12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4713 í B-deild Alþingistíðinda. (4105)

268. mál, framburðarkennsla í íslensku

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður, hæstv. iðnrh.. var ekki að skafa neitt utan af hlutunum frekar en hans er vandi hér í þessum ræðustól. Það er hverju orði sannara sem hann sagði um hversu ömurlegt til þess er að vita þegar Alþingi gerir ályktanir sem framkvæmdavaldið síðan kýs að hafa að engu. Nú beini ég því til hæstv. iðnrh., enda hæg heimatökin hjá honum þar sem hann er handhafi framkvæmdavalds, situr í ríkisstj., að hann beiti nú áhrifum sínum þar til þess að eitthvað verði að gert.

Ég get sömuleiðis tekið undir þá gagnrýni hans á þeirri till. sem hér er til umr. að þar skuli ekki vera neitt um framkvæmdina fjallað. Rétt er að það komi fram að hv. 1. flm. þessarar till. bauð mér að gerast meðflm. að henni en ég kaus að hafna því góða boði, ekki vegna þess að ég sé ekki sammála þeim efnisatriðum sem felast í till., einkanlega því sem segir í upphafi hennar, með leyfi forseta: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að í ríkisfjölmiðlum og í grunnskólanámi verði stóraukin rækt lögð við kennslu í framburði íslenskrar tungu og málvöndun...“ Hins vegar tjáði ég honum að mér fyndist síðari hluti till. hreint ekki vera skýrt eða skilmerkilega orðaður, þ. e. „ .. svo að grundvöllur tungunnar raskist ekki, en hann varðar meginþátt íslenskrar menningar eins og varðveisla tungunnar að öðru leyti.“ Mér finnst þetta bara hálfgerður grautur, svo ég segi mína meiningu alveg umbúðalaust. Þetta er ekki skýrt hugsað og ekki skýrt fram sett. Ég vil geta þess líka að grg. var mér heldur ekki að skapi.

Ólíkt skýrari og skilmerkilegri þótti mér sú grg. sem vitnað var til í síðustu ræðu.

En efnislega get ég tekið undir og stutt það sem felst í till. og tek jafnframt undir það sem hæstv. iðnrh. sagði að hér þarf að ákveða um framkvæmdina einnig. En ekki er ég alls kostar viss um að sá háttur, sem hann hefur lagt til að verði á þessu hafður, sé endilega bestur. En um það má að sjálfsögðu lengi deila og mun sitt sýnast hverjum.

Hér var nokkuð vikið að Ríkisútvarpinu og hlutverki þess í þessum efnum sem óneitanlega er stórt og vandasamt. Ég hef átt sæti í útvarpsráði síðan á árinu 1978. Ég minnist þess ekki — þó kann það að vera— að þangað hafi komið tilmæli frá menntmrn. um að framfylgja þessari samþykkt Alþingis. En hitt er það að nokkur viðleitni er höfð uppi af hálfu Ríkisútvarpsins í þessum efnum og nefni ég þar fyrst þáttinn Daglegt mál sem er fluttur þrisvar sinnum í viku, bæði kvölds og morgna raunar, þáttur sem ég held að sé með áheyrilegasta útvarpsefni og jafnframt í flokki með því efni sem einna mest er hlustað á. Ég nefni til þáttinn Íslenskt mál sem er í höndum þeirra orðabókarmanna. Eftir þeim bréfum að dæma sem þeim umsjónarmönnum berast er mikill og lifandi áhugi á verndun íslenskrar tungu meðal þjóðarinnar. Ég hygg að á þennan þátt sé einnig mikið hlýtt.

Sjónvarpið hefur verið aðgerðaminna í þessum efnum, kannske skv. eðli máls, en nokkur viðleitni var þar höfð uppi fyrir fáeinum árum um skýringar á myndhverfum orðtökum ef ég rétt man. En auðvitað má miklu betur gera.

