13.04.1984
Neðri deild: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4765 í B-deild Alþingistíðinda. (4175)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að fara ekki mikið út í efnisatriði þessa máls, enda hefur það áður verið rætt hér á Alþingi, en ég vildi segja nokkur orð um málsmeðferð.

Það er orðið alllangt síðan þetta frv. var lagt fyrir Alþingi og þó að ég hafi ekki alveg jafnlanga reynslu af þingstörfum og ýmsir aðrir, sem hér eru, gæti ég trúað að þau dæmi skiptu nokkrum tugum, ef ekki hundruðum, þar sem mál hafa nú verið afgreidd af meiri hraða í gegnum þingið og hefur þá að venju verið hlið nokkuð til mikilvægis málsins og jafnvel þótt menn hafi deilt um hvað væri rétt að gera í viðkomandi máli.

Það er svo með þetta mál, að Aflatryggingasjóður hefur ekki getað innt af hendi neinar greiðslur frá 1. febr., hvorki úr hinni almennu deild eða áhafnadeild. M. a. er gert ráð fyrir í 2. gr. frv. að allt ríkisframlagið til sjóðsins fari til þess að auka greiðslu fæðispeninga og til þess að greiða úr fjárhagsörðugleikum sjómanna og því er ekki neitað að tafir á greiðslum til Stofnfjársjóðs eru alvarlegs eðlis.

Það hefði verið hægt að afgreiða þetta frv. til nefndar hér s. l. föstudag, en það var komið í veg fyrir það og talið mikilvægara að þeir þm. sem ekki gátu þá verið viðstaddir þingfundi kæmu til þingfundar til þess að hægt væri að ræða málið við 1. umr. Ég benti á að þeir hv. þm. sem ekki væru hér viðstaddir gætu að sjálfsögðu tjáð sig um málið við 2. og 3. umr., en á það var ekki fallist fyrst og fremst af þeim sem á móti þessu frv. eru. Það hefur orðið afleiðing þess m. a. að hv. nefnd hefur ekki haft nægilegt ráðrúm, eins og hér hefur komið fram, til að kynna sér málið. En það er svo langt síðan mál þetta var lagt fram að ég býst við að hv. þm. hafi haft nægan tíma til að lesa um það ályktanir sem birst hafa í blöðum og skeyti sem einnig hafa komið fram og geta kynnt sér málið. Ég tel því vera um algerlega eðlilega málsmeðferð að ræða og ég vil mælast til þess að greitt verði fyrir því að mál þetta nái fram að ganga þannig að Aflatryggingasjóður geti viðhaft eðlilega starfsemi og það þurfi ekki að dragast fram yfir páskaleyfi þm. Þrátt fyrir allt er það bæði mikilvægt fyrir útgerðina og sjómenn einnig. En hins vegar er eðlilegt að menn deili um málið.

Því er mjög haldið fram að hér sé verið að taka utan skipta. Það vita hv. þm. jafnvel og ég að þessi hluti útflutningsgjalds hefur aldrei komið til skipta. Þetta frv. breytir heldur í engu skyldum útvegsmanna til að greiða sjómönnum laun. Hinu er svo sjálfsagt að halda á loft að tekjur sjómanna og kjör þeirra eru knöpp. Ef hv. þm. vilja gera á því breytingar er mun eðlilegra að draga úr þeirri kostnaðarhlutdeild sem einnig var ákveðin með lögum. Það hefur verið ákveðið að minnka hana um 2% eða úr 29% í 27 annars vegar og úr 25 í 23 á bátum. En það er algerlega óþarft að brengla því saman við þetta mál, að mínu mati.

Ég vildi taka þetta fram varðandi málsmeðferðina. Það ætti engum að dyljast að íslenskur sjávarútvegur er í miklum erfiðleikum og verður það á næstunni og allir vita að erfitt verður fyrir sjávarútveginn að ganga í gegnum það. Það verður einnig erfitt fyrir íslenska sjómannastétt. En þessir hagsmunir fara allir meira og minna saman og eru ekki aðskildir. Það er ekki hagsmunamál sjómanna að útgerðin sé á hausnum og það er ekki heldur hagsmunamál útvegsmanna að sjómenn hafi knöpp kjör. (Gripið fram í.) Ég býst við því, hv. þm., að ég geti fengið að ljúka þessum fáu orðum mínum hér. Ég gæti þó út af fyrir sig sagt ýmislegt um ræðu hv. þm. við umr. þessa máls. En ég vænti þess að hv. þm. hafi fullt úthald til að hjálpa til við að komast yfir þá miklu erfiðleika sem íslenskur sjávarútvegur á nú við að etja.