24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4810 í B-deild Alþingistíðinda. (4230)

446. mál, lánsfjáröflun með ríkisvíxlum

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans og lýsi því yfir að ég tel í sjálfu sér eðlilegt að ríkissjóður afli sér lánsfjár með svipuðum hætti og önnur fyrirtæki. Ég tel aftur á móti mjög óheilbrigt að hann noti sér þá aðstöðu sem hann hefur umfram aðra aðila á lánsfjármarkaðnum, að geta boðið betri vaxtagreiðslur en menn almennt geta í venjulegum rekstri, og þar með annars vegar dregið til sín óeðlilega mikið fjármagn miðað við það sem í boði er og svo hins vegar spennt upp vaxtakjör á lánamarkaði með þeim hætti að fyrirtækjarekstur líði þar með undir því að þurfa að keppa við þennan aðila á lánamarkaðnum og hljóta endanlega að verða undir í slíkri baráttu þar sem ekkert fyrirtæki hefur þá aðstöðu sem ríkissjóður hefur: að geta sótt það sem upp á vantar, þegar greiða þarf tilskilda vexti, í vasa skattgreiðenda.