Nú á undanförnum vikum og mánuðum með tilkomu annarrar útvarpsdagskrár, Rásar 2, sem svo hefur verið nefnd, hefur að nokkru keyrt um þverbak og mönnum sýnst að nú væri mælirinn fullur þar sem ambögurnar hafa óspart riðið húsum. Þetta leiddi til mikilla umræðna í útvarpsráði um málfar í útvarpi og málvöndun. Niðurstaðan varð sú að vinnunefnd, sem útvarpsráð skipaði til að kanna þetta mál, gerði það að till. sinni að ráðinn yrði að Ríkisútvarpinu sérstakur kunnáttumaður til að leiðbeina þeim sem þar koma fram um málfar. Þetta var síðan samþykkt í útvarpsráði. Útvarpsstjóri brá skjótt við og leitaði eftir manni til þessara starfa til eins árs til að byrja með. Mun málfarsráðunautur væntanlega taka til starfa við Ríkisútvarpið nú á vordögum. Ég held að þetta sé breyting til bóta, alla vega sýnir það áhuga stofnunarinnar á því að sinna þessu hlutverki sínu sem raunar eru ákvæði um í útvarpslögum.

Það er hverju orði sannara að margir hafa af því miklar áhyggjur að orðaforði fari minnkandi og málfari hrakandi. Um þetta eru ýmis dæmi og þar eiga stjórnmálamenn sök líka. T. d. hefur verið næsta áberandi hér hve áhersluflutningur af fyrsta atkvæði hefur smitað út frá sér. Hann fór fyrst að heyrast hér fyrir 10–12 árum svo að eftirtakanlegt væri. Menn tala um forsætisráð-herra og mörg fleiri dæmi mætti hér til taka. Þetta hefur breiðst óhugnanlega út á hinu háa Alþingi. Þannig verðum við í sambandi við þessa hluti líka að líta í eigin barm.

Sjálfsagt má tala um það langt mál hverjar skýringar þetta á sér, þær yrðu margar og áreiðanlega flókið fyrirbæri og ber margt til. Ég vildi nefna eitt af því sem mér hefur flogið í hug. Í fyrsta lagi eru börn nú meira ein og með jafnöldrum sínum en áður var, umgangast fullorðið fólk í minna mæli þannig að málið flyst ekki með eðlilegum hætti frá fullvöxnum til barna. Því svo læra börnin málið sem fyrir þeim er haft. Þjóðfélagsaðstæður eru nú þannig að í fjöldamörgum tilvikum eru foreldrar báðir að heiman allan daginn og hafa svo mismikinn tíma til að sinna börnunum þegar komið er heim á kvöldin og ræða við þau. Ég held að þetta sé einn þátturinn.

Myndmálið hefur öðlast æ ríkari sess hvarvetna með tilkomu sjónvarps og myndbanda sem börn horfa á í töluvert ríkum mæli og oft aðgæslulaust þegar enginn er heima nema þau ein. Myndsögur hvers konar hafa orðið æ stærri þáttur þeirra barnabókmennta sem á boðstólum eru. Það er sjálfsagt þróun sem erfitt er að gera við en ég held að það sé afar óæskileg þróun þegar myndasögur, sem yfirleitt hafa heldur lítið bókmenntagildi og þar sem frásagnarlistin er nánast aukaatriði á myndunum, eru að verulegu leyti komnar í stað venjulegra bóka.

Þá vil ég enn nefna það til þessarar sögu að sú breyting hefur orðið á í skólakerfinu að því er varðar kennslu í erlendum tungumálum að þar hefur í mjög vaxandi mæli verið horfið frá því sem tíðkaðist hér um langa tíð að láta nemendur þýða texta. Tungumálakennslan beinist nú í ríkari mæli að því að geta talað. Að hluta til er það af hinu góða en ég held að þarna eins og í mörgum öðrum tilvikum höfum við gengið of langt vegna þess að kennslustundirnar, hvort sem það var í ensku, dönsku, þýsku eða frönsku, byggðust að verulegu leyti á því að þýða texta og koma honum yfir á skaplegt íslenskt mál. Þessar kennslustundir voru nefnilega líka íslenskukennsla, þær voru móðurmálskennsla í mjög ríkum mæli. Þarna held ég að hafi orðið breyting til hins verra.

