24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4810 í B-deild Alþingistíðinda. (4231)

309. mál, vaxtakjör viðskiptabankanna

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Þessi fsp. tengist að nokkru þeirri fsp. sem hér var rædd rétt í þessu. Hún er mjög einföld. Hún er til hæstv. viðskrh. og hljóðar svo:

1. Hefur viðskrh. gefið samþykki sitt fyrir þeirri innlánsvaxtabreytingu sem Iðnaðarbankinn og Landsbankinn höfðu forgöngu um í bankakerfinu?

2. Hvaða afleiðingar telur ráðh. að þessar breytingar hafi á almenn útlán bankanna síðar á árinu?

Ég þykist vita að hæstv. viðskrh. segi eitthvað á svipaða leið og seðlabankastjóri, að þetta sé bönkunum í sjálfsvald sett skv. ákvörðun Alþingis. En ef hæstv. viðskrh. segir eins og seðlabankastjóri, að útlánsvextir verði ekki hækkaðir, þá fer nú ýmsum að ganga illa við það reikningsdæmi hjá bönkunum almennt. Um þetta vil ég auðvitað ekki fullyrða á þessu stigi, en mér þótti þessi yfirlýsing seðlabankastjóra býsna athyglisverð. Kapphlaupið sjálft milli bankanna varðandi innlánsvextina er vægast sagt vafasamt og yfirboðin hin undarlegustu, alveg sérstaklega í ljósi þeirra afkomutalna sem margir bankar hafa látið frá sér fara. Maður spyr sig óneitanlega að því hvort þær tölur séu þá marktækar, svo sem afskriftir, verðbreytingafærslur, varasjóðstillög og fleira, sem bankarnir færa mjög ríflega hjá sér, ásamt öðrum reikningskúnstum, sem eru víst allar löglegar, hvort afkoman sé þá í reynd allt önnur og betri. Að vísu hefur hæstv. ríkisstj. aumkað sig yfir þessa allsleysingja og hefur í hyggju að lækka á þeim skattana. En skammt hrekkur það þó í þessu kapphlaupi yfirboðanna, sem nú er í algleymingi, ef bankarnir geta ekki komið á móti með hækkun útlánsvaxta. Afleiðingin, eins og ég sé hana fyrir mér, varðandi afkomu bankanna síðar á árinu hlýtur í raun og veru að verða stórhækkun útlánsvaxta. Þeir bankastjórar sem ég þekki best viðurkenna að svo hljóti að verða. Og afleiðing þess, sem er þá í beinu framhaldi af því kapphlaupi sem nú er háð, þessara yfirboða sem nú eru í gangi, afleiðing þessa fyrir hinn almenna mann í landinu hlýtur að verða á eina lund. Mér þykir hins vegar forvitnilegt að heyra viðhorf hæstv. viðskrh. til þessara mála og hef því lagt fram þessa fsp. Sér í lagi fýsir mig að vita hvort viðhorf hans og seðlabankastjóra fara saman í þessum efnum.