11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4673 í B-deild Alþingistíðinda. (4070)

304. mál, selveiðar

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um selveiðar á Íslandi, en um selveiðar eru í reynd engin lög og hefur þótt nauðsynlegt að setja löggjöf um mál þetta.

Frv. þetta er undirbúið af nefnd sem hæstv. fyrrv. sjútvrh., Steingrímur Hermannsson, skipaði 31. ágúst 1982 og var nefndinni falið að semja frv. til l. um selveiðar á Íslandi. Í þessari nefnd voru Björn Dagbjartsson forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Agnar Ingólfsson prófessor, Árni G. Pétursson hlunnindaráðunautur og Jón B. Jónasson skrifstofustjóri í sjútvrn.

Frv. það sem hér er flutt er samhljóða áliti nefndarinnar að öðru leyti en því að breyting er gerð á 3. gr., sem ég mun nánar víkja að síðar, og eru það mistök að ekki skuli koma skýrar fram í grg. með frv. að breyting er gerð á 3. grein frá niðurstöðu nefndarinnar.

Það má segja að selveiðar hér við land hafi verið stundaðar allt frá landnámi og hefur selurinn í reynd verið hluti af lífi fólks í landinu. Margvíslegar þjóðsögur hafa um hann spunnist, þannig að það má segja að í gegnum söguna hafi í reynd mikil virðing verið borin fyrir þessu dýri, enda skepnan viturleg á að líta. Þegar horfst er í augu við sel verður manni oft hugsað til þess að nokkurt vit hljóti að búa að baki þeirra augna.

Það má segja að þessi skepna hafi oft og tíðum bjargað mönnum hér í landinu frá hungurdauða. Hins vegar hefur það verið svo, að lengst af hefur selurinn verið mikilvægur tekjustofn fyrir bændur í landinu. Skv. grg. frv. kemur fram að meðalselveiði á árunum 1897–1919 hafi verið um 6 þús. dýr. Hins vegar er þessi veiði í lágmarki á árunum 1939–1959, þá er aðeins um 2500 dýr að ræða. Það má segja að upp úr 1960 aukist selveiðar aftur og er þá um að ræða um það bil 6500 seli á hverju ári fram til 1977 að meðaltali. 1978 verður mikið verðfall á selskinnum á mörkuðum á meginlandi Evrópu. Þá var hafður í frammi mikill áróður gegn veiðum á selnum. Féll það í góðan jarðveg og varð til þess að hætt var að nýta selinn til tekjuöflunar. Var það mjög bagalegt víða og kannske ekki síst á Grænlandi, en Grænlendingar hafa haft verulegar tekjur af selveiðum. Kom þetta verðfall mjög illa við fátæka veiðimenn þar um slóðir og víðar um heim. Þetta varð til þess að veiðin hér féll niður í um 3000 dýr 1981.

Um þetta leyti fara augu manna að beinast í auknum mæli að hringorminum og því mikla tjóni sem hann veldur á helstu útflutningsafurðum okkar. Hafa farið fram allítarlegar rannsóknir, þó að þær séu á engan hátt nægilegar, á ástæðum fyrir hringormi. Hefur það verið rakið til selsins og færðar á það sönnur að hringormurinn eigi uppruna sinn frá selnum eða sé a. m. k. við haldið fyrir tilstilli hans, sem ég skal ekki fara nánar út í hér. Einkum er það útselurinn sem talinn er vera þar sérstakur skaðvaldur, en hringormur í landsel hefur ekki verið mjög mikill eftir því sem ég best veit.

Ég ætla í stuttu máli að rekja efni þessa frv. Í 1. gr. er fjallað um að yfirumsjón þessara mála skuli vera í höndum sjútvrn., en í lögum um Stjórnarráð Íslands segir í 9. gr. að landbrn. fari með mál er varða veiði í ám og vötnum og önnur veiðimál er eigi ber undir annað rn. Hér er sem sagt gert ráð fyrir að selveiðar verði felldar undir sjútvrn. og hefur þótt fara best á því. Má rekja það til þess, að þær rannsóknir sem stundaðar hafa verið hafa farið fram á vegum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnunar og umsjón þessara mála á síðustu árum verið í höndum sjútvrn. Um það hafa verið nokkuð deildar meiningar hvort rétt sé að málum sé skipað með þessum hætti, en niðurstaðan orðið sú, að vegna þess hvernig mál hafa æxlast og hinna miklu hagsmuna fiskiðnaðarins falli málið undir sjútvrn.

