13.04.1984
Neðri deild: 75. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4784 í B-deild Alþingistíðinda. (4208)

316. mál, tannlækningar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Frv. það sem hér er flutt er að meginstofni til samhljóða frv. um sama efni sem lagt var fram á Alþingi árið 1974 og varð þá ekki útrætt. Einna mest umræða varð þá um réttarstöðu tannsmiða sem töldu á rétt sinn gengið ef frv. yrði samþykkt óbreytt. Síðar þróuðust málin á þann veg að tannsmíði var gerð að iðngrein sem er nú aðallega stunduð á sérhæfðum tannsmíðaverkstæðum. Tannlæknar hafa að sjálfsögðu rétt til að stunda tannsmíði, enda er það veigamikill þáttur í námi þeirra og lokaprófi. Hins vegar hafa þeir flestir eða allir þann hátt á að senda frá sér tannsmíðaverkefni til tannsmiða sem smíða þá eftir máli því sem tanntæknir tekur af sjúklingi. Með þessu frv. er ekki ætlunin að breyta á nokkurn hátt réttarstöðu þessara tveggja stétta varðandi tannsmíði frá því sem er í dag, en í dag er það svo að það er tannlæknirinn einn sem hefur leyfi til þess að taka mát og máta gervitennur, festa þær í sjúkling, hvort sem er heilir gómar, partar eða einstakar tennur, krónur eða brýr. Enginn annar hefur leyfi til að vinna sjálfstætt við sjúkling enda er læknisfræðileg þekking á líffærafræði tyggingarfæra undirstaða þess að vel takist til við ísetningu gervitanna.

Á þeim tíu árum sem liðin eru frá því að fyrra frv. var flutt hefur tannlæknadeild Háskóla Ístands fengið nýtt og fullkomið kennsluhúsnæði þar sem unnt væri að mennta tólf tannlæknaefni árlega til starfa. Þar væri einnig hægt að starfrækja skóla fyrir tannsmiði svo og fyrir ýmsar aðrar stéttir sem á þessu sviði starfa. Heilsugæslustöðvar hafa verið byggðar mjög víða og í þeim flestum er góð aðstaða fyrir tanntækni til starfa. Tannlæknir hefur verið ráðinn í hlutastarf í rn. sem m. a. hefur það verkefni að skipuleggja og koma á fræðslu um tannhirðu og tannvernd í skólum og heilbrigðisstofnunum um allt land og fá tannlækna til starfa í strjálbýli. Loks greiðir ríkið hluta tannlæknakostnaðar. en gerði það ekki fyrir árið 1974.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. þessu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.