12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4717 í B-deild Alþingistíðinda. (4107)

268. mál, framburðarkennsla í íslensku

Kristín H. Tryggvadóttir:

Herra forseti. Ég tek að sjálfsögðu undir það að rækta þurfi og varðveita íslenska tungu. Það er orðalag og tilmæli till. sem hér liggur frammi sem ég bendi sérstaklega á. Enn á ný er hér till. um það sem grunnskólinn á að gera en ekkert um hvernig það skuli gera. Hvað er grunnskóli? Hvað gerist í grunnskóla? Ég lýsti því á þriðjudaginn að grunnskóli væri margþætt stofnun. Því bendir flutningur þessarar till. á brýna nauðsyn þess að samþykkt verði till. mín um stefnumörkun í skólamálum. Við stóraukna framburðarkennslu í grunnskóla þarf að huga að ýmsum fleiri þáttum samtímis ef ekki er ætlast til stóraukins daglegs starfstíma en kannske er það svo.

Ég ætla að benda á nokkra þætti:

1. Nauðsyn þess að þeir sem kenna séu með starfsmenntun. En eins og fram kom hjá mér á þriðjudaginn eru í tveim kjördæmum eða fræðsluumdæmum landsins aðeins rúm 60% kennara með kennaramenntun.

2. Fjölda nemenda í bekkjadeildum. Við erum að tala um samskipti kennara og nemenda og hvað kennarinn eigi að gera. En hafið þið hugsað það, hv. alþm., að 7–9 ára börn eru venjulega þrjá tíma á dag í skólanum. Í 30 barna bekk eru þá að meðaltali 3–4 mín. á barn á dag í samskipti og sjálfsagt talar kennarinn sjálfur meginpartinn.

3. skipting milli námsgreina. Það er að stærstum hluta kennd íslenska og skrift á stundatöflu í 7–9 ára bekk. Á að leggja niður stærðfræði eða kristinfræði og samfétagsfræði sem koma inn á íslenskukennslu í formi viðtala? Ég ætla að benda á það að kennsla hefur mjög breyst á síðustu árum í það horf að nemendur tjá sig miklu meira nú, bæði skriflega og munnlega.

4. Skólasöfnin. Þau eru ómetanlegt hjálpartæki í skólastarfinu ef vel er á haldið og mikill hvati til lestrar góðra bóka. Ég hef sjálf persónulega reynslu af því í vetur að nemendur mínir í öðrum bekknum sem ég kenni, 8 ára bekk, fá ekki myndasögubækur heim því þau eiga að venja sig á að lesa góðar bækur og að lesa — en myndasögur komast þau hjá að lesa. Ef ég lýsi aðeins nánar íslenskukennslunni á safninu þá hafa börnin fengið að taka þátt í keppni í einn mánuð um hver þeirra gætu lesið flestar bækur. sú keppni var kölluð lestrarsprettur. En þau lásu ekki bara bækurnar, heldur urðu þau að segja frá munnlega eða skriflega um hvað bókin fjallaði, hvort þeim hefði líkað vel eða illa við hana, eftir hvaða höfund hún væri, hver gaf hana út o. s. frv.

Að lokum vil ég segja það að ég tek undir með hv. þm. Eiði Guðnasyni að það þurfi að lagfæra þessa till., þá er hún gott innlegg í heildarstefnumörkun í skólamálum.