12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4720 í B-deild Alþingistíðinda. (4110)

268. mál, framburðarkennsla í íslensku

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins til að taka af tvímæli vegna þess að hæstv. iðnrh. vitnaði til umr. á árinu 1982 vil ég ítreka það sem ég sagði í minni ræðu, að ég minnist þess ekki að þessi till. hafi komið inn til afgreiðslu útvarpsráðs, en þó kann það að vera. Ég fortek það ekki. En alla vega var því þá ekki fylgt eftir af mikilli festu eða ákveðni af hálfu hins háa menntmrn.

Hæstv. ráðh. vék að þeim ummælum sem hér féllu í þá veru að hjá Ríkisútvarpinu væri tregðast við að taka við fyrirmælum annars staðar frá, jafnvel frá Alþingi. E. t. v. kann eitthvað að vera til í því. (Gripið fram í.) Já. Nú er það svo skv. útvarpslögum að útvarpsráð á að gera tillögur um dagskrá fram í tímann. Hins vegar er valdsvið útvarpsráðs heldur óljóst skv. útvarpslögum. T. d. heyra fréttastofur útvarps og sjónvarps beint undir útvarpsstjóra en ekki útvarpsráð og útvarpsráð hefur engin áhrif á fréttaflutning þó að það geri sínar athugasemdir þegar mönnum þykir þar miður takast til og ekki unnið sem skyldi.

Ég er hins vegar afdráttarlaust þeirrar skoðunar að þegar Alþingi gerir ályktun í þessa veru beri útvarpsráði að taka til þess tillit. Útvarpsráð er kjörið af Alþingi og sækir vald sitt til þess með nokkrum hætti. Útvarpsráð getur ekki látið það sem vind um eyru þjóta þegar ályktanir á borð við þá sem hér var vitnað til eru gerðar. Þá verða menn að leggja við eyru og ekki bara það heldur eiga menn að taka til höndum. Hins vegar skal ég líka viðurkenna að þetta er vandmeðfarið. Alþingi kýs útvarpsráð til að hafa með höndum dagskrárstjórn Ríkisútvarpsins. Ég held að útvarpsráði beri siðferðileg skylda til þess að hlýða á það með gaumgæfni sem Alþingi Íslendinga ályktar um Ríkisútvarpið. Enda er það beinlínis tekið fram í útvarpslögum að meðal hlutverka Ríkisútvarpsins er að standa vörð um íslenska tungu. Þannig hefur útvarpið á þessu sviði beinar lagaskyldur, sem það hefur sinnt, eins og ég rakti áðan, en má eflaust sinna miklu betur. Sú staðreynd, að þar tekur nú á næstu mánuðum til starfa sérstakur ráðunautur um málfar, held ég að sé liður í þeirri viðleitni Ríkisútvarpsins að gegna þessu lögbundna hlutverki sínu. En vissulega má þar margt betur gera.