24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4805 í B-deild Alþingistíðinda. (4222)

292. mál, ráðstöfun kjarnfóðurgjalds

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 567 hefur hv. 6. þm. Suðurl. beint fsp. til mín um ráðstöfun kjarnfóðurgjalds.

Fyrsta spurningin er: Hverjar voru tekjur af kjarnfóðurgjaldi árið 1983? Skv. upplýsingum Framleiðsluráðs námu þær tæpum 103 millj. kr.

Í öðru lagi: Hvernig var þeim varið? Á árinu 1983 voru skv. sundurliðun samtals gjaldfærðar 124 millj. kr., sem er nokkru meira en tekjur þessa árs, og hefur þá verið ráðstafað bæði því sem áður var innkomið og að einhverju leyti því sem kom inn eftir áramót. Þetta skiptist í altmarga liði: greiðslur vegna vorharðinda 11.4 millj. kr., gjöld vegna mjólkuruppgjörs 1980, leiðréttingar, 4 þús. kr., greitt til mjólkurframleiðenda á hvern lítra mjólkur 34.3 millj., gjöld vegna kindakjötsuppgjörs 1981–1982 63 þús. kr., greitt sauðfjárframleiðendum á hvert kíló kjöts 1. og 2. verðflokks 1982 22.4 millj., greiðsla vegna verðlækkunar á kindakjöti á s. l. hausti 14 millj., greitt nautgripakjötsframleiðendum 1. og 2. verðflokks 4.2 millj., gjöld vegna alifuglaframleiðslu 236 þús., vegna svínakjötsframleiðslu 115 þús., greitt Áburðarverksmiðju ríkisins 40 millj., niðurfelling kjarnfóðurgjalds vegna loðdýrafóðurs 138 þús., stimpilgjöld o. fl. 50 þús., ýmis skrifstofukostnaður 244 þús. og önnur gjöld 16 þús.

Þriðja spurningin er: Hvað eru þessar tekjur áætlaðar miklar árið 1984 og hvaða áætlanir liggja fyrir um ráðstöfun þeirra? Það er ákaflega erfitt að segja fyrir fram um hvað tekjur muni verða miklar þar sem það er svo mörgum óvissuatriðum háð. Auk prósentuupphæðarinnar má benda á innkaupsverðið, gengisþróun og svo, eins og hv. fyrirspyrjanda er augljóst, hefur tíðarfarið bæði vor og haust ákaflega mikið að segja. Ég þori því ekki að segja hvað þarna verður um mikla hækkun að ræða frá fyrra ári.

Um ráðstöfun á þessu ári liggja fyrir upplýsingar um hverju hefur þegar verið ákveðið að ráðstafa. Það er fyrst og fremst það sem greitt er til mjólkurframleiðenda á hvern lítra mjólkur sem innlögð var vetrarmánuðina þar sem reynt hefur verið að jafna mjólkurframleiðsluna milli sumars og vetrar. Sú upphæð er 15.5 millj. kr. fyrstu þrjá mánuðina.

Að öðru leyti tengist ráðstöfuninni það sem felst í fjórðu spurningunni: Hvers vegna var ekki hluta gjaldsins ráðstafað upp í áburðarverð í ár eins og árið 1983? Þegar ég féllst á tillögu stjórnar Áburðarverksmiðju ríkisins um áburðarverð í vor, þ. e. það verð sem hún þyrfti að fá fyrir áburðinn, skýrði ég forstjóra verksmiðjunnar frá því að það yrðu athugaðir allir möguleikar á að greiða niður áburðarverðið eins og gert var þrívegis á s. l. verðlagsári.

Á s. l. vori var, eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, tekið 40 millj. kr. lán til að greiða áburðarverð niður og einnig ákveðið að verja 40 millj. af kjarnfóðurgjaldinu. Mér virðist gæta þess misskilnings hjá fyrirspyrjanda að þessar 40 millj. af kjarnfóðurgjaldi hefðu lækkað verðlag búvöru. Sá hluti kjarnfóðurgjaldsins kom inn í búvöruverðið og hafði því ekki áhrif sem bein niðurgreiðsla. Í stað þess að það kæmi fram í áburðarverðinu kom það fram í kjarnfóðurliðnum.

Síðar var tvívegis ákveðið að greiða niður kjarnfóðurlið verðlagsgrundvallarins, fyrst við verðlagninguna 1. okt. s. l. og aftur 1. febr. Fyrra skiptið var varið til þess tæpum 20 millj. kr. og síðara skiptið um 8 millj.

Það hefur komið fram að umræða stendur yfir um að athuga möguleika á að færa nú enn aftur til af kjarnfóðurgjaldi til að lækka áburðarverðið. Umræður um það standa yfir, en ákvörðun hefur ekki enn verið tekin þannig að ég þori ekki að segja hver verður niðurstaðan. En á sama hátt og slík tilfærsla kom inn í áburðarverðið í fyrra mundi hún vitanlega gera það núna.

Ég vil til skýringar taka fram að af þessari verðhækkun, 43.5%, sem er skráð núna á verði til kaupenda, eru 24% vegna niðurgreiðslnanna sem ákveðnar voru í fyrravor, þ. e. með lántökunni og ráðstöfun fjár af kjarnfóðurgjaldi, en 19.4% er hækkun sem Áburðarverksmiðjan fær vegna aukins framleiðslukostnaðar milli tímabilanna annars vegar frá júní 1982 til júní 1983 og hins vegar frá júní 1983 til júní 1984, sem er framleiðslutímabil verksmiðjunnar á þeim áburði sem seldur er á hverju sumri. Miðað við verðbólgu milli þessara tímabíla held ég að telja megi að það sé lágt. — En ég get á þessari stundu ekki svarað fjórðu spurningunni nákvæmar en þetta.