03.11.1983
Sameinað þing: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

48. mál, stöðvun framkvæmda við byggingu Seðlabanka Íslands

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Mér fannst hæstv. viðskrh. gera nokkra tilraun til þess hér áðan að drepa málinu á dreif og forðast kjarna þess. Þetta mál er ósköp einfalt. Þegar verutegur samdráttur hefur orðið í þjóðartekjum, þegar verulegur samdráttur verður í neyslu almennings og hvers konar fjárfestingum og þegar fyrirhugað er að draga mjög verulega saman fjárfestingar ríkisins, m.a. stöðva byggingu Þjóðarbókhlöðu og draga úr byggingu sjúkrahúsa, skóla og annarra opinberra mannvirkja, þá er að sjálfsögðu ekki við hæfi að haldið sé áfram af fullum krafti þessari stórbyggingu Seðlabankans. Svo einfalt er þetta mál.

Og það er auðvitað ekki heldur neinn vafi á að ef Alþingi samþykkir að fresta skuli byggingarframkvæmdum á þessum stað þá verður það gert. Seðlabankinn og stjórn hans heyrir undir Alþingi og ríkisstj. og stjórn bankans mun að sjálfsögðu taka fullt tillit til þess sem ákveðið verður hér á Alþingi. Við skulum ekki vera að flækja það mál neitt frekar með vífilengjum og lagatilvitnunum. Auðvitað hlýtur stjórn Seðlabankans að beygja sig undir ákvörðun Alþingis.

Hæstv. ráðh. reyndi líka að flækja málið hér áðan með því að gefa það í skyn að seint væri í rassinn gripið. Mér var nú satt að segja alls ekki ljóst hvaða rass það var sem hann var að tala um, hvort hann átti þann rass sjálfur eða einhverjir aðrir. En hvað Alþb. snertir er að alveg ljóst að þetta er ekki í fyrsta sinn sem við erum að nefna þetta mál.

Þegar að þrengdi á s.l. sumri og grípa varð til efnahagsaðgerða með setningu brbl. og með margháttuðum öðrum ráðstöfunum, til þess að samræma annars vegar breytingu þá sem orðið hafði á þjóðartekjum og hins vegar neyslu þjóðarinnar til að draga verulega úr hinum mikla viðskiptahalla sem við blasti, þá var það ein af tillögum Alþb., og fór svo sannarlega ekki leynt, að stöðva skyldi byggingarframkvæmdir á þessum stað, byggingu Seðlabankans. Ég er því miður ekki með skjölin fyrir framan mig, fundargerðir ríkisstj. og aðrar skjallegar heimildir um ályktanir hennar, en ég hygg að ég fari með rétt mál þegar ég upplýsi hér að ríkisstj. samþykkti á sínum tíma að beita sér fyrir því að frestað yrði þessari stórbyggingu. Hins vegar var um það rætt að stórir og miklir verkáfangar hefðu verið boðnir út, verkið væri í fullum gangi, samningar hefðu verið gerðir við verktaka og af því mundu hljótast víðtækar og miklar skaðabótakröfur ef verkið væri stöðvað tafarlaust. Það var því alveg ljóst þegar fyrrv. ríkisstj. fjallaði um þetta í ágústmánuði, fyrir rúmu einu ári, að ekki yrði unnt að stöðva bygginguna tafarlaust. Það yrði að sæta lagi og reyna að ná fram frestun eftir að þeim verkáföngum lyki sem þá voru komnir í gang.

Málið var síðan ekki tekið aftur upp í þeirri ríkisstj. Það dró óðfluga að kosningum eins og menn muna, kosningabarátta hófst, síðan fóru fram kosningar og stjórnarskipti, og ég get ekki upplýst hér hvað fór á milli þáv. viðskrh. og bankastjórnarinnar um þetta mál eða hvaða umr. aðrar fóru fram um þetta mál. En ég held að það þurfi ekki að draga neitt í efa hver var afstaða Alþb. í þessu máli fyrir einu ári síðan og hver var afstaða ríkisstj.