11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4686 í B-deild Alþingistíðinda. (4077)

304. mál, selveiðar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég geri mér engar vonir um að við leysum hér ágreiningsefni í sambandi við samhengi setastofnstíðni hringorms og annað af því tagi, enda Alþingi ekki vettvangur til þess að útkljá slík ágreiningsmál. Mig langar hins vegar til að benda á að ástæða er fyrir því að málefni dýrastofna valda oft miklum umræðum og deildum meiningum hjá lærðum sem leikum, ekki síður hjá leikum. Ég held að ástæðan fyrir því sé sú fyrst og fremst, að það sem mönnum gætu virst dagljós sannindi og auðsæ eru það ekki þegar til kastanna kemur, vegna þess að yfirleitt er um að ræða mjög flókið samhengi sem dylst mönnum nema það sé skoðað mjög vendilega eða menn hafi fengið reynslu af að fást við það.

Auðvitað komust menn á liðinni tíð að ýmsum góðum og gildum sannindum í sambandi við dýrastofna, þeir sem umgengust þá og nytjuðu, það ætla ég engan veginn að vefengja. En ég tel að það gildi um velflesta dýrastofna við Ísland, villta stofna, að við höfum ónóga þekkingu á þeim þáttum sem varða stofnstærðina og því samhengi sem þar liggur að baki. Við höfum verið að fást við einstaka þætti og gott starf hefur verið unnið á einstökum sviðum, en það er mjög langt í land að menn hafi náð viðeigandi tökum á þessum málum þannig að þeir geti með stjórnunaraðgerðum markvisst gripið inn í hið náttúrlega samhengi með sæmilegri vissu um niðurstöður. Þetta held ég að eigi við varðandi selastofninn og þau dýr sem hann geymir sem hýsill og svo einnig varðandi ýmsa aðra stofna sem ég ætla ekki að fara að ræða hér um.

Hér kom til umræðu spurningin um hvaða rn. ætti að fara með þessi mál og hvernig ætti að tryggja að hagur landeigenda væri ekki fyrir borð borinn. Ég held að þetta sé einn af þeim þáttum sem mjög nauðsynlegt er að líta á í nefnd um þetta mál. Ég vil ekki vera að stinga upp á neinum kjörlausnum í sambandi við þetta, þó að mér komi eitt og annað í hug. Ég nefni það meira til gamans en sem tillögu af minni hálfu að fela þetta einhverju þriðja rn. umfram þau sem hér hafa verið til nefnd. Minni ég á að einn er sá dýrastofn villtur á Íslandi sem menntmrn. hefur umsjón með, þar sem eru hreindýrin, og hefur oft verið hent gaman að því að það skuli vera viðfangsefni ráðherra menntamála á Íslandi að setja reglugerð um fækkun hreindýra og veiði og skipti milli hreppa á Austurlandi. (StG: Þetta er nú mikið fjárhagsmál, svo fjh.- og viðskn. kæmi til greina.) Hv. þm. Stefán Guðmundsson. Það var ekki inn í þetta samhengi sem ég var að tala, heldur um yfirstjórn málsins, engan veginn varðandi þingnefnd. En það er nokkuð liðið á kvöldið þannig að eðlilegt er að menn nái ekki öllu sem hér er talað.

En í framhaldi af því er auðvitað áhorfsmál hvort ekki þarf að finna aðra tilhögun um stjórnun auðlinda af þessu tagi og náttúrlegra auðlinda landsins almennt með tilliti til nýtingar. Þar kemur að mínu mati fyllilega til álita, ef hér verður stofnað umhverfisráðuneyti, sem ég vona að verði fyrr en seinna, að það fái a. m. k. mjög gildan íhlutunarrétt um meðferð auðlindanna, ekki síst hinna lífrænu auðlinda, með tilliti til nýtingar þeirra.