03.11.1983
Sameinað þing: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

48. mál, stöðvun framkvæmda við byggingu Seðlabanka Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sjónarmið sem hér hefur komið fram og var svo faglega orðað, að það væri hlálegt að vera að byggja yfir peninga sem ekki væru til. En hitt er athyglisvert við þá þáltill. sem hér liggur frammi, að orðalag hennar er ekki í samræmi við það markmið sem kemur fram í nafni hennar. Og þó maður lesi grg. verður maður einskis vísari um það hvort við stöðvum byggingu Seðlabankans þó við samþykktum till., því að í lokaorðum ályktunarinnar er allt dregið til baka sem sagt er í upphafinu. Ef það er rétt, sem fram kom hjá viðskrh., að svo gott sem allt sé búið að bjóða út, til hvers er þá að stöðva útboð eftir á þegar búið er að bjóða út? Mér er þess vegna ekki ljóst hvort flm. hefur viljandi ekki kafað ofan í málið. Og hefði hann þó átt að geta fengið nægar upplýsingar um það hvort búið er að bjóða verkið út að öllu leyti eða hvort enn er eftir að bjóða út, sem hlýtur þó að vera aðalatriði þessa máls.

Ég vil einnig undirstrika það að Alþb.- menn geta ekki látið svo hér í þingsölum að þeir hafi viljað stöðva þetta mál en verið ofríki beittir í seinustu ríkisstj. Það vill nú svo til að formaður þeirra hélt því óspart á lofti að þeir hefðu neitunarvald, sem frægt er. (Gripið fram í: Það var ekki í Seðlabankabyggingunni.) Það var ekki í seðlabankabyggingunni, heyri ég að hann tuldrar hér. (Gripið fram í.) Ef neitunarvaldið hefur ekki náð yfir seðlabankabygginguna þá ber að skilja hv. 3. þm. Reykv. á þann veg að ríkisstj. hafi ekkert yfir Seðlabankanum að ráða. (Gripið fram í: Það verður þá að kalla á Tómas Árnason, hann var viðskrh.) Ég hygg nú að það dugi enginn útúrsnúningur í þessu máli. Hv. þm. er fullkomlega ljóst að þeir höfðu þetta neitunarvald. Þeir veifuðu því út um allt land sem klókindalega gerðum hlut á sínum tíma. En nú virðist vera svo komið að hv. þm. vildi gjarnan sverja það af sér í þessu máli.

Ef við lítum örlítið lengra þá fer það ekki á milli mála að einn af Seðlabankastjórunum var skipaður af Alþb. til þeirra starfa. Ég veit ekki hvort það er rétt, en sagan segir að byggingarframkvæmdirnar heyri undir hann.

Það skyldi þó aldrei vera að það hafi líka á sínum tíma verið formaður í Seðlabankastjórninni, þingkjörinn, sem sá um hönnun byggingarinnar? Ekki veit ég það. En ég vildi gjarnan að það yrði upplýst hér og nú, annaðhvort af flm. þessarar þáltill. eða af viðskrh., hvað það er sem ekki er búið að bjóða út. Því ég hygg að það sé miklu styttra mál að gera grein fyrir því.

En ég vil taka undir það sjónarmið sem hér hefur komið fram að það er vissulega storkun við afþýðu þessa lands að það skuli geta gerst að á sama tíma og þrengingar ná inn á hvert einasta heimili skuli þetta fljóta sjálfvirkt áfram. Það má vel vera að fjmrh. hafi það vald sem hann ræddi um hér áðan, að hann gæti haft áhrif á þróun ritálsins. Og eitt vil ég líka taka sterkt undir sem hér hefur komið fram í þessum ræðustóli, að auðvitað er það eðlilegt að hagnaði af rekstri Seðlabankans sé skilað til ríkissjóðs, að eigandinn fái arð af sinni eign, ef um arð er að ræða.