24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4800 í B-deild Alþingistíðinda. (4217)

264. mál, tjón af hringormi í fiski

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Vandamál hringorms í þorskafurðum hefur verið rætt tvívegis hér á hv. Alþingi eftir áramót, í fyrsta sinn í sambandi við fsp. sem fram var borin varðandi selafrv. og síðan þegar það frv. var lagt fram í Nd. og hæstv. sjútvrh. mælti fyrir því þar. Þar tók ég einnig til máls og viðhorf mitt til þessara mála kom fram við þá umr. Ég vil hér aðeins nefna það að á nýafstöðnu Náttúruverndarþingi 13.—15. apríl s. l. var gerð svohljóðandi ályktun um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta:

„Fimmta Náttúruverndarþing 1984 telur núverandi ástand í selveiðum algerlega óviðunandi og óréttlætanlegt að leyfa útgerð á sel með skotvopnum hvar sem er, svo sem á friðlýstum svæðum og látrum. Náttúruverndarþing telur því aðkallandi að hraðað verði setningu laga um selveiðar hér við land. Varðandi frv. það sem lagt hefur verið fram á Alþingi leggur þingið eindregið til að 3. gr. frv. verði breytt.“

Þetta er tilvitnun í ályktun. Síðan er 3. gr. frv. rakin og síðan þær breytingar sem Náttúruverndarráð leggur til að gerðar verði á henni. Hún yrði þá með sama orðalagi og var er frv. kom frá stjórnskipaðri nefnd sem samdi frv. En það er eina breytingin að ég hygg, sem gerð var á því við framlagningu frá því sem nefndin gerði, að 3. gr. er breytt. Náttúruverndarþing leggur til svohljóðandi orðalag:

„Til aðstoðar sjútvrn. um stjórn og skipulagningu selveiða skipar ráðherra nefnd til tveggja ára í senn og skal hún skipuð 5 mönnum. Skal einn nm. skipaður skv. tilnefningu Náttúruverndarráðs, einn skv. tilnefningu Hafrannsóknastofnunar, einn skv. tilnefningu Búnaðarfélags Íslands, einn skv. tilnefningu Fiskifélags Íslands, en einn án tilnefningar. Ráðh. skipar formann nefndarinnar úr hópi þessara 5 manna. Tillagna nefndarinnar skal leitað vegna setningar reglna og annarra ákvarðana er varða selveiðar og ber nefndinni að gera tillögur til sjútvrn. um hvaðeina er hún telur ástæðu til í sambandi við stjórnun og skipulagningu selveiða.“

Þetta er sú breyting sem Náttúruverndarþing leggur til að gerð verði á frv. um selveiðar við Ísland. „Að öðru leyti tekur þingið ekki afstöðu til frv. enda ekki haft tækifæri til að kynna sér það,“ segir í niðurlagi ályktunar þingsins.

Ég vil aðeins bæta því við að ég er sammála þessu viðhorfi Náttúruverndarráðs varðandi þetta frv. að æskilegt væri að breyta því í þetta horf. Hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða og ég tel að skylt sé að um það sé haft samráð við hagsmunaaðila náttúruverndaraðila sem og aðra sem þetta mál varðar, með formlegum hætti eins og hér er gerð till. um. Ég greiddi því þessari ályktun atkvæði mitt á Náttúruverndarþingi.

Ég vil svo vara við alhæfingum sem fram hafa komið í sambandi við þetta mál. Ég tel að vitneskja sé allsendis ófullnægjandi varðandi líffræðilegan þátt málsins og menn ættu að varast að taka undir sjónarmið eins og fram hafa komið. Að vísu hvatti hæstv. fyrirspyrjandi til þess að aðgát yrði höfð í málinu en hann var samt að vísa til þess að selurinn mundi éta 75 þús. tonn af þorski sem jafngildi því sem 25 togarar afli. Á bak við svona sjónarmið getur leynst það viðhorf, sem hefur heyrst, að það bæri að farga selnum til þess að auka þorskveiðina hér við land. Þarna vantar mikið á þekkingu okkar áður en menn fara að taka ákvarðanir um þetta mál.