12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4718 í B-deild Alþingistíðinda. (4108)

268. mál, framburðarkennsla í íslensku

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það er auðvitað rétt sem hv. 3. þm. Reykn. sagði að það þarf margt að betrumbæta í skólunum, alveg sérstaklega hjá þeim herrum sem nú þykir óþarft að kenna ungu fólki að á dögunum hafi verið hér maður sem hét Snorri Sturluson og skrifaði saman skynsamlegar bækur — og sleppa því úr Íslandssögukennslunni.

En ég átti erindi hér vegna ummæla hv. 5. landsk. þm. Ég rifjaði það upp, sem ég mundi rétt, þegar ég gerði fsp. til hæstv. fyrrv. menntmrh. Ingvars Gíslasonar um afdrif áminnstrar þáltill. frá 5. maí 1978, að hann hefði svarað því til að embættismennirnir í Ríkisútvarpinu létu ekki segja sér fyrir verkum í þessu efni. Og fyrir því er það, herra forseti, að ég leyfi mér að vitna til umr. sem fram fóru 20. apríl 1982. Á einum stað segir hæstv. þáv. menntmrh. á þessa leið:

Þál. þessi“ — það er hin áminnsta till. mín um að kennsla og fræðsla í Ríkisútvarpinu skyldi efld í öllum greinum móðurmálsins — „Þál. þessi hefur alloft verið kynnt Ríkisútvarpinu á síðustu árum með óskum um að hún hlyti þar góðar viðtökur, þ. e. að fræðsla um íslenskt mál yrði ávallt mikil og sem mest í ríkisfjölmiðlunum. Ég er viss um að þeir sem gegnt hafa embætti menntmrh. síðan þessi till. var samþykkt, og það eru alls fjórir menn að mér meðtöldum, hafa allir haft skilning á því að æskilegt væri að fræða almenning sem mest um móðurmálið í útvarpi og sjónvarpi. Þetta held ég að sé sameiginlegt einkenni á öllum þeim sem farið hafa með starf menntmrh. síðustu 4–5 ár. Hins vegar reynist málið alls ekki alveg svona einfalt þegar til kastanna kemur.“

„Sannleikurinn er sá“, segir hæstv. menntmrh. þáv. orðrétt „að forráðamenn Ríkisútvarpsins“ — og þar með telst áreiðanlega útvarpsráð — „að forráðamenn Ríkisútvarpsins hafa eigin skilning á því hvernig eigi að fjalla um dagskrármál og efnisval til flutnings í fjölmiðlum stofnunarinnar. Útvarpið er af grundvallarástæðum ófúst að taka við fyrirmælum frá framkvæmdavaldi og jafnvel frá löggjafarvaldi“ — hlusti menn nú á — „um hvaða efni skuli flytja í útvarpi og sjónvarpi. Útvarpsráð vill sjálft semja dagskrár ríkisfjölmiðla og unir því ekki að slíkt verði gert á Alþingi eða í stjórnarráði. En ég fullyrði að útvarpsráði er mjög vel kunnugt um áhuga Alþingis á fræðslu um móðurmálið og þeirri vitneskju hefur oft verið komið á framfæri við útvarpið.

Ég hlýt að vitna til þess arna af því sem hv. 5. landsk. þm., sem hefur átt sæti síðan síðla árs 1978 í útvarpsráði, kannast ekki við þessi málskot af hálfu hins háa menntmrn. Og að það hafi farið fram ítrekað, eins og hér er haldið fram, getur heldur ekki staðist. En að hlusta á hvernig framkvæmdavaldið beygir sig í auðmýkt fyrir embættismannavaldinu, eins og fram kemur í þessum orðum, er blöskranlegt. Og ég ítreka að mér þykir verra en vont að hv. 1. þm. Norðurl. e., fyrrv. hæstv. menntmrh., skuli ekki vera hér nær, því ekki vil ég tala honum á bak.

