12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4709 í B-deild Alþingistíðinda. (4103)

268. mál, framburðarkennsla í íslensku

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa fyllsta stuðningi við þessa till., sem ég tel tímabæra, og lít með umburðarlyndi fram hjá því að hún svo og grg. er skreytt forneskjutákni því er zeta nefnist. Góður framburður og vandað málfar ætti að vera keppikefli allra Íslendinga og þeim mun frekar þar sem tunga okkar er svo sérstæð. Ég er sammála þeirri skoðun flm. þessarar till. að íslensk tunga eigi nú í vök að verjast og að fyllsta ástæða sé til að spyrna við fótum. Á það bæði við um latmæli og linmæli svo og hreinar málfræðilegar villur. Látum nú vera þótt gullaldarmálið liggi ekki öllum laust á tungu en undanlátssemi við málsóða er farin að valda verulegum áhyggjum. Vissulega er þetta ekki nýtt vandamál en það er áreiðanlega vaxandi vandamál og hefur að ég tel sigið heldur á ógæfuhliðina síðustu ár. Mér er minnisstætt þegar ég fyrst kynntist latmæli í sinni verstu mynd fyrir 25 árum eða svo. Það var menntaskólanemandi, og skiptir kannske ekki máli hvaðan af landinu hann var, sem sagði m. a. alltaf „ávuru“ í stað af hverju og mér fannst í raun og veru erfitt oft að skilja mælt mál hans. Þeim hinum sama fannst víst einnig stundum erfitt að skilja mig, en það var þó hreint ekki vegna þess að ekki væri kveðið nægilega fast að orði. Á þessum árum var hér um frekar einangruð tilfelli að ræða og ég minnist þess ekki að slíkt hafi valdið miklum áhyggjum eða verið sérlega umtalað. Nú virðist mér einmitt latmæli af þessu tagi hafa færst gífurlega í vöxt eins og reyndar 1. flm. gaf nokkur dæmi um hér áðan og mætti nefna mörg fleiri. Ég vil aðeins nefna örfá eins og „tvöðusund“ í staðinn fyrir tvö þúsund, sem er mjög algengt að heyra núna í máli barna og unglinga, „inndudeild“ í stað innheimtudeild, sem ég heyrði margsinnis í útvarpi eitt sinn, „fóbolti“ í stað fótbolti. Þetta eru dæmi um latmæli sem fullyrða má að færist í vöxt. Vil ég m. a. kenna því um að alls ekki hafa verið gerðar nægilega miklar kröfur til framburðar þeirra sem koma fram í ríkisfjölmiðlunum.

Þá virðist harðmæli, þ. e. t,-p,-k-framburðurinn einnig á undanhaldi fyrir linmælinu d, b, g. Ég er ósammála því sem um þetta stendur í grg. með þessari till. og ég vitna hér í með leyfi forseta. Á bls. 4 í þessari löngu grg. stendur eftirfarandi:

„Ég læt mig að vísu litlu skipta hvort við Sunnlendingar segjum taga og láda, en Norðlendingar taka og láta. Slíkt eru engin óeðlileg blæbrigði á tungu sem er að þróast á vörum lifandi fólks, auk þess sem Sunnlendingar geta vart lært harðhljóðin svo að rétt sé frekar en Norðlendingar hv-hljóðið.“

Linmæli eða harðmæli er fyrir mörgum aðeins smekksatriði, en hér er um annað og meira að ræða að mínum dómi. Ef ekki er spyrnt við fótum heldur þróunin áfram. Harðmælið er nú á undanhaldi og þegar linmælið hefur náð fótfestu svo að harðmæli heyrist vart nema í máti einstakra þá er stutt í enn meiri linku í máli. Þá er stutt í að t, sem orðið er d, breytist í ð. Íslendingar segi láða í stað láda, sem margir segja sem betur fer enn þá láta. Og þá er stutt í að b, sem til er orðið úr p, breytist í v. Menn segi káva í stað kába, fyrir eldra kápa. Og loks er stutt í að k, sem breyst hefur í g, verði enn hnara. Menn segi þá taqa í stað taga fyrir enn eldra taka. „Það er bleyduvæda á gödum Reygjavígur,“ sögðu norðlensk börn í gamla daga og gerðu þannig gys að sunnlenskunni, sem svo var nefnd, en er og hefur lengi verið miklu víðtækari en svo að kenna megi hana eingöngu við Suðurland. Ef ekki verður spyrnt við fótum á þessu sviði kynni þessi setning að hljóma svo eftir allmarga áratugi vænti ég: „Þa e bleyðuvæða á göðum Reyqjavíqur“ og þyrfti þá meira en regnkávu til að mæta þeim aðstæðum á réttan hátt. Hins vegar er ég sammála því, sem stendur í grg., að röddun í framburði eins og tíðkast á Norðurlandi eystra í orðum eins og stúlka, mjólk, hempa, vöntun o. s. frv. sé ekki keppikefli þeim sem ekki hafa alist upp við slíkan framburð og er ekki hlynnt því að reynt sé að kenna hann, þótt óneitanlega væri mikil eftirsjá í þeim framburði, ef hann legðist algerlega af, á sama hátt og leitt væri ef langa aið þeirra Vestfirðinga legðist af með öllu.

Um málfræðivillur í töluðu máli finnst mér óþarfi að fjölyrða, en vil taka fram að mér finnst undanlátsmenn á því sviði hafa verið of ráðandi undanfarin ár. Væntanlega er óþarfi að færa frekari rök fyrir því að ástæða sé til að spyrna við fótum og vinna að því að aukin rækt verði lögð við málvöndun og kennslu í framburði íslenskrar tungu svo sem þessi till. til þál. gerir ráð fyrir. Ég sakna þess hins vegar að ekki er fjallað um það að neinu marki í grg. hvernig framkvæmdin megi verða. Því miður hef ég nú engar ákveðnar tillögur þar um, enda stóð ég ekki að undirbúningi þessa máls og hef ekki gefið mér tíma til að huga sérstaklega að því. En ég vil a. m. k. láta það koma fram að ég tel sérstaka nauðsyn bera til þess að auka verulega kröfur á hendur þeim sem flytja mál í útvarpi og sjónvarpi. Það er t. d. deginum ljósara að einkanlega þeir sem koma fram í tónlistarþáttum fyrir ungt fólk og íþróttaþáttum bera mikla ábyrgð á versnandi framburði í máli ungs fólks. Og við eigum sem betur fer fjöldann allan af vel menntuðu fólki og áhugasömu um varðveislu íslenskunnar í sinni fegurstu mynd, sem treystandi er til að vinna að þessu máli, ef því er gert það kleift. — [Fundarhlé.]