldi jarða töluverðum vandræðum. En úr því rættist mjög við þær aðgerðir sem hann hafði uppi í sínu rn.

Menn hafa lítillega minnst á væntanlega endurskoðun og framhaldsumr. um eignarhald á landi og að ekki væri rétt að halda áfram sölu ríkisjarða fyrr en það mál væri komið á hreinni grundvöll en nú er. Ég held að umr. um eignarhald á landi sé áratuga spursmál eins og því miður sum önnur mál og málaflokkar sem koma fyrir hið virðulega Alþingi og þess vegna sé ekki ástæða til að bíða eftir umfjöllun um þann málaflokk með sölu á ríkisjörðum og nýtingu þeirra.

Ég er þeirrar skoðunar að rétt sé að ríkissjóður selji sveitarfélögum jarðir ef eftir er leitað og einnig dugandi ábúendum því ég veit ekki betur en að slíkt sé í fullkomnu samræmi við þá stefnu sem mótuð var á hinu hv. Alþingi 1976 með setningu jarðalaga og ábúðarlaga sem nú gilda. Það er því að mínu viti með öllu eðlilegt að farið sé með það mál sem hér er til umr. svo sem flm. leggja til og styð ég því að þessi jörð ríkissjóðs verði seld.

Að lokum vildi ég mega láta það fylgja að ekki væri úr vegi að landbrn. hefði nánara samband við sveitarfélög um þær ríkisjarðir sem innan þeirra vébanda eru. Ég hef um það grun að það sé oft til trafala varðandi ráðstafanir á þessum jörðum hversu sambandið milli þessara aðila er lítið. Ég vísa þá til stuðnings þessum orðum mínum aftur í anda þeirra laga sem ég nefndi áðan, þ. e. jarðalaga og ábúðarlaga, sem ég veit að öllum þm. er fullkunnugt um.