Seint í þessari ræðu vitnar hann síðan til bréfs frá Andrési Björnssyni útvarpsstjóra til menntmrn. sem hann hefur skrifað í tilefni af þessari þál. Það svar verður í besta falli nefnt kjaftæði. Það er svarað í sumartunglið, það er farið með himinskautum og fjallasýn, alla leiðina út í gegn í þessu svari. Og það lætur framkvæmdavaldið sér lynda eins og jafnan áður þegar embættismannavaldið hefur tekið til sinna ráða. Eins og jafnan áður, a. m. k. hvað varðar þessi þýðingarmiklu mál.

Hér eru þessi mál síðan rædd af þáv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur, af hv. 5. landsk. þm. núv., af hv. þáv. þm. Árna Gunnarssyni o. fl. Og hæstv. þáv. menntmrh. Ingvar Gíslason ítrekar í ræðu síðar á þessum þingfundi að hann komist ekki hjá að endurtaka það, sem hann hafi þegar sagt, að það ríki ákveðin tregða í Ríkisútvarpinu í þessu efni. Það er eins og þeim finnist sem þar ráða, þar á meðal hygg ég útvarpsráði, að þarna sé um að ræða utanaðkomandi þrýsting og óþarfa afskiptasemi sem rétt sé að hafa alla gát á. Fyrrv. menntmrh. er að gefa Alþingi svar við hvernig hann stendur að framkvæmd á ályktunum hins háa Alþingis. Það þarf engu við þetta að bæta. Það sjá allir í hendi sér hvað aumt upplit er á framkvæmdavaldinu í þessu falli.

Og hv. 1. þm. Norðurl. e. hefði ekkert getað um þetta bætt þó hann hefði verið hér nær. Kannske er það jafngott að hann er fjarverandi — hans vegna. En það gæti þó verið að hann hefði önnur sjónarmið á þessu nú þegar hann er orðinn alþm. og langar kannske til að leggja orð í belg eða ráða með framkvæmdavaldinu um framvindu mála. Ekkert skal ég um það segja.

Aðalerindi mitt var að vekja athygli á því að hér er því haldið fram af þáv. ráðh. að hann hafi gert tilraun til að koma fram þessari ályktun en ráðamenn útvarpsins þverskallast. Ég leyfi mér að draga í efa, og það kemur enda fram í svörum hv. 5. landsk. þm. þá, að hann dregur þessar fullyrðingar í efa, eins og hann gerði hér í ræðu sinni áðan. En staðreynd er það að alls ekkert hefur verið aðhafst í þessum málum. Í engu hefur verið farið að þessari ályktun Alþingis. Og það er meginmálið nú þegar við ætlum að sameinast, og ég þykist þess fullviss að hér eru allir tilbúnir til þess að ljá því atkvæði sitt, við ætlum að sameinast um það á nýjan leik að gera eindregna ályktun í þessum mikilsverðu málum, þá er það undirstaða máls að við komum okkur saman um framkvæmdina. Ég er tilbúinn til þess að ræða allar mögulegar leiðir í því. Það þarf enga hlutfallskosningu mín vegna í þessu máli. Ég gæti vel hugsað mér til að mynda að þessu yrði skotið með ákvörðun hins háa Alþingis til Íslenskrar málnefndar. Ég get vel fellt mig við þá aðferð. En það verða að vera menn fyrir þar sem við ætlum að koma þessu máli fyrir.

Ég get líka hugsað mér að hver og einn þingflokkur veldi einn mann sem hann treysti best í þessum fræðum til framkvæmdarinnar. Það væri kannske einlægast. En ég tek undir það að við þurfum aðeins að lagfæra málsgreinarnar sjálfar, tillögugreinina sjálfa, þótt ég dragi nú ekki í efa að þar liggi skýr og góð hugsun á bak við. En það má bæta hana, sýnist manni, og þó öllu helst að bæta við þar og ráða fram úr með hvaða hætti að framkvæmdinni skuli staðið. Þar má ekkert skorta, ella er hætt við að sæki í sama farið og við höfum hér raunalega reynslu af.