24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4811 í B-deild Alþingistíðinda. (4232)

309. mál, vaxtakjör viðskiptabankanna

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hefur viðskrh. gefið samþykki sitt fyrir þeirri innlánsvaxtabreytingu sem Iðnaðarbankinn og Landsbankinn höfðu forgöngu um í bankakerfinu? spyr hv. 2. þm. Austurl. Svarið við því er: Ákvarðanir um vexti innlánsstofnana eru hvorki háðar samþykki ríkisstj. né viðskrh. nema um sé að ræða vexti af afurða- og rekstrarlánum atvinnuveganna. Þá er samþykki ríkisstj. áskilið, sbr. 37. gr. laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 10/1961, um Seðlabanka Íslands, er það Seðlabankinn sem hefur rétt til að ákveða hámark og lágmark vaxta sem innlánsstofnanir mega reikna af innlánum og útlánum. Sú hækkun innlánsvaxta sem er tilefni þessarar fsp. byggir á vaxtaauglýsingu bankans frá 21. jan. s. l. sem gefin er út í samræmi við þessa lagagrein. Á hinn bóginn segir í 4. gr. laga nr. 10/1961 að Seðlabankinn skuli í öllu starfi sínu hafa náið samstarf við ríkisstjórnina. Það er óumdeilt að Seðlabankinn gætti þessa ákvæðis við útgáfu títtnefndrar vaxtaauglýsingar.

Hvaða afleiðingar telur ráðh. að þessar breytingar hafi á almenn útlán bankanna síðar á árinu? spyr hv. þm. Ég vil svara því á þá lund að það er erfitt á þessu stigi máls að segja fyrir um þær afleiðingar sem þetta skref mun hafa. Þó má öllum vera ljóst að almenn útlán bankanna dragast ekki saman vegna þess að innlánsvextir eru hækkaðir. Líklegra er að áhugi almennings á því að leggja fé sitt í banka aukist, en það mun skapa aukna möguleika fyrir bankana til útlána. Hins vegar er ástæða til að vara við of mikilli bjartsýni í þessum efnum. Traust almennings á bankakerfinu verður tæplega endurvakið í einni svipan eftir óðaverðbólgu liðinna ára, en við skulum vona hið besta í þeim efnum. Þess vegna er enn róttækari breytinga þörf á öllu peningakerfi landsmanna.

Hvað varðar vaxtakjör útlána síðar á árinu vil ég vitna til orða Jóhannesar Nordals seðlabankastjóra sem hann lét falla á ársfundi Seðlabankans í síðustu viku og hv. þm. vék að hér í sinni fsp. Seðlabankastjórinn sagði orðrétt: „Seðlabankinn mun ekki skipta sér af því hvaða vexti innlánsstofnanir bjóða. En þær geta hins vegar ekki búist við því að útlánsvextir verði hækkaðir þótt þær bjóði nú hærri innlánsvexti. Það verður fyrst að sýna sig hvað innlánsstofnanirnar geta boðið í þessum efnum og hvaða áhrif hækkaðir innlánsvextir hafa á samkeppnisstöðu þeirra.“ Ríkisstj. er sammála þessari afstöðu Seðlabankans eins og hún hefur komið fram.