13.04.1984
Neðri deild: 75. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4782 í B-deild Alþingistíðinda. (4200)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Ég heyrði það að hv. stjórnarliðum og hæstv. ráðh. líði illa undir þessu. En ég skal ekki vera lengi. Við 2. umr. fyrr í dag spurðist hv. þm. Pétur Sigurðsson fyrir um það hvort þær reglur, sem nú gilda skv. þeim lögum sem um Aflatryggingasjóð eru enn í dag, um greiðslur t. d. vegna grásleppuveiði og úthafsrækjuveiði, muni gilda áfram skv. þeim lögum sem eru í dag eða hvort sú breyting, sem hér er verið að leggja til að gerð verði, nái til þessara veiða líka. (Gripið fram í.) Það kemur ekkert fram um það og hefur ekki fengist svarað, hv. þm. Garðar Sigurðsson. Þess vegna er spurt. Það hafa engin svör fengist við því. Ég ítreka þessar spurningar, annaðhvort til hæstv. sjútvrh. eða formanns hv. sjútvn., hvernig verði með þetta farið. Ég held að það sé a. m. k. nauðsynlegt til upplýsingar að menn viti hvort gilda eiga sömu reglur um þennan veiðiskap og annan veiðiskap sem hér hefur verið um rætt.

Einnig hefur það komið fram að stutt hefur verið við bakið á tilraunaveiðum. Spurningin er þá: Mun það gilda áfram eins og verið hefur eða verður breyting þar á? Þetta vildi ég gjarnan fá upplýst. Og ég vil gjarnan fá það upplýst hvers vegna synjað var þeirri beiðni okkar hv. þm. Péturs Sigurðssonar að fengin yrði skrifleg umsögn stjórnar Aflatryggingasjóðs um þetta frv. Hvers vegna var þeirri beiðni synjað eða var henni ekki synjað? Ég vil gjarnan fá það upplýst líka, tel það nauðsynlegt upp á seinni tíma.

Ég skal ekki, virðulegi forseti, hafa þessi orð fleiri, en ég vildi gjarnan fá þetta upplýst.