Ég hef sjaldan orðið jafnhissa og mér liggur við að segja skelfdur og fyrir fáeinum árum þegar ég fékk það verkefni að þýða af íslensku yfir á ensku úrlausnir háskólanema í ákveðinni grein. Þannig var að þar var enskur kennari en nemendur höfðu fengið heimild til að skila prófúrlausnum sínum á íslensku. Ég hef satt að segja sjaldan orðið jafnhissa. Í fyrsta lagi var stafsetning og íslenskukunnátta langtum lakari en ég hafði búist við. Svo er það kannske annar handleggur en stundum var næsta erfitt að þýða vegna þess að ekki var hell hugsun í heilli setningu, það var ekki gott að þýða það.

Þetta eru sem sagt fáeinar af þeim ástæðum sem e. t. v. liggja m. a. því til grundvallar að svo hefur farið um þessi efni sem farið hefur. Þetta er ekki fyrirbæri sem er bundið við okkur Íslendinga sérstaklega. Þetta vandamál er uppi í löndunum í kringum okkur og kannske í langtum ríkari mæli en hér. Það fer ekki fram hjá neinum sem les norræn blöð og fylgist með umræðu þar hversu enskuskotið málið er að verða. Nordisk kontakt, tímaritið sem lagt er hér á borð þm., gefur þetta einnig til kynna. Þar var grein um kynningu á þm. í síðasta blaði sem stakk mig m. a. fyrir það hvað þar var mikið af hreinum enskum orðum. Skandínavar tala um weekenden og þannig mætti lengi telja. Á ráðstefnum sem ég sótti í fyrra eða hitteðfyrra þar sem verið var að ræða framtíð og starf menningarmálatímarita á Norðurlöndum vitnuðu menn óspart til enskrar tungu, slógu um sig með tilvitnunum á ensku og sögðu jafnvel „eins og við segjum á nýsænsku“ og vitnuðu síðan til ensku. Nú er ég ekki að hafa á móti ágæti enskrar tungu nema síður sé en allt hefur sinn stað og allt hefur sinn tíma.

Ég vék áðan að Ríkisútvarpinu og hlutverki þess. Það skiptir ákaflega miklu máli að þeir sem þar koma fram tali gott mál, og rétt mál og skýrt. Á því er misbrestur. Eins og okkar útvarp starfar endurspeglar það fyrst og fremst það málfar sem talað er með þjóðinni á hverjum tíma vegna þess að ég hygg að óvenjumikið sé um það að almenningur komi fram í útvarpinu. Það eru ekki neinir sérhæfðir starfsmenn sem hafa einkarétt á því, hér koma margir menn að.

En það eru ljót dæmi úr útvarpinu. Ég er ekki enn búinn að sætta mig við það að heyra talað um Agnesinga, Keblvíkinga og Akeyringa þegar verið er að segja frá íþróttakappleikjum. En margt hefur líka verið bærilega gert í þessum efnum en auðvitað má miklu betur. Þessi tilraun, að ráða málfarsráðunaut að Ríkisútvarpinu, er tvímælalaust af hinu góða. Það kom fram á fundi útvarpsráðs fyrir skömmu að útvarpsstjóri hafði farið þess á leit við Árna Böðvarsson cand. mag. að hann tæki þetta að sér. Ég held að það mál sé þá í mjög góðum höndum.

Ég vænti þess að þessi till. fái ítarlega umfjöllun og breytingar í þeirri n. sem fær hana til meðferðar. Ég held að ljóst sé að það verður að breyta till. Mér finnst hún ekki geta staðist eins og hún er orðuð, ég tel það raunar óhjákvæmilegt. Eitthvað verður líka að koma fram um framkvæmd málsins, undir það tek ég heils hugar. Það er nefnilega of mikið um það að hið háa Alþingi samþykki alls konar till. sem er í rauninni búið að útvatna svo að þær segja harla lítið. Þess eru mörg dæmi að n. hafa tekið nokkuð ítarlegar till. og útvatnað þær með þeim hætti að þær segja nánast ekki neitt. Menn verða að gæta sóma síns í þeim efnum og sjá um að það sem héðan fer sem samþykkt Alþingis að það sé marktækt og að alveg ótvírætt sé við hvað er átt og hvernig það skuli framkvæmt. Ég beini því til þeirrar n. sem málið fær til umfjöllunar að hún athugi þetta vel. Þá efast ég ekki um að þegar búið er að gera á þessu þær lagfæringar sem þarf að gera muni þetta mál eiga greiðan gang til samþykktar á hinu háa Alþingi.