12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4733 í B-deild Alþingistíðinda. (4116)

278. mál, kynning á líftækni

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil taka eindregið undir með hv. flm. þessarar þáltill., að hér er um afar mikilvægt mál að ræða sem mun valda gerbyltingu í framleiðslu og atvinnuháttum í náinni framtíð. Það gæti orðið okkur dýrkeypt að dragast aftur úr í þessari þróun, þannig að við verðum algerir þiggjendur í þessum efnum. Í líftækni felast geysimiklir atvinnumöguleikar fyrir litla þjóð og mun stuðla að sjálfstæði okkar að verða þar skapandi og gefandi fremur en einhliða þiggjendur.

Ég vil upplýsa hv. flm. um að starfshópur sá sem Rannsóknaráð ríkisins hefur skipað um þróun líftækni hefur þegar hafið störf af miklum krafti og áhuga og vonandi nýtist árangur starfa hans í áföngum þannig að ekki þurfi að bíða alveg til haustsins árið 1985 eftir niðurstöðum.

Að lokum tel ég að kynning á líftækni sem og öllum öðrum rannsóknum sé bæði skylda og nauðsyn. Það þarf að vekja almenning og stjórnvöld rækilega til meðvitundar um mikilvægi rannsókna fyrir menningarlegt sjálfstæði og atvinnuhagsmuni þjóðarinnar.