02.11.1983
Neðri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

13. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Aðeins örfáar athugasemdir.

Hv. 3. þm. Vestf. hefur e.t.v. ekki hlýtt á þá ræðu sem Guðmundur H. Garðarsson flutti hér sem hv. 10. þm. Reykv., þar sem hann taldi að stuðningur til launajafnvægis hefði ekki komið frá Alþingi. (KP: Jú, ég hef hlýtt á það.) Ég var að undirstrika að það hefði einmitt verið í gegnum Alþingi sem árangur hefði náðst, en ekki við samningaborðið hjá ASÍ. E.t.v. má því um kenna að það hefur ekki náðst við samningaborðið hjá ASÍ að þar er samið um lágmarkslaun, en ekki samið um bæði hámarks- og lágmarkslaun. Svo er sagt eftir á, þegar menn borga 22% ofan á, að það komi hinum hópnum ekkert við. Auðvitað á að skipta við samningaborðið því sem ákveðið hefur verið að skipta, en menn hafa komið sér undan því að afgreiða málið þannig.

Ég var ekki að halda því fram að lög verkalýðshreyfingarinnar hefðu verið brotin í kosningum. Ég var að gagnrýna að þar eru ekki hlutfallskosningar. Ég tel einnig að kjörskrár þurfi að liggja frammi mjög tímanlega. (KP: Gera þær það ekki?) Ég tel hún þurfi að liggja frammi mjög tímanlega. Ég var ekki að segja að lögin hefðu verið brotin. Ég tel aftur á móti að það þurfi að endurskoða þau lög, og hv. 3. þm. Vestf. hlýtur að gera sér grein fyrir að það er ekki sama hvort viðhafðar eru hlutfallskosningar eða hvort meiri hlutinn ræður öllu. Hann hlýtur að gera sér grein fyrir þessu.

Hv. 3. þm. Vestf. bar á mig að ég hefði stutt það að gefið hefði verið eftir í læknadeilunni. Það er ekki rétt. Hann veit jafnvel og ég að ákvarðanataka á því sviði var fyrst og fremst á ráðherraplani, því að það er framkvæmdavald í þessu landi. Hins vegar vorum við að sumarlagi, þingflokkur Framsfl., í umr. um þessi mál, og mín skoðun var sú, að það hefði átt að auglýsa hvert einasta starf sem læknarnir sögðu lausu. Menn verða nefnilega að gera það upp við sig í eitt skipti fyrir öll, hvort þeir ætla að láta þrýstihópana ráða eða hvort þeir ætla að stjórna landinu þannig séð að þeir fari eftir sinni réttlætisvitund í málum eins og þessum. Og það athyglisverðasta við kaupkröfur læknanna var ekki það, að þeir segðu að þeir hefðu svo lítil laun. Þeir sögðu: Við höfum dregist aftur úr miðað við aðra. Það var slagorðið sem var notað. Og hvaða stétt getur ekki heimtað launahækkun ef láglaunahóparnir fá hækkun undir þessu kjörorði: Við höfum dregist aftur úr miðað við aðra. — Það geta nefnilega allar stéttirnar gert.

Hv. 7. þm. Reykv. hefur flutt ræður hér á Alþingi Íslendinga, þar sem hann hefur vikið að því að þó að Alþingi hafi ættað að rétta hlut láglaunahópanna hafi það ekki tekist vegna þess að það hafi farið í gegnum allt kerfið. Hann flutti ræður um þetta þegar hann var að verja þá aðferð að miðað hefði verið við skattaframtöl, en ekki miðað við kauptaxta, þegar farið var í að greiða láglaunabætur. Hvers vegna var ekki miðað við kauptaxtana? Vegna þess að þá vissu menn að allt hitt kæmi á eftir. Og það er ekkert launungarmál, að í þeim átökum sem fóru fram núna um kjaraskerðinguna vildum við framsóknarmenn fara út í það að nota ekki prósentuhækkanir, heldur nota hækkanir í krónutölu og láta það ganga upp úr í ákveðnum þrepum. Sjálfstfl. var á móti því. Hann var á móti því vegna þess að hann vildi frjálsa kjarasamninga. Talað var um að verið væri að grípa inn í kjarasamninga ef það yrði gert.

Þetta er nefnilega það sem blasir við: Við sitjum uppi með þá staðreynd, að hvorki verkalýðshreyfingin né vinnuveitendur hafa treyst sér til að raða stéttunum niður með einhver viðmiðunarlaun, sem þeir væru svo sem heild reiðubúnir að standa að. Og það er athyglisverð staðreynd að það hefur alltaf verið samið um lágmarkslaun og litið á það sem sjálfsagðan hlut að bæta svo ofan á. Hefði verkalýðshreyfingin samið og sagt: „Þetta eru lágmarkslaun og hámarkslaun jafnframt“, þá hefði verið komið í veg fyrir að hægt væri að borga misjafnt til manna sem sátu hlið við hlið á eftir eftir geðþóttaákvörðunum atvinnurekandans á viðkomandi stað. Og ég hygg að hver og einn sem skoðar söguna og metur það hvers vegna Hannibal Valdimarsson þurfti að fara að berjast fyrir þessum málum hér inni á Alþingi sjái að það er vegna þess að hann hefur ekki komið þeim í gegn hjá ASÍ. Svo einfalt er málið. Karlaveldið þar kom í veg fyrir það. (GJG: Dæmalaus misskilningur er þetta.) Dæmalaus misskilningur, segir hv. 7. þm. Reykv. Voru ekki frjálsir samningar? Gat hann ekki samið um að konur fengju sama kaup og karlar, ef málið var svona einfalt?

Það er söguleg staðreynd að það er á Alþingi sem árangurinn hefur fyrst og fremst náðst í launajöfnun, en ekki við samningaborðið.