24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4808 í B-deild Alþingistíðinda. (4226)

292. mál, ráðstöfun kjarnfóðurgjalds

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Gleðilegt sumar. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli og tek undir það með honum og hv. 11. landsk. þm. að það er með öllu ósamrýmanlegt markmiðum hæstv. ríkisstj. um að halda verðhækkunum á þessu ári innan við 10% að áburðarverð skuli eiga að hækka um milli 40 og 50%. Það fer ekki heim og saman. Ég tek undir það að réttlætanlegt hefði verið að kjarnfóðurgjald hefði, a. m. k. að hluta til, runnið til að greiða niður áburðarverðið auk einhverra annarra ráðstafana sem hefðu að mínum dómi þurft að koma til til að hindra þessa gífurlegu verðhækkun. Það er eins og menn vita staðreynd að áburður hefur hækkað meira flest undanfarin ár en aðrar rekstrarvörur til bænda og yfirleitt meira en numið hefur verðhækkunum á hverju ári. Við svo búið má ekki standa.

Ég vil að lokum fullyrða, herra forseti, að landbúnaðurinn er á engan hátt undir það búinn að greiða þetta okurháa áburðarverð á þessu ári eins og þar árar. Hann hlýtur því að gera þá kröfu til hæstv. ríkisstj. að hún reyni að halda verðhækkunum á áburði a. m. k. í einhverju samræmi við hækkun. annars verðlags og hækkun á afurðaverði til bænda.