24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4804 í B-deild Alþingistíðinda. (4220)

264. mál, tjón af hringormi í fiski

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ekki skal ég svo mjög etja kappi við síðasta ræðumann sem er, eins og hann sagði sjálfur, reyndur fiskverkandi og hefur stundað þá atvinnu sem atvinnurekandi í mörg ár. Hins vegar verð ég að segja að ræða hans olli mér mikilli furðu. Hann gagnrýnir það að hér skuli rætt um hringorminn og þann vanda sem hann skapar í íslenskum fiskiðnaði. Ég held að okkur beri skylda til að ræða þau mál. En hvað hringormurinn og þau vandamál sem hann skapar koma við aflúsun íslensku þjóðarinnar á sínum tíma fæ ég ekki séð og sýnist mér slík röksemdafærsla gjörsamlega út í hött.

Það er alkunna og það veit hv. þm. Skúli Alexandersson líka að hringormur í fiski hér hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Hann er ekki aðeins í þorski, hann er í öllum fiski sem hér veiðist á grunnslóð. Hann er í hrognkelsum, hann er t. d. í blálöngu og hann er í öllum fiski sem veiðist á grunnslóðinni. Dregið hefur úr selveiðum og ljóst er að samband er milli stækkunar selastofnsins við landið og aukningar hringorms. Hv. þm. þurfa ekki annað en að tala við það fólk sem vinnur í hraðfrystihúsunum hér, t. d. við Faxaflóa og á Snæfellsnesi. Öllum ber saman um það að þetta vandamál hefur farið stórlega vaxandi og það verður með einhverjum hætti að taka því. Við eigum ekki að láta þessa sófanáttúruverndarmenn og kvikmyndaleikkonur úti í stórborgum Evrópu segja okkur neitt fyrir verkum í þeim efnum. Við verðum að gera þær ráðstafanir sem duga. Það er alveg öruggt mál að gera þarf ráðstafanir til að fækka selum við Ísland. Við verðum bara að líta á þá köldu staðreynd að þeir eru keppinautar okkar í baráttunni um efnahagsleg gæði og lífskjör — mat. Við verðum að hegða okkur samkvæmt því.

Þess vegna þykir mér það furðu gegna að ræður á borð við þá sem hér var haldin síðast skuli yfirleitt heyrast á hinu háa Alþingi. Við eigum auðvitað að fara með gát í þessum efnum en ég hygg að það sé allra mál sem til þekkja að þarna verðum við að bregðast við. Það er alveg ástæðulaust að koma hér í þennan ræðustól og gera lítið úr þessum málum. Ég vil hins vegar geta þess að lokum að ég tel að hv. þm. Gunnar G. Schram eigi þakkir skildar fyrir að vekja athygli á þessu máli hér.