12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4722 í B-deild Alþingistíðinda. (4112)

268. mál, framburðarkennsla í íslensku

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í lokin. Aðalástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs var sú að taka mjög undir harkalega gagnrýni hæstv. iðnrh. á aumingjaskap framkvæmdavaldsins í því að fara að samþykktum vilja Alþingis, ekki bara í þessu máli sem hér er til umr. heldur og fjöldamörgum öðrum. Ég nýti mér hvert það tækifæri sem gefst til að gagnrýna harðlega að hér á Alþingi er verið að samþykkja í þessu tilfelli sem hér er um rætt till. frá 1978, í mörgum öðrum tilfellum aðrar ályktanir. sem framkvæmdavaldið síðan gerir ekkert með, bókstaflega ekkert. Ég vona að hæstv. iðnrh. fari úr ráðherrastólnum án þess að hafa tekið þátt í slíku.

Annað mætti kannske nefna til viðbótar varðandi þennan þátt. Það væri nú gaman að fá um það upplýsingar hvort hæstv. menntmrh. hafi verið kunnugt um þessa ályktun Alþingis. Hæstv. ráðh. er nú búinn að vera í ráðherrastólnum í nokkra mánuði og hlýtur að hafa kynnt sér hvað fyrir hefur legið. Ekki var svo lítil gagnrýni stjórnarandstöðuhluta Sjálfstfl. á fyrrv. ríkisstj., að það hlýtur að hafa verið tekið með inn í dæmið og hæstv. ráðh. kynnt sér hvað eftir hefur legið þegar hún fór frá. Um þetta er ekki hægt að spyrja hæstv. menntmrh., hann er ekki viðstaddur. En vonandi kemur hæstv. iðnrh. þessu til skila. Ég vænti þess að góðar samgöngur séu þar enn í milli.

Ég á ekki von á því að nokkrum hv. þm. dyljist það að þörf er á átaki í því máli sem hér er um rætt. Ég hugsa að það sé svo um fleiri hv. þm. en mig að við hlýðum á í útvarpinu, horfum á og hlustum á í sjónvarpinu sprenglærða menn koma þar fram sem, í bókstaflegri merkingu sagt, geta ekki tjáð sig. Þess eru fjölda mörg dæmi. Ég er ekki með þessu að gagnrýna menntun, síður en svo. En það er lágmark að mínu viti að háskólamenntaður einstaklingur geti tjáð sig skiljanlega á íslensku máli. Þau eru óhugnanlega mörg dæmin sem sýna að svo er ekki. Þess vegna er þörf á því að betrumbæta í þessum efnum. En það er tilgangslaust að samþykkja hér ályktanir á ályktanir ofan í sömu málum án þess að því sé fylgt eftir af framkvæmdavaldi að framkvæma það. Þetta er ekki bara aumingjaskapur framkvæmdavaldsins gagnvart embættismannakerfinu, eins og hæstv. iðnrh. sagði. Þetta er líka aumingjaskapur Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu að láta því líðast þetta. Og það er kannske sá þátturinn sem ömurlegast er upp á að horfa í öllum þessum málum, að það virðist vera meiri hluti Alþingis sem líður framkvæmdavaldinu það á hverjum tíma, skiptir ekki máli hvaða ríkisstj. á í hlut eða hverjir einstaklingar, Alþingi líður framkvæmdavaldinu það í hverju málinu á fætur öðru að draga lappirnar og beinlínis koma í veg fyrir að vilji Alþingis nái fram að ganga. Það er alvarlegur hlutur og það ber að gagnrýna harðlega. Því tek ég heils hugar undir harkalega gagnrýni hæstv. iðnrh. — en þó eðlilega á það hvernig framkvæmdavaldið virðir að vettugi samþykktan vilja Alþingis í hinum ótalmörgu málum. Ég vil trúa því og treysta að a. m. k. sem flestir hv. þm. taki upp harkalega gagnrýni á þessi vinnubrögð og líði það ekki öllu lengur að embættismannakerfinu eða framkvæmdavaldinu líðist að draga lappirnar á þann hátt að koma í veg fyrir að vilji meiri hluta Alþingis nái fram að ganga í þeim efnum sem það hefur samþykkt.