13.04.1984
Neðri deild: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4779 í B-deild Alþingistíðinda. (4189)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Frsm. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 648 um frv. til l. um lántöku o. fl. vegna byggingar flugstóðvar á Keflavíkurflugvelli. Ég ætla að lesa nál. með leyfi forseta:

„Minni hl. nefndarinnar er andvígur ákvæðum frv. og leggur til að það verði fellt.

Ríkisstj. hefur marglýst yfir neyðarástandi í fjármálum þjóðarinnar. Ráðherrar hennar hafa nefnt ýmsar leiðir til lausnar vandanum. Þá greinir hins vegar á í öllum meginatriðum um aðgerðir — að sparnaðarleiðinni einni undanskilinni. Þrátt fyrir samstöðuna um sparnað er það staðföst ætlan ríkisstj. að halda til streitu tugmilljóna framkvæmdum við flugstöðina. Á sama tíma er boðaður og framkvæmdur margs konar niðurskurður, bæði á framkvæmdum, svo sem byggingum barnaheimila, og þjónustu og í mennta- og heilbrigðiskerfi.

Áformuð flugstöð er allt of dýr og í engu samræmi við lífskjör þjóðarinnar sem reisir hana. Hún verður óhagkvæm, enda hönnuð með hliðsjón af „gróðurhúsinu, tákni orkulinda landsins“, svo að vitnað sé til byggingarlýsingar húsameistara ríkisins.

Í núverandi flugstöð er slæm aðstaða, bæði fyrir starfsfólk og farþega. Þar er þörf úrbóta. En það verður að gera þær kröfur að ný flugstöð verði ódýr og hagkvæm. Síst af öllu ætti hún að bera þau merki sóunar sem áformin bera vitni um. Jafnvel gróðurhús geta komið mönnum á kaldan klaka.

Guðrún Agnarsdóttir, þm. Samtaka kvennalista, er samþykk þessu nál. Undir þetta rita Guðmundur Einarsson og hv. þm. Svavar Gestsson.

Ég ætla að geyma mér að fara efnislega ofan í saumana á þessu efni. Eins og fram kemur í fskj., þá gerir minni hl. aths. við marga efnisþætti. Það eru gerðar aths. t. d. við hönnun með tilliti til innra skipulags og fyrirkomulags í húsinu. Það eru gerðar aths. við hönnun með tilliti til möguleika á áfangaskiptingu, bæði í byggingu og nýtingu. Það eru gerðar aths. við stærð flugstöðvarinnar með tilliti til óvissu um framtíð Norður-Atlantshafsflugsins og hvaða breytingar gætu hugsanlega orðið þar á vegna þess að milli helmingur og þriðjungur þeirra farþega sem um þessa flugstöð er ætlað að fara eru einmitt þeir „transit“ farþegar sem eru í Norður-Atlantshafsfluginu, en framtíð þess er hins vegar mjög óviss. Og verður vikið nánar að því í umr. síðar.

Við gerum aths. við byggingarkostnað eins og hægt er að reikna hann út á rúmmálseiningu í húsinu. Við teljum að hann sé allt of hár, óeðlilega hár. Síðast en ekki síst gerum við aths. við tímasetningu þessara framkvæmda, þ. e. á sama tíma og leitað er með logandi ljósi að möguleikum til sparnaðar í ríkisrekstrinum þá virðist ekki hafa hvarflað að neinum ráðh., sem þó hafa viðrað slík mál í fjölmiðlum að undanförnu, að leggja til frestun á framkvæmdum við flugstöð. Þetta eru dæmi um þær aths. sem við gerum og koma fram hér í fskj. og munum væntanlega gera nánar grein fyrir síðar.

Ég vil geta þess nú að það vantar í fskj. hluta af upplýsingum sem nefndinni bárust. Það var meining mín að setja hér þær upplýsingar sem nefndinni bárust frá varnarmáladeild, en það voru mín mistök að svo varð ekki. Það vantar upplýsingar um farþegaflæði sem bárust nefndinni í bréfi þann 8. mars s. l. að mig minnir. Ég mun gera nánari grein fyrir efni þess bréfs síðar. Ég geymi mér frekari umr. þar til málið verður tekið fyrir að nýju.