13.04.1984
Neðri deild: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4778 í B-deild Alþingistíðinda. (4186)

198. mál, Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Það mál sem við ræðum nú, um þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra, er komið frá Ed., hvar litlar breytingar voru gerðar á því. Þær eru í sambandi við nafnið sjóntækjafræðingar, sem við höfum nýverið samþykkt hér í þinginu að taka upp í stað gleraugnafræðinga, sem áður gilti, og reyndar er þetta í víðari merkingu. Þetta mál er búið að fá langan og mjög góðan undirbúning. Það var eftirtektarvert að í öllum umsögnum sem komu til þingsins um þetta mál voru allir sammála um að mæla eindregið með að það fengi skjóta og góða afgreiðslu. Heilbr.- og trn. Nd. er sammála um að mæla með að svo verði. Það er tilbúið húsnæði fyrir þessa starfsemi, sem mikið fé hefur verið lagt í á undanförnum árum, í húsnæði Blindrafélagsins við Hamrahlíð. Um leið og ég mæli með að frv. verði samþykkt, herra forseti, óska ég þeim til hamingju sem eiga eftir að njóta góðs af þegar við höfum gert þetta mál að lögum frá Alþingi.