13.04.1984
Efri deild: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4750 í B-deild Alþingistíðinda. (4149)

204. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. Ed. hefur haft til umfjöllunar umrætt frv. til l. um Ljósmæðraskóla Íslands. Eins og fram kemur í nál. bárust fjölmargar umsagnir sem ég hirði ekki um að lesa upp hér. Það varð samstaða um afgreiðslu þessa máls. Ég vil geta þess að hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir sat fund n. sem áheyrnarfulltrúi, en þess er ekki getið í nál.

Heilbr.- og trn. leggur til breytingar á frv. Ég vil skýra frá því fyrst að þær breytingar eru raunar samhljóða þeim tillögum sem voru rauður þráður í öllum umsögnum um þetta mál. Jafnframt barst n. bréf undirritað af hæstv. heilbrmrh., þar sem vikið var að tveimur brtt. sem n. gerði að sínum.

Í fyrsta lagi gerir n. till. um breytingu á 3. gr. frv. Sú breyting varðar skólanefnd Ljósmæðraskólans. Lagt er til að Hjúkrunarfélag Íslands eigi fulltrúa í skólanefnd í stað Félags fæðingarlækna. Sá félagsskapur er raunar ekki til og mun vera átt við Félag ísl. kvensjúkdómalækna. Við leggjum sem sagt til að í skólanefnd verði fulltrúi Hjúkrunarfélags Íslands í stað Félags fæðingarlækna eins og stendur í frv.

2. brtt. varðar menntun skólastjóra Ljósmæðraskóla Íslands. Brtt. n. gerir ráð fyrir að ráðh. skipi skólastjóra og skuli hann vera ljósmóðir með hjúkrunarfræðimenntun.

3. brtt. er við 7. gr. frv. Eins og greinin er núna í frv. er hún upptalning á því hvað skuli taka til umfjöllunar í reglugerð. Nm. í heilbr.- og trn. telja fremur óheppilegt að einskorða það svo mjög sem gert er í 7. gr. frv. og leggja til að greinin orðist þannig: Ráðh. setur í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi og starfslið skólans að fengnum tillögum skólanefndar.

Ég hef þá kynnt, virðulegi forseti, brtt. heilbr.- og trn. við frv. Ég sé því ekki ástæðu til þess, a. m. k. ekki á þessu stigi, að hafa um frv. fleiri orð, en eins og fram hefur komið mælir n. eindregið með samþykkt frv. með þeim brtt. sem ég hef kynnt.