03.11.1983
Sameinað þing: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

48. mál, stöðvun framkvæmda við byggingu Seðlabanka Íslands

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. sem liggur fyrir á þskj. 51 og er 48. mál þingsins og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita ákvæði 3. mgr. 1. gr. laga um skipan opinberra framkvæmda, nr. 63/1970, og stöðva nú þegar þær framkvæmdir við byggingu Seðlabanka Íslands sem ekki hefur þegar verið samið um við verktaka.“

Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga um skipan opinberra framkvæmda er ríkisstjórninni heimilt að hafa afskipti af framkvæmdum við ríkisstofnanir sem hafa sjálfstæðan fjárhag og eru ekki háðar fjárveitingum Alþingis.

Málefni Seðlabankans hafa verið nokkuð til umr. hér á hinu háa Alþingi í vetur og raunar á síðustu þingum. Ekki síst hefur verið gagnrýnd fyrirhuguð bygging Seðlabankahúss við Arnarhól og minnast menn harðra mótmæla fjölmargra Reykvíkinga á árum áður gegn þessum byggingaráformum. Kom hvort tveggja til að mörgum fannst lítill fegurðarauki að byggingunni á þessum stað og ekki síst ofbauð mönnum íburðurinn við þessa skrauthöll. En bankastjórnin og bankaráð hafa skellt skollaeyrum við mótmælunum og áfram hefur verið haldið.

Við erum öll sammála um það hér, hv. þm., að fara verður með gát í fjárfestingar á næstu árum vegna efnahagsörðugleika þjóðarinnar og hefði raunar mátt gæta að sér fyrr. Núverandi ríkisstjórn hefur enda markað þá stefnu og segir í þjóðhagsáætlun hennar fyrir árið 1984, sem forsrh. lagði fram 17. okt. s.l., í 1. kafla sem ber yfirskriftina markmið, með leyfi forseta: — „Beina fjárfestingu fyrst og fremst í arðbær verkefni.“

Þessi stefnumörkun lítur vel út á pappírnum en varla er hægt að ætlast til að almenningur í landinu, sem nú hefur orðið að sjá af nær þriðjungi launa sinna, taki slíka stefnumörkun alvarlega þegar horft er á framkvæmdir við þessa skrauthöll án þess að sýnt sé að þar sé fjár vant. Hafnarverkamennirnir, sem ganga fram hjá þessum ósköpum á hverjum morgni til vinnu sinnar, eiga erfitt með að skilja hvers vegna þessar milljónir voru ekki „skildar eftir“, eins og það er svo fallega orðað í stefnuræðu hæstv. forsrh., í launaumslaginu þeirra. Þeir skilja hins vegar fullkomlega að yfirlýsing seðlabankastjóra í sjónvarpsviðtali 8. ágúst s.l. — um að hér sé um eigið fé bankans að ræða - er hreint bull og satt að segja yfirgengilegt að bankastjóri skuli láta annað eins og það út úr sér. Vitanlega er þetta fé landsmanna sem fámenn klíka valdamanna í þjóðfélaginu er að ráðskast með á meðan íslenskur almenningur hefur varla til hnífs og skeiðar. Og ef ríkisstj. er alvara með að beina fjárfestingum sínum í arðbær verkefni er hús Seðlabankans ekki eitt af þeim. Menn hljóta að spyrja: Hvað eru arðbær verkefni? Fyrir hvern eru þau arðbær? Þegar um er að ræða framkvæmdir sem fólkið í landinu greiðir hljóta þær framkvæmdir að eiga að koma þessum sömu landsmönnum að gagni.

Hverju breytir þessi nýja bygging í lífi landsmanna? Hvað verður betra eftir að byggingunni er lokið? Auðvitað breytir þessi bygging engu í lífi nokkurs Íslendings. Og ekki verður hagur Seðlabankans betri eftir nema síður sé. Og erum við þá ekki sammála um það að þetta sé ekki arðbært verkefni, háttv þm.

Hæstv. fjmrh. er þetta sem betur fer ljóst. Í þingræðu hér í fyrradag sagði hann orðrétt þegar fsp. hv. þm. Karvels Pálmasonar var til umr., með leyfi forseta:

„Fjárhagslega statt þá er Seðlabankinn orðinn tákn um það að nóg sé til af peningum í landinu. Þess vegna er það erfitt fyrir okkur, sem sitjum í ríkisstj. og förum með fjármál, að telja fólkinu í landinu trú um það að peningar séu af skornum skammti á sama tíma og framkvæmdir sem þessar geta haldið ótrauðar áfram.“ Það er ástæða til að gleðjast yfir því að a.m.k. einn ráðh. ríkisstj. og það sjálfur fjmrh. hæstv. skuli horfast í augu við þetta.

Í svörum hæstv. viðskrh. kom fram í sömu umr. að á árinu 1983 — nánar tiltekið til 15. okt. — hafði verið varið 50.1 millj. kr. til byggingarinnar og víst er að miklu er hægt að eyða til áramóta. Alls hefur hingað til verið varið að sögn hæstv. ráðh. 67.7 millj. kr. til hennar. Hafa verður í huga að þetta segir auðvitað ekki alla söguna því að þessar upphæðir hafa ekki verið færðar upp til núgildandi verðlags.