Í 2. gr. er tekið fram að allar rannsóknir er varða sel við landið skuli unnar á vegum Hafrannsóknastofnunar og ef aðrar rannsóknir fari fram eða sjútvrn. feli öðrum aðilum utan Hafrannsóknastofnunar að annast slíkar rannsóknir skuli þeirri stofnun ávallt gert kleift að fylgjast með gangi og niðurstöðum þeirra rannsókna, eins og sjálfsagt má telja.

Í 3. gr. er fjallað um það, við hvaða aðila skuli haft samráð við stjórn og skipulagningu selveiðanna. Í nál. sem kom frá þeirri nefnd er ég áður gat um var 3. gr. orðuð svo:

„Til aðstoðar sjútvrn. um stjórn og skipulagningu selveiða skipar ráðh. nefnd til tveggja ára í senn og skal hún skipuð fimm mönnum. Skal einn nm. skipaður skv. tilnefningu Náttúruverndarráðs, einn skv. tilnefningu Hafrannsóknastofnunar, einn skv. tilnefningu Búnaðarfétags Íslands, einn skv. tilnefningu Fiskifélags Íslands, en einn án tilnefningar. Ráðherra skipar formann nefndarinnar úr hópi þessara fimm manna. Tillagna nefndarinnar skal leita vegna setningar reglna og annarra ákvarðana er varða selveiðar og ber nefndinni að gera tillögur til sjútvrn. um hvað eina er hún telur ástæðu til í sambandi við stjórnun og skipulagningu selveiða.“

Um það hafa verið nokkuð deildar meiningar hvaða form skyldi haft á því samráði sem hér er fjallað um í 3. gr., hverjir teljist hagsmunaaðilar í þessu sambandi. Það má segja að það sé einnig fiskvinnslan og þeir aðilar sem berjast við hringorm á mörkuðum. Ég tel eðlilegt að fara bil beggja varðandi þessa grein, en vil leggja á það áherslu að mjög nauðsynlegt er að hafa um þessi mál náin samráð og samvinnu og leysa þau í tengslum við þau samtök sem hér eru nefnd. Ég tel hins vegar eðlilegt að sú nefnd sem þetta mál fær til umfjöllunar fjalli nánar um þessa grein og kynni sér sjónarmið aðila í þessu sambandi og sjálfsagt að nefndin taki það til íhugunar hvort rétt sé að gera einhverjar breytingar á þessari grein eftir að hafa kynnt sér sjónarmið aðila í þessu sambandi. Ég tel út af fyrir sig eðlilegt að nefndin og þingið taki það til gaumgæfilegrar athugunar og breyti þá þessari grein ef sú niðurstaða verður.

Í 4. gr. er staðfestur einkaréttur landeigenda til veiða í landareign. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að landeigendur hafi í þessum efnum óskoraðan rétt, en ég vil hins vegar leggja á það áherslu að það verður einnig að leggja þær skyldur á þessa sömu landeigendur að þeir annist þessar veiðar.

Í 6. gr. kemur skýrt fram hvaða aðgerða er hægt að grípa til varðandi skipulag og stjórnun veiðanna. Ég skal ekki hér skýra þar hvern lið sérstaklega, en þar kemur fram að ráðh. getur sett reglur um bann við selveiðum á ákveðnum svæðum, ákveðið bann við veiðum ákveðinn tíma, friðað ákveðnar selategundir og ákveðið heildarfjölda þeirra sela sem drepa má. Þar er einnig heimilt að ákveða aðgerðir til fækkunar sela, t. d. með veiðiverðlaunum eða ráðningu sérstakra veiðimanna. Í þessu sambandi er rétt að leggja á það áherslu að hér er um alvarlegt mál að ræða og nauðsynlegt að þarna séu fyrir hendi ákveðnar heimildir, sé þess ekki gætt að halda þessum stofni í skefjum eftir því sem rannsóknir benda til.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta frv. mjög langt mál. Hér er fjallað um viðkvæmt mál sem er mikilvægt að leysa í sem bestri samvinnu aðila. Hér er annars vegar um að ræða að góð umgengni sé um náttúru landsins og um hana sé farið með fullri tillitssemi og þeirra sjónarmiða gætt eftir því sem nokkur tök eru á. Hins vegar er um að ræða mjög mikla hagsmuni fiskvinnslu okkar og þar af leiðandi okkar mestu þjóðartekna.

