13.04.1984
Neðri deild: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4776 í B-deild Alþingistíðinda. (4183)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Vegna ummæla hv. 2. landsk. þm. fyrr í þessari umr. um skattgreiðslubyrði heimilanna og yfirlýsingar ríkisstj. þar að lútandi tel ég nauðsynlegt að leiðrétta þann misskilning, sem fram kom í ummælum hv. þm. Hv. þm. hélt því fram að ríkisstj. hefði gefið fyrirheit um það að þrátt fyrir lækkun verðbólgu yrði tryggt að greiðslubyrði útsvara á þessu ári yrði óbreytt. Þetta er á misskilningi byggt. Yfirlýsing ríkisstj. laut að því að tryggja að greiðslubyrði tekjuskatta á þessu ári yrði óbreytt. Það hefur verið gert með flutningi og samþykkt laga frá Alþingi. Á hinn bóginn voru aldrei gefnar neinar yfirlýsingar um það að skerða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga um álagningu útsvars innan þeirra lagamarka sem í gildi eru. Að þessu leyti byggjast ummæli hv. þm. á misskilningi sem nauðsynlegt er að leiðrétta.