Á árinu 1984 á að verja 20 millj. kr. til að steypa upp bygginguna. Öll vitum við að þessar áætlanir standast auðvitað hvergi og ljóst að í þetta hús fara hundruð millj. króna úr vösum landsmanna áður en yfir lýkur. En þó að við færum þessar upphæðir ekki til núgildandi verðlags er ástæða til að gera nokkurn samanburð við önnur verkefni í þjóðfélaginu.

Lítum á árið 1983. Þá eru veittar til framkvæmda í þágu þroskaheftra 37 millj. en til byggingar Seðlabankahúss 50.1 millj., til framkvæmda á flugvöllum landsins voru veittar 46 millj. 250 þús., til dagvistarheimila 27 millj., til sjóvarnargarða 4 millj., til Landsspítalans 40 millj., til íþróttamannvirkja 15 millj. og svona mætti lengi telja. Eyðsla við byggingu Seðlabankahúss er hærri en sérhvert framlag til þessara nauðsynjamála hvers um sig.

Í þeim fjárlögum, sem nú eru nýlögð fram, er verulega skorin niður fjárveiting til nær allra nauðsynlegra framkvæmda í landinu. Framkvæmdasjóður fatlaðra fær nú þriðjungi minna fé en áður. Áættaður byggingarkostnaður við Seðlabankahúsið á árinu 1984 er um það bil þessi þriðjungur. Hafa menn samvisku til að horfa upp á þetta möglunarlaust? Menn kunna að spyrja: Hvernig getur svona lagað gerst? Og ég hef áður bent á það hér á hinu háa Alþingi hvers vegna það getur gerst. Í 33. gr. laga um Seðlabanka Íslands er bankaráði og bankastjórn fengið það vald að ráðstafa verulegum hluta af arði bankans að eigin geðþótta. Greinin hljóðar svo, með leyfi forseta, og ég ætla að leyfa mér að lesa hana hér:

„Af tekjum ársins skal greiða allan rekstrarkostnað, svo og tap, sem bankinn hefur orðið fyrir ...

Af tekjuafgangi þeim, sem þá er eftir, skal greiða 5% arð af stofnfé bankans, enda nemi arðgreiðsla aldrei hærri upphæð en helmingi tekjuafgangsins. Bankaráð getur þó eftir tillögu bankastjórnar ákveðið hærri arðgreiðslu, ef aðstæður leyfa. Þeim hluta tekjuafgangsins, sem ekki er greiddur út sem arður, skal bankaráð ráðstafa til varasjóða bankans og deilda hans eftir tillögu bankastjórnarinnar.“

Þetta nær auðvitað engri átt og þessu þarf að breyta. Arður af Seðlabankanum á að renna í ríkissjóð eins og gerist með nágrannaþjóðum okkar. Það nær engri átt að stjórnendur bankans reki fyrir þetta fé eitt glæsilegasta bókasafn landsins sem enginn fær að koma í nema þeir á sama tíma og almenningsbókasöfn eru nær óstarfhæf vegna fjárskorts og framkvæmdir við þjóðarbókhlöðu eru að stöðvast. Ég vil benda hv. þm. á að Seðlabankinn kæmist auðveldlega fyrir í húsi sínu að Einholti 4 þegar bókasafnið hefur eðlilega verið flutt í þjóðarbókhlöðuna. Það nær heldur ekki nokkurri átt að arði Seðlabanka Íslands sé þess utan — fyrir utan dýrmætar bækur eytt í málverk og aðra skrautmuni, laxveiðar og lúxusbifreiðar og loks skrauthöll sem helst líkist höll olíufursta í Saudi-Arabíu. Það er ekkert sem bendir til þess að starfsaðstaða seðlabankastarfsfólksins sé slík að það hafi ekki getað sinnt verkefnum sínum. Og enn fáránlegra er að sjá þetta skrauthýsi rísa eins og háðsglott framan í ríkisstj. þar sem allir vita að stjórnarráð Íslands, ráðuneyti landsins, á ekkert hús fyrir sína starfsemi heldur eru ráðuneytin dreifð út um alla borg. Ráðherrar landsins hafa orðið að sæta þeim starfsskilyrðum að hafa skrifstofur sínar á mörgum stöðum í borginni þegar þeir hafa sinnt fleiri en einu rn.

Í till. minni er gert ráð fyrir að þær framkvæmdir verði stöðvaðar við byggingu Seðlabanka sem ekki hefur þegar verið samið um. Ég hef sjálf efasemdir um hvort hér er ekki of mildilega að farið og ekki hefði átt að sleppa þessum fyrirvara. Um það vil ég biðja þá nefnd, sem um málið fjallar, að ræða vandlega. Ég legg áherslu á að byggingarframkvæmdir þessar verði stöðvaðar en bendi á það til vara að komi hús þetta til með að rísa taki ríkisstj. það yfir og leigi Seðlabankanum hæfilegt horn fyrir starfsemi sína í því sama húsi.

Ég bið nefndina einnig um að kanna hvort samið hefur verið um framkvæmdir við bygginguna eftir að þáltill. mín var lögð fram en vera má að hæstv. viðskrh. geti svarað því hér og nú hvort svo sé. Ég skora á hv. alþm. að sýna íslenskum almenningi þann sóma að stöðva þessa taumlausu og þarflausu eyðslu í þjóðfélaginu með samþykkt þeirrar till. sem ég hef hér mælt fyrir.

Ég legg til, herra forseti, að henni verði vísað til hv. allshn. Sþ. og skora á n. að afgreiða hana fljótt og vel. Þá kynni svo að fara, að hið háa Alþingi ynni traust fólksins í landinu að nýju.