Hringormur hefur vaxið mjög að undanförnu. Eftir þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir er hringormur í einhverjum mæli í nánast öllum okkar nytjafiskum, sem jafnvel var ekki fyrir nokkrum árum, og er svo komið með þorskinn að það eru að meðaltali í fiskholdinu 10 hringormar og 70% fiska eru sýktir. Það þarf ekki að skýra frá því hér hvað hér er um alvarlegt mál að ræða, ekki aðeins að því er varðar þann kostnað sem því er samhliða að hreinsa fiskinn, heldur einnig þeim vandræðum sem skapast á okkar mörkuðum og alls konar óbeinum kostnaði sem þessu er samfara.

Það er út af fyrir sig erfitt að áætla hver er beinn kostnaður við ormahreinsun, en í plaggi, sem ég hef fengið frá forstjóra Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Birni Dagbjartssyni, vitnar hann til upplýsinga sem birtust nýlega í tímaritinu Ægi þar sem kemur fram í athugun í hraðfrystihúsi á Vestfjörðum að kostnaður við að ormahreinsa 2000 tonn af frystum þorskflökum var tæplega 3.9 millj. kr. Ef þessi reynsla er yfirfærð á allan okkar frystiiðnað er varlega áætlað að þessi kostnaður sé ekki undir 100 millj. á ári hverju.

Það kom upp mikið vandamál í saltfiskverkuninni á s. l. ári. sölusamband ísl. fiskframleiðenda áætlaði að kostnaður við að hreinsa orm úr saltfiski væri um 80 millj. eða 3–5% kostnaðarauki fyrir saltfiskverkunina. Það má því telja að varlega áætlað sé að þessi kostnaður nemi um 200 millj. kr. á ári hverju, fyrir utan margvíslegan óbeinan kostnað. Ég ætla ekki að halda því fram að við sjáum fram á það að losna algerlega við þennan kostnað, en ekki verður fram hjá því gengið að selurinn hefur hér veruleg áhrif og að sjálfsögðu er nauðsynlegt að halda þeim stofni í skefjum og halda því jafnvægi sem eðlilegt er talið í lífríkinu.

Í því sambandi er að sjálfsögðu mikilvægast að hægt sé að nota selinn, þ. e. að nota þær afurðir sem hann gefur. Fyrst og fremst hefur skinnið verið verðmætt, þar til 1978 eins og ég gat um áður. Ég er þeirrar trúar að þeir tímar muni aftur koma að skinnin verði verðmæt. Má það teljast nokkuð undarlegt ef hægt verður að halda þeirri iðju áfram að telja það ósæmilegt að nýta afurð af selum, en sæmilegt að nýta afurð af ýmsum öðrum dýrum, sem alin eru í búrum, og eftir því sem þrengra er um þau, þeim mun betra.

Það er nú svo að mínu mati, að það gætir oft mikillar tvöfeldni í umræðum um náttúruverndarmál. Ég varð ekki síst var við það þegar ég sat þing Alþjóðahvalveiðiráðsins hvað í reynd ríkir mikil tvöfeldni þar. Fólk kemur fram og segir: „Við umhverfisverndarþjóðirnar,“ en þessar þjóðir eru jafnvel sumar hverjar í fararbroddi um mengun andrúmsloftsins og mengun sjávar, sem er að sjálfsögðu enn þá meira böl fyrir lífríkið í heiminum, og hika þó ekki við að segja að þær séu í fararbroddi fyrir umhverfisvernd í heiminum. Að mínu mati er ekkert samband þar á milli og eðlilegrar nýtingar auðlindanna. Við Íslendingar höfum lagt áherslu á að nýta okkar auðlindir með eðlilegum hætti, en jafnframt berum við fulla virðingu fyrir þessum auðlindum og umgengni við þær.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa um frv. þetta fleiri orð. Ég vænti þess að það verði tekið til athugunar í nefnd og kallað á þá aðila sem um þessi mál hafa fjallað, bæði frá fiskvinnslu, frá landbúnaðarsamtökum, frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og hringormanefnd og þá ekki síst Náttúruverndarráði sem gaf í janúar s. l. út greinargerð um mál þetta. Þar liggur að baki veruleg vinna. Náttúruverndarráð hefur lagt á það mikla áherslu að þessi lög verði sett og komið á stjórnun þessara veiða, en margir hafa talið að þær hafi ekki verið með þeim hætti sem best verður á kosið. Ég vænti þess að menn leitist við, bæði í þeim samtökum og aðrir hagsmunaaðilar, að skapa sem best samkomulag og frið um þetta annars mjög viðkvæma mál.

Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.