12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4699 í B-deild Alþingistíðinda. (4099)

307. mál, staða íþrótta í landinu

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég tek undir það að hér er hreyft þörfu máli og lýsi stuðningi við þessa till. Það er ekkert vafamál að hér er einn af þeim þáttum í okkar þjóðlífi sem er hvað mikilvægastur og Alþingi sem fjárveitingavaldinu bæri að sinna þeim þætti betur en gert hefur verið á undanförnum árum. Það er ekki vansalaust að fjárframlög, sem ríkið á að leggja til skv. lögum, skuli ekki vera afhent viðkomandi aðilum fyrr en allt upp í áratug eftir að framkvæmdum er lokið. Það sjá allir að það er fyrir neðan allar hellur að ekki sé staðið betur að málum þó að lög séu fyrir hendi. Í þessum málaflokki eins og fjöldamörgum öðrum má gera miklu betur en gert er þrátt fyrir að ekki væri meira fjármagn fyrir hendi en úthlutað hefur verið til þessara mála. Þá á ég við það að ég þekki a. m. k. mörg dæmi þess að sveitarfélög víðs vegar um landið hafa óskað eftir að hefja byggingarframkvæmdir á íþróttaaðstöðu sem kostar tiltölulega lítið miðað við það sem topparnir í menntmrn. hafa lagt til að færu í slíkar byggingarframkvæmdir en fengið synjun. sú stefna hefur a. m. k. allt til þessa það ég best veit verið ríkjandi í rn. og hjá þeim sem ráða þessum málum að nánast hefur verið ókleift fyrir hin smærri sveitarfélög eða byggðir að byggja þessa aðstöðu upp vegna þess hversu gífurlega mikil áhersla hefur verið lögð á að þetta væri byggt miklu fullkomnara en nokkur þörf er á.

Ég veit nokkur dæmi þess úr mínu kjördæmi að tiltölulega fámenn sveitarfélög hafa óskað eftir að byggja upp aðstöðu af því tagi sem þau töldu sér nægja. En þá var neitað um fjárveitingu vegna þess að það þótti ekki nógu fín og góð aðstaða sem fyrirhugað var að koma upp.

Ef við tökum bara einn þátt út úr í þessu sem er sundið, þá er það ekki vansalaust fyrir þjóðfélag sem byggir á fiskveiðum að í velflestum sjávarplássum á landinu er ekki aðstaða til sundkennslu sem er þó sá þátturinn sem ætti að leggja hvað mesta áherslu á að sinna, ekki síst í sjávarplássunum. Þar getur oft verið um að ræða spurningu um líf eða dauða þeirra sem sjóinn sækja hvort þeim hefur auðnast að læra sund eða ekki. Það er ekki vansalaust að þessum þætti skuli hafa verið sinnt af slíkum trassaskap að í velflestum sjávarplássum á landinu er engin aðstaða til sundkennslu. Ég held að nauðsynlegt sé að gefa þessum þætti gaum í úttekt eins og hér er um talað að gerð verði.

Ég hef nokkrum sinnum hér á Alþingi flutt frv. um breytingu á kostnaðarskiptingu í sambandi við skólamálin þar sem ég hef lagt til að þátttaka ríkissjóðs yrði aukin í uppbyggingu á sundaðstöðu í sjávarplássunum þar sem hennar er mest þörf og þau verði látin ganga fyrir. Í þau skipti sem þetta frv. hefur verið flutt hefur málið verið drepið. Það er sá skilningur sem meiri hluti hér á Alþingi hefur sýnt á þessum þætti íþróttamálanna sem er auðvitað meira en íþróttamál. Hér er um að ræða þátt sem er lífsspursmál fyrir þá einstaklinga sem gera sjómennsku að lífsstarfi sínu. En undir þetta hefur ekki verið tekið á þann hátt að það næði fram að ganga.

Ég held því að þó að þessi till. sé mjög þörf og góð og ég lýsi eindregnum stuðningi við hana þurfi breytta stefnu stjórnvalda til þess að hér verði breyting á frá því sem verið hefur og er. Það þarf hugarfarsbreytingu stjórnvalda og fjárveitingavaldsins til þess að hér verði bætt úr. Sé slík hugarfarsbreyting ekki fyrir hendi kemur ekkert út úr því starfi sem hér er lagt til að unnið verði. Það eru vinsamleg tilmæli mín til hv. 1. flm. þessarar till. að hann beiti áhrifum sínum á þeim vinnustað sem hann starfar oftast nær til þess að sú hugarfarsbreyting eigi sér stað á þeim vinnustað sem gæti orðið hvatning til þess að fjárveitingavaldið tæki við sér og gæfi þessu máli meiri og betri gaum en raun ber vitni. Án þess að hugarfarsbreyting eigi sér stað hjá þeim aðilum, sem fyrst og fremst um þessi mál fjalla og ferðinni ráða, verður engin breyting. Ég legg því höfuðáherslu á að allir þeir aðilar sem geta geri sér ljóst að til þess að ná fram árangri í þessu máli verður að hafa þau áhrif á stjórnvöld, fjárveitingavaldið og þá aðila aðra sem fyrst og fremst um málið fjalla, að fáist fram jákvæðara hugarfar til þess að breyta frá því sem verið hefur.

Þó að ég vilji á engan hátt draga úr því að mikið sé í fang færst á sem flestum sviðum er ég þó þeirrar skoðunar, a. m. k. í því ástandi sem við búum við í fjárhag og útliti í dag í þjóðarbúskapnum, að það sé númer eitt í framkvæmdum á þessu sviði að koma upp sundaðstöðu í öllum sjávarplássum á Íslandi þannig úr garði gerða að sjómenn og sjómannsefni geti áður en þeir velji sér það lífsstarf, sem er hvað hættulegast hér á landi, notið þessa þáttar í sambandi við íþróttaaðstöðuna. Ég er ekki á nokkurn hátt að gera lítið úr öðrum þáttum en ég tel þetta brýnasta verkefnið og að þessi mál séu í svo miklum ólestri allt of víða í sjávarplássum að ekki sé vansalaust fyrir Alþingi að láta það mál ekki til sín taka og það fyrr en síðar.