24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4808 í B-deild Alþingistíðinda. (4225)

292. mál, ráðstöfun kjarnfóðurgjalds

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa hreyft þessu máli eins og hér hefur komið fram. Ég tel að ástæða sé til að fjalla um þessi mál hér á hv. Alþingi þó að það verði ekki gert nema mjög stuttlega í fyrirspurnartíma.

Ég hjó eftir því í svari hæstv. ráðh. að hann treystir sér ekki til að gefa svör við því hverjar væru áætlaðar tekjur kjarnfóðursjóðs á þessu ári. Það er vitaskuld ekki hægt að gefa nem tæmandi svör við slíkri spurningu, en það má þó fara nokkuð nærri áætlunum ef ekki eru fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á innheimtu kjarnfóðurgjaldsins. Mig langar til að fara fram á það við hæstv. ráðh. að ef einhverjar breytingar hafa þegar verið gerðar varðandi þessa innheimtu komi það hér fram. Ef svo er ekki þarf ekki svör við því. Ef ekki eru fyrirhugaðar veigamiklar breytingar á þessari innheimtu má öllum ljóst vera að um verulega fjármuni er að tefla. Þegar ætti að vera farið að leggja, a. m. k. að verulegu leyti, á ráðin um hvernig þeim skuli ráðstafað. Ég tel að það hefði verið ákjósanlegt og réttmætt að ráðstafa hluta af kjarnfóðurgjaldinu til að greiða niður áburð eins og gert var á síðasta ári.

Það er rétt hjá hæstv. ráðh. að sá hluti kjarnfóðurgjalds sem til slíkra þarfa rennur kemur inn í verðlagsgrundvöll búvara til gjalda og bændur fá þá þann hluta skattsins uppi borinn í búvöruverði. Svo er raunar um alla þá þætti kjarnfóðurgjaldsins sem ráðstafað er til annars en verðjöfnunar og verðuppbóta skv. lögum um Framleiðsluráð og samkv. reglugerð við þau lög, sem sett voru að ég ætla á árinu 1982.