24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4809 í B-deild Alþingistíðinda. (4229)

446. mál, lánsfjáröflun með ríkisvíxlum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. spyr hvaða verkefni ríkissjóðs séu svo arðbær að þau réttlæti þá ávöxtun sem ríkissjóður býður upp á, t. d. með sölu ríkisvíxla. Í öðru lagi: Ef viðkomandi verkefni skila ekki arði hvernig á þá að greiða vextina? Mitt svar er svohljóðandi:

Andvirði seldra ríkisvíxla er ekki varið til sérstakra afmarkaðra verkefna. Peningar þeir sem inn koma eru lagðir inn á viðskiptareikning ríkissjóðs hjá Seðlabankanum og lækka um leið yfirdrátt ríkissjóðs hjá bankanum.

Með lögum nr. 79 frá 1983, um innlenda lánsfjáröflun ríkissjóðs, var fjmrh. heimilað að selja víxla til að afla lánsfjár. Jafnframt var tekið fram að ríkissjóður væri ekki bundinn af vaxtakjörum sem Seðlabankinn ákvæði. Í nágrannalöndum er það svo að ríkissjóður verður að leita á almennan markað eftir rekstrarfé. Heyrir það til undantekninga að unnt sé að nota reikninga seðlabankanna eins og gert er hér á Íslandi. Ég tel sjálfsagt að stefna að því að ríkissjóður verði að sækja sér lánsfé með sama hætti og aðrir í þjóðfélaginu. Um leið ættum við þá að gera okkur grein fyrir hvað það fé kostar. Nafnverð seldra ríkisvíxla er nú 47.5 millj. kr. en kaupverð 44.8 millj. kr. Meðalvextir eru því 25.8% sem vissulega eru háir vextir. Hins vegar er hér um að ræða fjáröflun, sem ekki hefur verið reynd áður, og tel ég ljóst að smám saman muni vextir nálgast önnur þau kjör sem almennt eru boðin á markaðnum.

Svör mín við fsp. hv. þm. verða: Við fyrsta tölulið: Andvirði víxlanna er ekki varið til sérstakra verkefna. Með hliðsjón af því er fram kemur í þessu svari mínu við fyrsta tölulið tel ég mig hafa svarað öðrum tölulið samtímis.