12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4716 í B-deild Alþingistíðinda. (4106)

268. mál, framburðarkennsla í íslensku

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Mig langar að víkja örfáum orðum að þeirri till. um framburðarkennslu í íslensku og málvöndun sem hér er flutt. Víst þarf að vanda málfar og það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Því er ábyrgð okkar mikil sem fullorðin erum. Vil ég í því sambandi vekja athygli á aukinni ábyrgð fjölmiðla á hugi og málvitund barna og unglinga. Þar á ég við frv. til útvarpslaga, 218. mál þessa þings, þar sem lagt er til að gefa fleiri aðilum frelsi til útvarpsreksturs en nú er, og enn fremur till. til þál. um móttöku sjónvarpsefnis frá fjarskiptahnöttum, þingmál nr. 290.

Það er vandratað meðalhófið milli þess að vera heimsborgari og að varðveita mál og menningu lítillar þjóðar sem þarfnast samskipta við umheiminn til að lifa af. Víst þurfum við að gæta okkar og hlúa að og rækta mál okkar og barna okkar, en það gerum við best með því að tala saman. Eitt af því sem e. t. v. ræður mestu um málþróun barna er einmitt við hverja þau eiga samræður. Við vitum það öll að samskipti barna og unglinga við sér eldri kynslóðir hafa minnkað mikið frá því sem áður var og halda þau sig mun meira að jafnöldrum sínum þar sem málið er samlitara og lítil skipti verða á málhefð hinna eldri og þeirra yngri. Hætta er á að orðaforði þeirra verði minni þó að mörg nýyrði bætist að vísu við, sprottin úr jarðvegi samtímans. Því hvet ég menn til að gefa því gaum að mestu varðar til að varðveita málið að tala það saman.

Enn fremur tek ég undir með hv. þm. Eiði Guðnasyni þar sem hann talar um ríkjandi myndmál og þverrandi lestur barna og unglinga af þeim ástæðum, þar er þróun sem þarf að huga að. Annað er það svo að ég held að lítið þýði að stinga við fæti gegn óhjákvæmilegri þróun málsins. Sagt hafa mér málfræðingar og íslenskumenn að okkur nútímamönnum mundi trúlega veitast erfitt eða illmögulegt að skilja mælt mál þeirra sögualdarmanna sem við státum okkur sem mest af og sækjum menningararf okkar til. Svo mikið hefur talmálið breyst. Því verðum við að gera raunsæjar kröfur um varðveislu málsins og mestu varðar auðvitað að menn nái að tjá með máli sínu það sem inni fyrir býr fyrir öðrum mönnum þannig að þeir skiljist. Því tel ég naumorðun manninum og menningu hans hættulegri en framburðarbreytingar.

Efnislega styð ég þessa till. og hvet hv. þm. og alla aðra menn að gerast málræktarmenn í eigin garði og sinna þannig ábyrgð sinni gagnvart íslenskri tungu og skila áfram þeim menningararfi sem þeim var fólginn.