03.11.1983
Sameinað þing: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

48. mál, stöðvun framkvæmda við byggingu Seðlabanka Íslands

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég var ekki fyllilega ánægð með svör hæstv. fjmrh. Hann er annars vanur að gefa skýr og afdráttarlaus svör við því sem hann er spurður um. En ég spurði hæstv. ráðh. hvort hann hefði ekki hreyft þessu máli í ríkisstj., að stöðva framkvæmdir við byggingu Seðlabankans, hvort hann hefði ekki hreyft því þar til þess að afla málinu stuðnings. Og eins spurði ég hann hvort hann gæti stutt till., ef fram kæmi, um að það framkvæmdafé sem væri áætlað til Seðlabankans á næstu einu eða tveimur árum rynni þá til Byggingarsjóðs ríkisins. Ég varð ekki vör við að hann svaraði þeim spurningum. En það er auðvitað full ástæða til, þegar verið er að ræða hér um útþenslu bankakerfisins, að vekja athygli á fleiri atriðum er það varðar.

Í Tímanum 25. okt. kemur fram að bankamálanefnd hafi gert tillögur um að leyfisveitingar til nýrra bankaútibúa yrðu stöðvaðar þar til tillögur nefndarinnar liggja fyrir. Þessi tilmæli bankanefndarinnar komu fram í febrúar á síðasta ári, en þrátt fyrir það hafði verið veitt leyfi til að byggja 11 ný bankaútibú. Hér hlýtur að vera um geysilega mikið fjármagn að ræða, sem fer í það að byggja þessi ellefu nýju útibú, og þess vegna hlýtur hæstv. viðskrh. að hafa kynnt sér hvað framkvæmdir við þessi ellefu nýju útibú muni kosta. Og ef hann hefur ekki gert það þá vil ég beina því til hans hvort hann sé ekki tilbúinn til þess að gefa þingheimi upplýsingar um hvað þessi ellefu nýju útibú muni kosta. Og kannske ekki síður hvort hann sé tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að þessi ellefu leyfi verði afturkölluð a.m.k. þar til bankanefndin hefur skilað sínu áliti. Ég óska eftir því að hæstv. ráðh. gefi okkur svör við þessu. Og hafi hann ekki upplýsingar um hvað þessi bankaútibú muni kosta, hvort hann muni þá gera ráðstafanir til þess að þingheimur fái upplýsingar um það.